19.12.2024 | 07:58
Flygildi, drónaflug og geimganga
Kínverjar skjótast frammúr Bandaríkjamönnum og Rússum í geimsprikli allskonar og eitt það nýjasta sem sagt er frá á CNN.COM, er að þeir hafi sent tvo geimfara í geimgöngu sem stóð yfir í níu klukkutíma.
Hvernig geimfararnir nærðust og sinntu öðrum líkamlegum þörfum sínum kemur ekki fram í umfjölluninni en við gerum ráð fyrir að þeir hafi tekið með sér nesti.
Það er líka rifjað upp í fréttinni að Kínverjar hafi skotið öðrum geimkönnuðum ref fyrir rass, þegar þeir sendu menn til bakhliðar Tunglsins og þaðan síðan heim aftur.
Á Íslandi var verið að ræða það í Ríkisútvarpinu að rannsóknarstöð Kínverja væri ef til vill og huganlega og kannski, ekki öll þar sem hún er séð og vitanlega voru það Bandaríkjamenn sem fyrir því voru bornir.
Við munum að fyrir einu ári eða svo, var ári gaman að fylgjast með fréttum frá Bandaríkjunum, þegar þeir voru að eltast við veðurloftbelgi sem borist höfðu yfir til þeirra.
Belgirnir voru náttúrulega kínverskir og þar sem svo var, tóku þeir bandarísku það til bragðs að skjóta einhverja þeirra niður.
Við gerum ráð fyrir að þeir séu enn að rannsaka hræin, ef þeir þora þá að koma nærri þeim!
Fleira er í þessari kú, því nú eru kanar vaknaðir til lífsins og búnir að búa sér til áhyggjuefni vegna kínverskrar rannsóknarstöðvar sem er hér á ísa köldu landi.
Stöðin mun vera til þess, að rannsaka norðurljósin og líklega óttast Bandaríkjamenn að ljósin slokkni eða breytist ef kínversk augu virði þau fyrir sér.
Annað mjög dularfullt mál er að plaga þá bandarísku þessa dagana og það er, að fljúgandi furðuhlutir sveima nú yfir landi þeirra og borgum þess meira en nokkru sinni fyrr, en eins og svo oft áður fundu menn það út eftir ítarlegt japl jaml og fuður, rannsóknir og tuður, að um væri að ræða flygildi sem fá má í nálægum leikfangaverslunum.
Málið verður sett í nefnd, gerum við ráð fyrir og þaðan yfir í yfirnefnd og að því loknu verður farið að skoða hvort norðurljósin logi, hafi breytt um lit eða stækkað eða minnkað.
Því eitthvað verða menn að hafa að iðja, í vestri sem og annarstaðar.