Könnunin fylgið og raunsæið

Gerð var könnun á fylgi við stjórnmálaflokkana fyrir stuttu og niðurstaðan varð sú sem sjá má á myndinni sem fengin er úr umfjöllun Heimildarinnar.

Skjámynd 2024-07-03 062811Það sem við blasir er að ríkisstjórnin er sú óvinsælasta í langan tíma og það þrátt fyrir náttúruhamfarirnar sem við öll höfum fylgst með og sem ættu að að þjappa þjóðinni saman, frekar en hitt.

Það þarf að fara allt aftur til hrunáranna (2009) til að finna samjöfnuð en þau okkar sem muna þann tíma muna að það var sem fótunum væri kippt undan okkur.

Undirritaður var staddur í Delhi þegar það gerðist og gleymir seint, að það helsta sem sýnt var í sjónvarpi sem var í móttöku hótelsins, voru myndir af ráðherrum Íslands sem virtust vart vita sitt rjúkandi ráð.

Skjámynd 2024-07-03 071936Ívar teiknari Morgunblaðsins sér það, stjórnin Seðlabankans sér það, Vg-ingar sjá það ekki og ekki heldur Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn.

Þannig hefur það verið í ósamstöðu stjórninni sem nú situr en sá er þó munur á, að það eru ekki ævintýramenn utan úr bæ sem hafa verið að setja allt á hliðina, heldur stjórnin sjálf.

Ausið er peningum í allar áttir allt frá ,,kynlegu" 7500 milljóna skuldabréfaútboði og yfir í 30 hektara byggingaráform til að geta rýmt skólahúsnæði fyrir dómstóla svo aðeins tvö dæmi séu tekin af fjáraustri.

Ekkert virkar til að hífa upp fylgið og helsta hreyfingin á því er að það hnikast litið eitt til á milli stjórnarandstöðuflokkanna og örlítið milli stjórnarflokkanna.

Við blasir að þjóðin er búin að fá nóg af stjórnleysi á þeim sviðum sem helst snerta almenning og þó uppi séu Reykjaneseldar, þá hefur það engin áhrif til að þjappa henni saman, að minnsta kosti ekki til að þjappa henni saman um ríkisstjórnina.

Stjórnina sem fer í rútu til Þingvalla með bland og bús til að kynda eldinn í katlinum, lífga upp á tilveruna og stokka upp ráðherrakapalinn.

Það hafa verið kröftug mótmæli fyrir utan Alþingishúsið og það slík, að fara þarf aftur til þess tíma þegar mótmælt var inngöngu í NATO og náttúrulega hrunáranna til að finna samjöfnuð.

Hér verður því ekki haldið fram að ekkert hafi verið gert af viti og góðum hug en það er sem annað standi uppúr og vitanlega er ágætisfólk innan ríkisstjórnarinnar og eflaust vilja menn vel en þeim tekst það ekki, ráða ekki við verkefnið og því hrynur fylgið.

Þjóðin er búin að fá nóg og viðurkenna þarf, að getan er ekki til og hefur ef til vill aldrei verið til og þegar svo er komið, er réttast að hætta, boða til kosninga og viðurkenna vanmáttinn.

Vanmátt sem birst hefur á mörgum sviðum s.s. hvalveiðimáli, draumórarugli um töfrabor til að gera göng til Vestmannaeyja, gestaboð með milljarða kostnaði í Hörpu og fleira og fleira og fleira.

Þegar náttúruhamfarir af þeirri stærðargráðu sem nú geysa duga ekki til samstöðu um ríkisstjórnina sem situr, þá á hún að horfast í augu við raunveruleikann, hætta að hanga saman á líminu, sem heldur hvort eð er ekki, viðurkenna getuleysið og gefa þjóðinni kost á að velja sér nýja leiðsögn.


Bloggfærslur 5. júlí 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband