7.2.2025 | 08:51
Breytingar í stjórnmálum og forystu
Pólitíkin er skrýtin tík mun eitt sinn hafa verið sagt og það er ekki ofmælt!
Það hafa verið sviptingar í stjórnmálunum að undanförnu.
Kosið var til alþingis í landinu okkar góða og niðurstaðan varð, að Vinstri grænir gufuðu upp og þótti sumum það vera vonum seinna.
Fylgi við hina stjórnarflokkana varð mun minna en menn þar á bæjum höfðu vonast eftir og það fór svo að Sjálfstæðismenn þurftu að halda sér fast í dyrakarmana á herbergi sínu(?) í Alþingishúsinu til að hafa tilveru sína af.
Framsóknarflokkurinn fékk verðuga refsingu og það svo að menn muna ekki hver er formaður flokksins, ef einhver er!
Hver formaður Framsóknarflokksins er þessa stundina muna fáir, eins og áður sagði og enn færri telja sig það nokkru skipta, svo lengi sem hann kemur hvergi að stjórnartaumum.
Formannaskipti eiga að laga stöðuna en hvort svo verður mun tíminn leiða í ljós en einn vænlegur kandidat er á sviðinu hjá Sjálfstæðisflokknum og verður að segjast að hann, sem reyndar er hún, sem er alls ekki verra, hlýtur að teljast efnilegur formaður, er með reynslu úr atvinnulífinu, hefur góða viðkynningu og er málefnaleg í umræðu.
Vinstri græn er horfin eins og fyrr sagði og við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þeim!
Miðflokkurinn er kominn út af Klausturbar og kann það helst í umræðunni að reyna að vera fyndinn og við gerum ráð fyrir að það uppistand muni þróast upp í það að flokknum verði borgið, með því að hann skemmti sjálfum sér það sem eftir er.
Samfylkingin gerði góða kosningu og er tekin við stjórnartaumunum en hvernig það mun gagna með FF&V kemur tíminn til með að leiða í ljós.
Við bíðum og vonum að landinu verði stjórnað af sæmilegu viti, eftir frekar skrýtna tíma í stjórnmálunum undanfarin ár.