6.4.2025 | 05:48
Varanleg lausn?
Í vefriti rekumst við á umfjöllun um hugmyndir um hvernig ljúka megi styrjöldinni sem er milli Rússlands og Úkraínu.
Forseti Bandaríkjanna hefur haft ýmislegt á prjónunum varðandi átökin og haft uppi stórar yfirlýsingar um hvernig hann myndi koma á friði austur þar.
Hægt hefur gengið í því efni en við höldum í vonina um að hinn trompaði forseti nái sínu fram í þessu og að úr því verði friður.
Stjórnvöldum í Úkraínu líst mátulega vel á þessar hugmyndir forsetans og fram kemur í miðli sem ritari þekkir lítið, að því er haldið fram að hugmyndir séu uppi um að Bandaríkjamenn taki yfir rekstur kjarnorkuveranna sem eru innan Úkraínu.
Í fyrrnefndum miðli, vefritinu Remix, sem vitnað er til í grein Þjóðólfs er sagt frá hugmyndum Bandaríkjamanna um yfirtöku kjarnorkuveranna í Úkraínu.
Allt er þetta áhugavert og í hugann kemur það sem gengið hefur á, varðandi verið í Zaporizhia en eins og kunnugt er, þá hefur ýmislegt verið þar um að vera og ritara er minnistætt þegar sagt var frá því í fréttum að kjarnorkuverið lægi undir sprengjuárásum Úkraína.
Sagt var síðan frá því að eftirlitsaðilar frá Sameinuðu þjóðunum hefðu komið til eftirlits á aðstæðum í og við verið og að þeim hefði blöskrað að sjá skemmdirnar eftir sprengjur sem Úkraínar höfðu varpað á varnarhjúp þess.
Hjúpurinn hafði þrátt fyrir allt þolað álagið en vandamálið á þeim tíma var að Úkraínar gátu ekki hugsað sér að þiggja orku frá verinu þó svo hún væri gefin en ekki seld.
Nauðsynlegt var að losna við orku frá verinu, til að kjarnaofnarnir ofhitnuðu ekki.
Úkraínuleiðtogar gátu ekki hugsað sér að notast við orku sem menguð væri af rússnesku þjónustuliði og því fór svo, að Rússar fundu leið til að draga úr framleiðslunni án aðstoðar þeirra úkraínsku, enda ýmsu vanir í þeirri tækni sem þarna er notuð.
Í frásögninni, sem vitnað er til hér í upphafi, er sagt frá því að Bandaríkjamenn vilji yfirtaka rekstur kjarnorkuveranna í Úkraínu og eflaust er það ekki fráleit lausn, þó spurningar vakni um hversu vel þeir séu að sér um rússneska hönnun slíkra vera.
Ritari þessa pistils er ekki fær um að dæma í því efni en finnst þó líklegt að rússneskir tæknimenn þekki betur til búnaðar sem er rússneskur að uppruna, en þeir sem bandarískir eru.
Báðar þjóðirnar hafa orðið fyrir óhöppum í rekstri kjarnorkuvera sinna. Til dæmis á Þriggjamílna eyju og í Chernobyl.
Rétt er samt að bæta því við, að þegar óhappið mikla varð í Chernobyl kjarnorkuverinu, þá var það vegna afskipta þeirra sem vissu frekar lítið um kjarnorkuver og því fór sem fór.
Mannleg mistök var það kallað og sýnir að menn eiga ekki að vera að skipta sér af því sem þeir þekkja ekki nægjanlega til og það er væntanlega hægt að gera athuganir á virkni neyðarrafstöðva, án þess að stefna rekstri kjarnorkuveranna í hættu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)