6.2.2025 | 14:06
Gaspur og hernaður í krafti auðræðis
Hinn nýi forseti Bandaríkjanna slær um sig og slær hinu og þessu fram og við vitum ekki hvort hann er að koma eða fara en hvað sem því líður, þá gegnir hann einu valdamesta embætti sem um getur og því skiptir það máli hvert hann fer í orðræðu sinni og verkum. Hann hyggst stækka Bandaríkin með því að bæta við þau Gaza og gera landsvæðið að baðströnd í eigu Bandaríkjanna.
Gaza er nokkuð langt frá Bandaríkjunum en það skiptir ekki máli í þessu samhengi, því eins og dæmin sanna má sigrast á vegalengdum og það hafa Bandaríkin gert í yfirgangi sínum í heiminum um langan tíma.
Afrekin eru nokkur, ef afrek skildi kalla og verða ekki öll talin upp hér en minna má á, að þau eru fyrsta og eina ríkið sem varpað hefur kjarnorkusprengjum á aðra þjóð, þjóð sem sýnt hafði ótrúlegan yfirgang og ósvífni, en fyrr mátti nú fyrr vera!
Þau hafa skilið eftir spor sín til dæmis í Víetnam, Írak og Afganistan og víðar og lagað þar til með sínum sérstaka hætti en stundum gefist upp svo sem Vietnam er gott dæmi þar um, þar sem vart verður enn gengið um landið fyrir huldum jarðsprengjum, þó unnið hafi verið að því að fjarlægja þær í mörg ár.
Vinnan sú hefur kostað lemstrarnir og mannslíf en hvað varðar þá sem þær grófu um það? Og nú stendur til að koma upp baðströnd á Gaza til að ríkt fólk héðan og þaðan að úr heiminum geti notið lífsins!
Til þess að það yrði unnt, voru tugir þúsunda drepnar af gyðingaþjóðinni í einskonar verktöku fyrir ,,lýðræðisríkið" sem svo er kallað, þó réttara væri að kenna það við grímulaust auðræði.
Auðvitað býr fjöldinn allur af ágætisfólki í þessu forysturíki lýðræðisins, sem það er oft kallað, þó réttara væri að kenna það við auðræði en að því sögðu er alls ekki allt svart vestur þar, þó það nú væri!
Ritari hefur verið svo heppinn að hafa ekki reynt nema gott eitt af þeim litlu kynnum sem hann hefur haft af fólki í þessu ríkjasambandi og átti þaðan mágkonu um nokkurra ára skeið eða þar til hún lést langt um aldur fram.
Blessuð sé minning hennar.
Það eru vissulega nokkur handtök sem þarf til að ,,ameríski draumurinn geti orðið að veruleika á Gaza, en það má sigrast á því með stórvirkum tækjum; grafa minningarnar, rústirnar og líkamsleifarnar og byggja síðan upp glæsihótel fyrir efnað fólk!
Segir Trump, maðurinn sem segir svo margt.
Það getur verið notalegt að dvelja við Miðjarðarhafið eins og við þekkjum mörg og Trump vill af gæsku sinni(!), sjá til þess að við getum notið verunnar þar sem best.
Allt er þetta af góðum hug sett fram en gallinn er, að sá sem það gerir hefur litla stjórn á sjálfum sér bæði hvað varðar líkamstjáningu og í orðræðu, fyrir nú utan það, að hann veður áfram bæði í orðum og látæði sem líkist helst manni sem búinn er að missa stjórn á sjálfum sér.
Hlutunum er slegið fram og síðan þarf ekki að ræða það meir!
Forseti Bandaríkjanna bauð Netanyahu í heimsókn og þetta er niðurstaðan úr þeim handaböndum og spjalli sem á milli þeirra fór:
Að Gaza skal verða baðströnd fyrir ríkt fólk og fátæklingarnir sem þar eru og þaðan eru búnir að forða sér skulu koma sér eitthvað annað.
Kosningar fóru fram í Bandaríkjunum fyrir skömmu eins og við vitum og síðan hefur þeim verið stjórnað með tilskipunum, upphrópunum og yfirlýsingunum.
Eins og ætíð lifum við í voninni um að Eyjólfur, sem í þessu tilfelli er Bandaríkin, hressist og breytist til hins betra, líti yfir farinn veg og haldi sig við það sem hann hefur vel gert og læri af hinu.
Myndin er tekin af vef CNN.