1.4.2025 | 07:19
Skotin og urðuð með jarðýtum
Þau voru að reyna að hjálpa, voru í búningum sjúkraliða, óvopnuð og ógnuðu engum en voru skotin og urðuð eins og um úrgang væri að ræða.
Frá þessu er sagt í The Guardian og frásögnin er ekki fögur.
Miðillinn segir frá því að 15 palestínskir björgunarsveitamenn hafi verið drepnir af Ísraelum og hafa frásögnina eftir fulltrúum frá Sameinuðu Þjóðunum.
Fréttin er ekki fyrir viðkvæma en sagt er frá því að hjálparsveitafólkið hafi verið að sinna sínum störfum, þegar það var skotið og líkunum síðan komið í holu sem búin var til með jarðýtu og að því loknu jarðvegi ýtt yfir.
Eða eins og segir í umfjöllun miðilsins í vélrænni þýðingu:
,,Að sögn mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna (Ocha) voru palestínskir Rauði hálfmánar og almannavarnastarfsmenn í leiðangri til að bjarga samstarfsmönnum sem skotið hafði verið á fyrr um daginn, þegar greinilega merkt ökutæki þeirra urðu fyrir mikilli skothríð Ísraela í Tel al-Sultan-hverfinu í Rafah- borg. Embættismaður Rauða hálfmánans á Gaza sagði að vísbendingar væru um að að minnsta kosti einn hefði verið handtekinn og drepinn, þar sem lík eins hinna látnu hefði fundist með hendur hans bundnar."
Það verður seint á mannskepnuna logið og dapurlegt er að hugsa til þess að þjóðin sem þurfti að þola einhverjar mestu hörmungar sem um getur í heimsstyrjöldinni síðari, sé síðan gerandi í að því er best verður séð, útrýmingu þjóðar sem búið hefur á svæðinu um aldir.
Ekki er það til uppörvunar að á bakvið er einn helsti fulltrúi lýðræðis, sem svo telur sig vera.
Og eftir að hafa breytt búsvæði Palestínumanna í rústum þakta auðn, þá leggur forseti þess ,,lýðræðisríkis" til að palestínska þjóðin verði flutt burt af svæðinu og eitthvað annað.
Nema að sjálfsögðu ekki til Bandaríkjanna, heldur til ríkjanna sem eru í grennd við Ísrael!
Myndirnar eru úr frásögn The Guardian.