Nokkrir dagar án Davíðs

Í kynningu á Bylgjunni á þættinum ,,Sprengisandi” kom fram að rætt yrði við frambjóðendur til formanns hjá Sjálfstæðisflokknum og að þættinum lyki síðan með viðtali við seðlabankastjóra.

Sprengisandur byrjaði á viðtali við Bjarna Benediktsson og hafi hann kæra þökk fyrir, að eftir ótrúlega stutta hlustun tókst honum, vafningalaust, að koma undirrituðum inn í draumalandið. Náði þó að hlusta á byrjunina á viðtalinu og augljóslega hafði hann ekkert nýtt fram að færa þann tíma sem ég náði að hlusta.

Komið var að Hönnu Birnu þegar ritari var kominn til meðvitundar aftur. Byrjaði hún frekar rólega (á sinn mælikvarða), en ekki stóðu þau rólegheit lengi, því áður en varði var hún búin að setja (segulbandið?) á hraða sem augljóslega var talsvert yfir því sem upptakan hafði gert ráð fyrir og að lokum hljómaði hún eins og síbylja. Minnti flóðið á foss sem tekinn hefur verið upp á myndband og er síðan spilaður hratt, eða þá kyrramynd af fossi sem tekin hefur verið á það löngum tíma að vatnsbunurnar renna saman í eitt og mynda samfellt, óslitið flóð. Er það oft fallegt á mynd, en þegar um er að ræða samfellda bunu orða, sem vel að merkja, merkja ekki neitt, en eiga vitanlega að merkja eitthvað, þá kemur þetta ekki vel út. Í orðabununni náði ég þó að greina að frambjóðandinn sagði, í umræðu um Evrópusambandið að það væri eins og ,,brennandi hús” og að í Grikklandi kenndu allir evrunni um hvernig komið væri fyrir grískri þjóð.

Hér er komið að því að maður verður að falla fram og fagna því að hafa náð að greina, þó ekki væri nema eina setningu í bunulæk Hönnu Birnu. Gott hefði verið, ef stjórnandi þáttarins hefði haft rænu á að spyrja, hinn hraðmælta frambjóðanda, af þessu tilefni um hvernig hún vildi þá lýsa ástandinu á Íslandi í samanburði við hið ,,brennandi hús”, sem hún telur Evrópu vera vegna efnahagsástandsins sem þar ríkir. Er það kannski eitthvert misminni, eða martraðarkenndur draumur, að flokki hennar hafi tekist að koma efnahag Íslands í kaldakol og það svo rækilega að landið er búið að vera á framfæri alþjóðasamfélagsins í bráðum þrjú ár. Fyrir nú utan þá skráveifu sem hagsnillingum Sjálfstæðisflokksins tókst að velta yfir á útlendinga í afskrifuðum lánum, sem taldar eru nema a.m.k. 7 til 8 þúsund milljörðum króna.

Varðandi fullyrðingu frambjóðandans um Grikkland, er það að segja að hún er í besta falli ,,Sigmundsk”, því vitanlega er það ekki svo að ,,allir” grikkir kenni evrunni og ESB um hvernig komið er fyrir þjóð sinni. Flestir gera þeir sér vitanlega grein fyrir því að það voru ábyrgðarlaus stjórnvöld Grikklands sem gerði þjóðinni þennan grikk. Að kenna ESB um hvernig fór, er ámóta vitlaust og að kenna slökkviliðinu um eldinn sem það berst við að slökkva. Hugsanlega hefur Hanna Birna ekki mikinn áhuga á að beina umræðunni í þennan farveg, enda voru það íslensk stjórnvöld helmingaskiptaflokkanna sem komu Íslandi þangað sem það er nú.

Þættinum lauk Sigurjón síðan með því að fá til viðtals seðlabankastjórann okkar og var það frekar notalegt, að honum skildi ljúka með upplýsandi viðtali við fagmann eftir hið innantóma gaspur formannskandídatanna tveggja. Liggur við að finna megi til samúðar með væntanlegum landsfundarfulltrúum, að standa frammi fyrir valinu, en kannski þeir skili bara auðu, eins og svo oft áður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband