Heimsóknir, ferðalög og gjafmildi

Í fréttum hefur verið sagt frá því að kennarar séu í verkfalli og launakrafan er skýr, því komið hefur fram að hún er upp á eina milljón í mánaðarlaun.

En það eru fleiri sem þurfa sitt og sem dæmi má taka, að ríkissjóður mun standa undir stórum hluta kostnaðar við för 46 fulltrúa til Bakú til að ræða loftslagsmál.

Skjámynd 2024-10-30 065721Í Bakú mun vera margt að sjá og eflaust hefur verið kominn tími á að endurtaka Abú Dabí ferðalagið minnisstæða.

Í inngangi fréttar af flandrinu í Morgunblaðinu er sagt frá því að:

,,Íslenska sendi­nefnd­in sem fer á aðilda­ríkjaþing lofts­lags­samn­ings Sam­einuðu þjóðanna í Bakú í Aser­baís­j­an, COP29, verður skipuð 46 full­trú­um. Í þeim hópi eru 10 manns úr op­in­berri sendi­nefnd auk full­trúa fé­laga­sam­taka á borð við unga um­hverf­issinna og nátt­úru­vernd­ar­sam­tök"

Það er oftast gaman að ferðast um og skoða heiminn og eflaust er ekki verra að gera það á kostnað ríkissjóðs.

Enginn átti von á að ríkisstjórnin væri í sérstöku sparnaðarkasti svona rétt fyrir kosningar og því kemur ekki á óvart að hún veitir líka nokkrum krónum í stríðsreksturinn í Úkraínu og mun það vera uppskera forseta þess lands eftir heimsóknina til Íslands sem nýlokið er.

Skjámynd 2024-10-30 070114Þeir hittust í hráslaganum nýlega og betra þykir að ferðir séu til fjár frekar en hitt og stóri maðurinn á myndinni hefur eflaust vilja vera rausnarlegur við þann sem er við hlið hans.

Einn og hálfur íslenskur milljarður er hvort eð er ekki stór upphæð í hugum hinna hugumstóru stjórnenda þjóðar okkar.

Á visir.is segir eftirfarandi:

,,Einn og hálfur milljarður króna í aukinn stuðning við Úkraínu í fjáraukalögum á að mæta kostnaði við auknar skuldbindingar Íslands sem samið var um á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í sumar. Stuðningurinn fer áfram í þjálfun, kaup á búnaði og hergögnum og framlögum í sjóði sem styðja varnir Úkraínu."

Það er gott að eiga góða að þegar á þarf að halda og það veit Zelensky og það veit Bjarni og þjóð veit þá tveir vita.

Ritara hefði þótt gæfulegra að peningaupphæð af þessari stærðargráðu hefði verið varið í að koma á friði austur þar, að mönnum hefði verið boðið að samningaborðinu t.d. í Höfða og fengnir til að ræða málin.

Trúlega er það ekki eins auðvelt og halda mætti en það hefði mátt reyna og það þó flumbra í ráðherrastóli hafi rekið rússneska sendiherrann heim í flumbrukasti.

En það hefði mátt, viðurkenna mistökin og biðjast diplomatískrar afsökunar og reyna síðan að stuðla að friði milli landanna í stað þess að blása upp ófriðinn, þ.e.a.s. ef það er viðkomandi ekki um megn.

Hér undir lok þess pistils er rétt að benda á frétt sem birtist í dag á CNN.COM og bera það síðan saman við það sem haldið er að íslenskri þjóð um málið.

Þar kemur ýmislegt upplýsandi fram um það sem er að gerast og hefur verið að gerast að undanförnu í málefnum Úkraínu.


Bloggfærslur 31. október 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband