Eytt sparað og barist

Stjórnendur Reykjavíkurborgar stefna á að tekjuafgangur á næsta ári verði 1,7 milljarður.

Það er nánast á pari við það sem ríkisstjórnin færði forseta Úkraínu að gjöf, eftir að hafa boðið honum á þing Norðurlandanna.

Og það vantar a.m.k. milljarð í rekstur Landhelgisgæslunnar, milljarð sem ekki liggur á lausu.

Ekki hefur ritari séð hve margir hundar og kettir hafa verið fluttir til landsins frá Úkraínu en fram hefur komið, að kostnaður við hvert gæludýr, sem fólkið sem flýr stríðið tekur með sér, kosti íslensku þjóðina 3 milljónir íslenskar auk þes sem það mun kosta um 7 milljónir að taka á móti hverjum flóttamanni.

Ríkissjóður Íslands er rekinn með halla sem meðal annars stafar af fjáraustri í stríðsrekstur, sem íslensku þjóðinni kemur ekki við, nema ef hún myndi manna sig upp í að reyna að stilla til friðar.

Ganga á milli og reyna að bera klæði á vopnin, hvort sem er á milli Ísraela og Palestínumanna, eða Úkraínu og Rússlands.

Þess í stað var farið í barnalega fýlu út í Rússland, sem líkist því þegar börn snúa sér undan og segja ,,ég vil ekki tala við þig"!

Væri dugur og mannsbragur á hópnum sem landinu stjórnar, hefðu menn kynnt sér málin, rekið utanrikisráðherrann, ráðið nýjan og farið í að reyna að miðla málum.

Það hefur verið tregða í ríkisstjórnarnefnunni, á að styðja við flóttafólk sem vill komast á brott frá helför Ísraela.

Helför af öðru tagi en því, sem við munum frá seinni heimstyrjöldinni og er, ef eitthvað er, sýnu verri og viðbjóðslegri en sú sem þá var.

Þá voru það gyðingar sem urðu fyrir ofsóknum sturlaðra manna sem vildu útrýma þeim.

Á endanum tókst að stöðva þann óhugnað, sigra nasista og stöðva helförina - þar áttu Rússar stóran hlut að máli - en nú eru það afkomendur þeirra sem ofsóttir voru þá, sem sprengja fólk í tætlur og drápin bitna jafnt á konum, börnum og körlum, svo samjöfnuðurinn er óhugnanlega sambærilegur.

Nema að það er ef til vill ,,hreinlegra" að drepa fólk með markvissum hætti í þar til gerðum aftökustöðvum en að kasta á það sprengjum, sem ýmist deyða eða limlesta.

Þau sem sleppa lifandi eru löskuð bæði á líkama og sál og oftast hvort tveggja.

Enginn sendiherra hefur verið sendur til síns heima vegna þessa af íslenskri ríkisstjórn og enginn á von á að það verði gert, því undirlægjuhátturinn gagnvart stórveldinu sem í raun rekur hernaðinn í Palestínu, er slíku að það kemur ekki til greina.

Skömmin er ómæld.


Bloggfærslur 9. nóvember 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband