Þingstörfin og regluverkið

Heimildin segir frá afgreiðslu frumvarps um útlendingamál og það gera fleiri miðlar s.s. Morgunblaðið og Vísir.

Í Heimildinni er sagt frá málinu á eftirfarandi hátt en að mestu er frásögnin byggð á skjáskotum af samskiptamiðlinum X, þar sem ýmsir láta ýmislegt fjúka svo ekki sé meira sagt.

Auk þess sem tjáningarforminu eru skorin þau takmörk, að vilji menn koma máli sínu skilmerkilega á framfæri verða þeir að gera það með ,,viðhengjum".

Heimildin:

,,Ný umdeild útlendingalög voru samþykkt með tæplega 70% meirihluta á Alþingi í dag. Einu þingmennirnir sem kusu gegn lögunum eru úr þingflokki Pírata.  Þingflokkar Samfylkingarinnar  og Viðreisnar sátu hjá í atkvæðagreiðslunni og tóku þannig ekki afstöðu til frumvarpsins. Almenningur, bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna, hefur sérstaklega gagnrýnt Samfylkinguna fyrir afstöðuleysið."

Af þessu sjáum við að málið hefur ekki verið eins mikið umdeilt og ætla mætti af uppslætti sumra fjölmiðla, því það er ekki nema einn flokkur sem greiðir atkvæði gegn frumvarpinu og það er flokkur sem oftar en ekki er ,,á móti".

Ef menn sitja hjá við atkvæðagreiðslu mála á Alþingi má gera ráð fyrir að þeir telji sig hvorki geta verið með né móti; finnist málið vera til það mikilla bóta að ekki sé hægt að leggjast gegn því en líka, að það uppfylli ekki allt það sem viðkomandi hefðu kosið.

Velja því að að sitja hjá til að spilla ekki fyrir framgangi þess góða sem í frumvarpinu felst og eru vitandi um að málið nýtur stuðnings þess meirihluta sem til þess þarf að það nái í gegn.

Þetta þekkja allir sem vilja og langflestir hafa eflaust einhvern tíma lent í því að vera hvorki með né móti einhverju.

Píratar og X-istar kannast lítið við speki af þessu tagi en rétt er að benda þeim skoðanabræðrum á, að það þarf að vera stjórn á þessum málum hvort sem mönnum líkar betur eða ver.

Dómsmálaráðherrann er að reyna að koma skikki á þessi mál eftir margra ára óreiðu í regluverki og það eru ekki margar þjóðir sem vilja fá yfir sig ómældan straum fólks sem ekki virðir lög og reglur samfélagsins, sem mun vera ástæðan fyrir samþykkt laganna:

Að hluti þeirra sem sækja um vist virðir ekki lög og reglur, í fyrsta lagi þekkir þær ekki og á því erfitt með að skilja regluverkið og svo er það með flóttafólk líkt og aðra, að þeir eru líka til, sem ekki vilja virða lög og rétt.

Það er bæði gömul saga og ný og gott er að reynt sé að taka á málunum.


Bloggfærslur 15. júní 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband