Færsluflokkur: Íþróttir

Ábyrgðarleysi

Þegar íslendingar taka sér frí, fara í útilegu og drekka sig fulla, þá ætlar yfirstjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að koma saman til fundar og ræða um endurskoðun efnahagsáætlunarinnar sem sett var saman fyrir Ísland. Þeir mega vera að því að koma saman til að fjalla um málefni litla eyríkisins þó íbúar þess séu bundnir við annað. Þeir hafa nóg annað að sýsla eins og áður sagði og þjóðþingið er komið í frí líka, þó vonandi sé það ekki til að djamma á útihátíðum.

Líklegra er að komið hafi verið mál á að sum þeirra sem hæst hafa haft og mest talað úr stóli Alþingis hafi haft brýna þörf á að hvíla talfærin og fá tíma til að fletta upp í orðabókum til að sanka að sér stóryrðum, því löngu var orðið ljóst, þeim sem með hafa fylgst, að þau voru orðin uppiskroppa með forðann. Nú má gera ráð fyrir að þau komi endurnærð til  leiks eftir helgina og geti tekið til við fyrri iðju, þjóð sinni til vansa og bölvunar.

Það eru sem sagt útlendingar sem hafa tíma til að ræða mál Mörlandanna, sem eru bundnir við annað eins og fyrr sagði, hafa margt merkilegra að gera en að afgreiða smámál eins og t.d. Icesave. Enda eru foringjar þeirra komnir í vígaham, farnir að bíta í skjaldarrendur og brýna kutana samanber yfirlýsingar æstustu riddara VG- inga, þeirra Ögmundar og Jóns hins áhyggjufulla. Þar fara ekki menn sem verða fullir á útihátíðum, nei, þeir eru fullir af vandlætingu og blóðið í þeim ólgar.

Blóðið getur einnig ólgað í freku grenjuskjóðunum sem finnst allir vera vondir við sig, heimta allt af öðrum og ef það fæst ekki án fyrirhafnar er skriðið út í horn og farið í fýlu. Gera má ráð fyrir að þeim fari eins, félögunum, er á hólminn verður komið því það er löngu sannað að hæst bylur í tómri tunnu og ekki við því að búast, að vígamóðurinn endist þeim lengi.


mbl.is Ísland á dagskrá stjórnar AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband