14.7.2025 | 14:32
Meirihluti ... minnihluti
Minnihlutinn sem reyndi að taka sér meirihlutavald með málæði, situr eftir sár og svekktur og skrifar greinar í Morgunblaðið - ,,blað allra landsmanna"?
Og Gunnar teiknar ,,grátkórinn" á mynd sem birtist í Heimildinni, þar sem hann heldur á textabókinni, sem gera má ráð fyrir að ekki þurfi að horfa á, eftir að sami söngurinn hefur verið sunginn vikum saman.
Tvær fyrirsagnir úr Morgunblaðinu sem hér eru tengdar saman segja sína sögu, því það gæti munað um Sjálfstæðisflokkinn - ... en það er farið úr honum loftið!
Það er dapurlegt að sjá og fylgjast með hvernig burðugur stjórnmálaflokkur sem gæti ,,munað um" hefur hagað störfum sínum á Alþingi að undanförnu.
Talað og talað og talað og notið til þess stuðnings minni spámannanna úr Framsóknar(?) og Miðflokknum, flokknum sem enginn veit fyrir hvað stendur og síst af öllu þeir sjálfir.
Vera kann að Framsóknarflokkurinn hafi einhvertíma sótt fram, fyrir suma en hann hefur ekki gert það að undanförnu, enda margar fjaðrir foknar og tilverugrundvöllur flokksins lítill sem enginn í nútímaþjóðfélagi.
Kjöthakksnagarar og uppákomumeistarar Miðflokksins hafa notið sín undanfarna daga í ræðuhöldum á Alþingi og sannað það, að þeir eru bestir í því að tala um eitthvað fyrir einhverja en án markmiðs eða röksemda, en séu þær síðastnefndu hafðar með, þá halda þær ekki vatni.
Flokkurinn klofnaði út úr Framsóknarflokknum, sem er hugsanlega stjórnmálaflokkur en að hann sæki fram er vafi, en er sem sagt stjórnmálaflokkur að hluta á góðum degi.
Slíkur dagur hefur ekki komið lengi og við eigum ekki von á að það verði í bráð, enda nafnið ekki lýsandi fyrir annað en að um ,,flokk" sé að ræða, því fyrrihluti nafnsins er öfugmæli.
Nú eru flokkarnir þrír búnir að blása út í bili, ,,blaðran er sprungin og úr henni allt" og ekki gott að sjá hvað tekur við í þeim kotum.
Gæti samt verið að Sjálfstæðisflokkurinn næði að jafna sig, ná að tengja og finna fasta landið og að sætta sig við stöðuna eins og hún er og ef menn eru ekki sáttir við hana, má þó alltaf reyna aftur, stilla falska strengi og spila síðan lagið upp á nýtt.
Ef til vill, fá þeir þá herbergið sitt og finna kjölfestuna í myndum sem hanga á veggjum þess kæra rýmis en ef ekki, þá verður bara að taka niðurstöðunni og vinna úr henni eins og hún er, en ekki eins og þeim finnst að hún ætti að vera.