1.5.2025 | 07:10
1. maí
Það kennir margra grasa í Morgunblaði dagsins í dag og er þar fyrst til að taka, að teiknari blaðsins tekur fyrir eitt af furðumálum samfélagsins, það er að segja, ,,hlandspennumálið" voðalega sem upp er komið hjá leigubílstjórnum við Flugstöðina í Keflavík.
Við vonum að þeim takist að halda í sér þar til bænasönglið verður yfirgengið, en hvort svo verður veit víst enginn, því þau mál m.m. hafa farið úr böndunum í slímusetu fyrrverandi ríkisstjórnar.
Hvort svo fer, að menn þurfi að mæta með bleyju í vinnu sína, vitum við ekki en vonum það besta!
Hernaðarbrölt og skak er líka tekið til umfjöllunar í blaðinu svo sem sjá má af myndum sem þar eru og eflaust líka í texta, hafi menn hafa áhuga á að fræðast frekar.
Tilefnið mun vera að menn hafa verið að ,,æfa" sig á hertólum við strendur landsins, því ógnir steðja að, úr austri og vestri og suðri og norðri.
En það er ýmislegt fleira og skemmtilegra sem fjallað er um og ef til vill hefði maður átt að byrja þar.
Þannig er mál með vexti að á frídegi verkalýðsins er vel við hæfi að fjallað sé um formann jafnaðarflokksins þ.e. Samfylkingarinnar.
Kristrún Frostadóttir hefur komið inn á svið stjórnmálanna sem ferskur vindur, en það hefur líka gert önnur kona sem nú er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Við gerum ráð fyrir að hún verði tekin fyrir næst, þó ekki sé nema til að jafnvægis sé gætt í pólitísku tilliti.
Báðar eru þessar konur virðingarverðar og full ástæða er til að við þær séu bundnar vonir.
En það er fleira í blaðinu þennan dag og satt að segja er blaðið fullt að fróðleik.
Við staðnæmumst við frásögn af hagkerfaslagnum mikla sem Trump hinn trompaði hleypti af stokkunum fyrir skömmu.
Inngrip Trumps hefur áhrif á flest um veröld alla, eða allt frá því að setja hagkerfi heimsins á hliðina og yfir í að gefa vonir um að friður verði milli Úkraínu og Rússlands.
Við vonum það besta og reynum að horfa björtum augum til framtíðarinnar sem er sífellt handan við hornið!
Treystum því að menn fari að ræða málin af yfirvegun og rósemi í stað þess sem verið hefur.
Uppáhald fyrrverandi íslenskra stjórnvalda Zelensky er sjálfsagt í mikilli klípu; er búinn með kjörtímabilið en engin leið er til að halda kosningar, þar sem enginn veit hvað er hvers og hvers er hvað í landi þar sem allt er á rúi og stúi.
Hluti þjóðarinnar er flúinn úr landi, landamerki eru og hafa engin verið á stórum köflum og flest það sem þarf í einu þjóðfélagi er í uppnámi.
Við sjáum hvað setur og lesum bókina Bjarmalönd, þó það sé alls ekki víst að það sé þess virði.
En langi mann til að vita hvar hægt er að finna bari austur þar, þá er bókin sæmilegur vegvísir, sem þó mætti stytta um ótal margar blaðsíður!