Verksmiðjubú?

Ritari átti þess kost að fara á fund í fyrradag og hlusta á erindi sem Björn Sigurbjörnsson fyrrv. ráðuneytisstjóri flutti. Fjallaði hann þar um regluverk Evrópusambandsins í landbúnaðarmálum og áhrif aðildar Íslands að sambandinu á íslenskan landbúnað.

 

Björn kom með skilgreiningu á hugtaki sem æði oft hefur verið kastað fram í umræðum um landbúnaðarmál, án þess að fyllilega væri ljóst hvað átt væri við með notkun þess, nefnilega hugtakinu ,,verksmiðjubú”. Hélt hann því fram að verksmiðjubú væri búrekstur sem ekki þarfnast landnæðis nema lóðar fyrir húsin sem hýstu starfsemina og tilgreindi Björn sérstaklega alifugla og svínabú í því sambandi sem dæmi um starfsemi af því tagi sem hann væri að fjalla um.

 

Ekkert er því til fyrirstöðu að útvíkka þessa skilgreiningu, ef mönnum sýnist svo og gæti þess vegna nær allur búrekstur fallið þar undir. Svo dæmi sé tekið, þá er ekkert því til fyrirstöðu að fá sér mátulega lóð undir fjárhús, eða fjós, hafa skepnurnar inni við fullkomnar aðstæður (engin rigning og rok, hríðarbyljir og hrakningar), kaupa að hey handa þeim og annað sem þær þyrftu með og þar með væri komið hið fullkomna ,,verksmiðju” fjár- eða kúabú.

 

Kenningin er sú að ef bóndinn noti ekki nema óskilgreint lítið land undir starfsemi sína þá sé ekki um ,,land-búnað” að ræða heldur ,,verksmiðjurekstur”. Svona tala náttúrulega bara þeir sem lítið vita um verksmiðjurekstur, telja sig vita nær allt um landbúnað og vilja láta í það skína að sumar búgreinar séu á einhvern hátt ,,óhreinar” og að aðrar séu á einhvern hátt þeim æðri og hreinni.

 

Sé kenningin skoðuð, kemur í ljós að hún á margt skylt við það sem stundum er haldið fram um að iðnaður sem ekki notar að öllu leiti íslenskt hráefni, sé þar með ekki íslenskur. Var, svo dæmi sé tekið, látið liggja að því í skýrslu sem nýlega var samin á vegum Landbúnaðarráðuneytisins.

 

Umræðu af þessu tagi þarf að leggja af, því ef grannt er skoðað, er erfitt að finna verksmiðju sem ekki notast við innflutt hráefni af einhverju leiti og því síður búgrein sem  byggir ekki að meira eða minna leiti á erlendum aðföngum.

 

Ekki einu sinni öruggt að framleiðslan á montfæði fyrir sérvitringa sem kölluð er lífræn, fullnægi skilyrðunum ef að er gáð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband