25.9.2025 | 06:04
Skýringa er óskað
Rússar segjast reiðubúnir til að hitta Zelensky, nefna ýmsa möguleika og t.d. stungu upp á Moskvu sem fundarstað fyrir nokkrum dögum.
Ekki þótti Zelensky það heppilegur staður til að vera á og trúlega hefur honum fundist sem hann væri að stinga höfðinu í gin ljónsins með því að fara þangað og einnig getur svo sem verið, að hann sé í fýlu eftir að þeir Putin og Trump funduðu í Alaska.
Myndi úr Morgunblaðinu sem tengist efni greinarinnar ekki beint.
Trump var að lýsa því yfir að Úkraínar ættu að drífa í að ,,frelsa Úkraínu", sem þýðir væntanlega að ljúka því sem þeir byrjuðu á fyrir mörgum árum síðan og sem varð m.a. til þess, að skotin var niður hollensk farþegaþota sem leið átti yfir Donbass svæðið.
Það er löngu liðinn atburður sem aldrei verður tekinn til baka en er sem dæmi um hve lítið má út af bera, þegar þeim sem ekki kunna með að fara eru fengin í hendurnar hættuleg vopn, en eins og kunnugt er keyptu Tyrkir samskonar búnað af Rússum og allt hefur það farið vel, enn sem komið er.
Í nútímanum er það annað sem við er að fást og í fréttum höfum við séð og heyrt, að drónaflug yfir Kastrup hafi valdið vandræðum og auðvitað eru drónarnir rússneskir eins og flest annað illt þessa dagana.
Allir flugu þeir yfir og allir fóru þeir aftur og a.m.k. sumir ljósum prýddir , eins og við fengum að sjá í sjónvarpsfréttum Rúv og gott ef ekki var spjallað við ,,hernaðarsérfræðing" af íslenskri gerð af því tilefni.
Það er gott, að eiga sérfræðinga á hinum ýmsustu sviðum, sem geta stillt sér upp fyrir framan tölvu til að fræða okkur hin þegar mikið liggur við. ,,Gott er hverri þjóð að eiga ..." o.s.frv., hvort heldur um er að ræða sægarpa ,,hernaðarfræðinga" eða aðra ,,fræðinga.
Við göngum björt og brosandi út í daginn, alsæl, hress og kát, vitandi að allt er í besta lagi allra laga og bíðum spennt eftir því hver verði kallaður næst upp á svið.
Æðingjar eru góðir hver á sínu sviði og svo eru svið líka góð eins og flestir vita!
Rússar eru greinilega orðnir eitthvað illa áttaðir, fyrst þeir grípa til drónaflugs með ljósagangi og öðrum tilþrifum, til þess eins að tufla farþegaflug til og frá Kastrup.
24.9.2025 | 07:38
Allt er það vont og verra en verst
Teiknarar fjölmiðlanna fanga oftast stemmninguna í samfélaginu og pólitíkinni nokkuð vel og segja stóra sögu í einni mynd.
Halldór teiknar fyrir Vísi og Ívar Morgunblaðið og við gerum ekki upp á milli þeirra en njótum þess að virða myndirnar fyrir okkur og undrumst hve mikið er hægt að fanga í eina litla mynd.
Þessi er t.d. eins lýsandi og nokkuð getur verið fyrir ástandið í Bandaríkjunum en þar er boðið upp á forseta sem segir eitt í dag og annað á morgun og engin leið er að giska á hvað kemur þar næst.
Hundskammaði Zelensky á sínum tíma, bauð Putin á fund í Alaska og samkvæmt því sem nýjast er, þá hefur hann þessa stundina botnlausa trú á Zelensky.
Ef til vill hafa skammirnar virkað að mati hins sveiflukennda forseta í ,,guðs eigin landi" til þess, að nú sé hægt að setja traust sitt á hann frekar en Putin, en á morgun getur það verið orðið á hinn veginn.
Hér á ísa köldu, hafa vindar blásið í pólitíkinni en líkt og áður, vantar ekki áhugan á að gera gott í heimsmálunum.
Hvort það tekst og hvort á verður hlustað er hæpið enda blaðrið trúlega ætlað til heimabrúks og svo er alltaf gott að geta ferðast á kostnað þjóðar sinnar og gert sig gildandi í útlöndum.
Við sáum það hjá ,,stjórninni" sem var og við sjáum það hjá þeirri sem er, nema að ekki er enn búið að bjóða Zelensky á Þingvöll og þaðan af síður Putin en það er flandrað og flumbrað og enginn sér fyrir endann á því brölti.
Ríkisstjórnin sem var gerði fátt, en innleiddi flandurshefðina og sýndarmennskuna í afskiptum af utanríkispólitíkinni: í Abú Dabí, Hörpu, Þingvöllum og víðar, engum til gagns en sjálfum sér til upplyftingar.
Leikurinn er í endurtekningu og við bíðum eftir því sem kemur næst og víst er að grínararnir sem teikna í miðlanna munu hafa úr nægu að moða.
22.9.2025 | 09:07
Vitlausara en vitlaust
Yfirskrift þessa pistils er sótt í orðtæki sem bóndi nokkur sem ritari kynntist þegar hann var æskuárum notaði þegar þegar fram af honum gekk bull, sem hann heyrði eða frétti af.
Söngvakeppni Evrópskra sjónvarpsstöðva og hinn háaldraði Woody Allen sleppa ekki frá því að lenda á þessari síðu!
Þegar maður telur sig hafa lesið og frétt flest það sem bæði neikvætt er og sorglegt, þá ber fyrir augu grein í Russya Today, sem verður að teljast með því ótrúlegasta sem um getur.
Og þó, lengi skal manninn reyna og ekkert er nýtt undir sólinni o.s.frv.
Hernaðarátök þjóða kalla trúlega fram flest það versta sem hægt er að ná úr mannskepnunni.
Með fyrirvara um að fréttin geti verið ósönn og/eða byggð á misskilningi, þá gerum við ráð fyrir því versta.
Að þriggja ára barn sé sett á svartan lista nær engir átt hvort sem um er að ræða Úkraínu eða nokkurt annað land.
Við könnumst við frá fortíðinni að nasistum var ekkert heilagt í ofstæki sínu gegn gyðingum og að þeir lögðu sig fram um að ,,útrýma þeim frá sinni þjóð, þ.e. Þýskalandi og enn þann dag í dag er þessi þáttur í sögu Þýskalands bæði sár og þungbær Þjóðverjum, berist hann í tal.
Með fyrirvara um að fréttin sem hér er vitnað til sé ósönn, þá er sorglegt til þess að hugsa að Úkraínar séu komnir á þennan stað.
Við vonum að um sé að ræða uppspuna; tilbúning til að nota í áróðursstríðinu sem er vegna ófriðarins sem er milli þeirra og Rússlands.
Reynist fréttin hins vegar vera rétt, þá er einboðið, að ýmsir verða að fara að endurskoða afstöðu sína og þá eru íslenskir ráðherrar svo sannarlega ekki undanteknir.
Fréttin endar á eftirfarandi upptalningu:
,,Auk rússneskra barna hefur Mirotvorets áður beint spjótum sínum að fjölmörgum alþjóðlegum einstaklingum. Fyrr á þessu ári bættust Hollywood-leikstjórinn Woody Allen, leikarinn Mark Eydelshteyn og rússneska íshokkístjarnan Alexander Ovechkin við og Eurovision-keppandi Ísraels 2024, Eden Golan, var sett á svartan lista fyrir að taka þátt í barnakeppni á Krímskaga þegar hún var 12 ára.
Á listanum hafa einnig verið þekktir Bandaríkjamenn eins og Tulsi Gabbard, forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna, og blaðamaðurinn Tucker Carlson.
Aðrir áberandi einstaklingar hafa verið Zoran Milanovic, forseti Króatíu, Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, Henry Kissinger og tónlistarmaðurinn Roger Waters.
Við leit á netinu fannst þetta, en þar er einnig bent á Wikipediu:
,,Myrotvorets or Mirotvorets is a Ukrainian Kyiv-based website that publishes a running list, and sometimes personal information, of people who are considered by authors of the website to be enemies of Ukraine, or, as the website itself states, whose actions have signs of crimes against the national security of Ukraine, peace, human security, and the international law.
Og í vélrænni þýðingu: ,,Myrotvorets eða Mirotvorets er úkraínsk vefsíða með aðsetur í Kyiv sem birtir hlaupandi lista, og stundum persónulegar upplýsingar, yfir fólk sem höfundar vefsíðunnar telja vera óvinir Úkraínu, eða, eins og vefsíðan sjálf segir, hvers gjörðir hafa merki um glæpi gegn þjóðaröryggi Úkraínu, friði, mannlegu öryggi og alþjóðalögum.
17.9.2025 | 08:09
Orð og efndir
Í Heimildinni er sagt frá því, að störfum hjá hinu opinbera hafi fjölgað um 5000 í tíð síðustu ríkisstjórnar þ.e. ríkisstjórnar Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna.
Talan er ekki nákvæmlega 5000, en í inngangi fréttarinnar segir m.a.: ,,Söðugildi á vegum ríkisins voru 29.054 þann 31. desember 2024 [...]". og síðan:
,,[...] Samkvæmt mælaborði Byggðastofnunar voru 24.343 stöðugildi á vegum ríkisins í lok árs 2017 þegar ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfólks hafði nýtekið við völdum. Fjölgaði því ríkisstörfum um 4.711 á þeim tæpu tveimur kjörtímabilum sem ríkisstjórnin var við völd, eða um rúmlega 19 prósent." Á sama tímabili fjölgaði íbúum Íslands um tæp 14 prósent og því ljóst að ríkisstörfum fjölgaði vel umfram fólksfjölgun."
,,Báknið" fór því ekki burt í tíð Abú Dabí stjórnarinnar, heldur var það kjurt og blómstraði nokkuð vel.
Vitnað er í síðu Sjálfstæðisflokksins en þar segir:
,,Á síðunni Sjálfstæðisstefnan í hnotskurn á vef flokksins segir að kjörorð flokksins séu meðal annars: Báknið burt. Flokkurinn hafði þetta í fyrirrúmi í kosningabaráttu sinni fyrir Alþingiskosningar í fyrra og bar fyrsti kafli kosningaáherslum hans titilinn Minna ríki. Í honum voru tillögur á borð við Fækkum ríkisstofnunum úr 160 í 100 og Bjóðum út verkefni - ríkið þarf ekki að vinna öll verk.
Að því gefnu að Heimildin fari rétt með í frásögn sinni, þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn vikið alvarlega af stefnu sinni á stjórnartímanum sem var undir forystu Vinstri grænna og Framsóknarflokkurinn látið sér gott þykja.
Góðu fréttirnar eru þær, að nú eru Vinstri græn horfin af þingi, Framsóknarflokkurinn skroppinn saman og nánast horfinn og Sjálfstæðisflokkurinn búinn að rifja upp eitthvað af markmiðum sínum!
12.9.2025 | 06:52
Ekkkert er nýtt undir Sólinni... eða hvað?
Á mbl.is í gær 11/9/2025, er sagt frá glímu bandarískra við fljúgandi furðuhluti.
Við sem munum eftir skemmtilegum og upplífgandi ævintýraþáttum frá vinum vorum í vestri, þar sem helstu söguhetjurnar voru Mulder og Skully ef rétt er munað, vissum að þættirnir voru skemmtilegir og spennandi og ekkert meira en það.
Fylgdumst líka með Biden glíma við ógnina sem stafaði af veðurbelgjum sem svifu yfir ,,guðs eigin landi" og munu hafa hrakist undan veðri og vindum frá Kína.
Þá var gengið heldur lengra og a.m.k. einn belgur var skotinn niður og skoðaður með töngum með afar löngu skafti, að því er við gerum ráð fyrir.
Nú er það verra en vont, því fyrirbrigðin eru svo dularfull að þau sjást bara en eru ósnertanleg.
Draugagangur af þessu tagi er alls ekki vanalegur og það ekki einu sinni í bandarískri lofthelgi og það mun vera AFP fréttaveitan sem segir frá.
Þetta er svo áhugavert að ekki er nokkur leið að stilla sig um að láta fljóta með skjáskotin sem fylgja fréttinni; á þeim má sjá, fyrir utan alvörugefna og djúpt hugsandi menn, myndir af því sem hinir bandarísku eru að eltast við síðustu dagana. Takist nnum ekki að koma auga á flygildin, þá er það aðeins til sönnunar þess að þau eru dularfyllri en dularfull!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2025 | 07:50
Að slá á höndina sem nærir
Í aðsendri grein eftir sem finna má á vefmiðlinum Russya Today eftir Nadezhda Romanenko, stjórnmálaskýranda er því velt upp hvort Zelensky ofmeti getu sína til að hafa áhrif.
Þar segir í upphafi að ,,Í viðtali við ABC News um síðastliðna helgi hafi Vladimír Zelensky, leiðtogi Úkraínu, sakað Donald Trump Bandaríkjaforseta um að hafa veitt Vladimír Pútín Rússlandsforseta ,,það sem hann vildi" á leiðtogafundinum í Alaska í ágúst.
Myndirnar eru úr grein R.T.
Ólíklegt verður að telja að forseti Bandaríkjanna skrifi upp á þetta en greinarhöfundurinn bendir á að, það ,,Að gefa í skyn að Trump hafi beygt sig fyrir vilja Pútíns sé að gefa í skyn veikleika og veikleiki sé nokkuð sem Trump þoli ekki að vera sakaður um".
Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu, að forseti Úkraínu ofmeti sjálfan sig og telji sig vera ómissandi og bætir við:
,,Með því að stilla leiðtogafundi Trumps og Pútíns upp með þessum hætti eigi Zelensky á hættu að hrekja frá sér eina vestræna leiðtogann sem sé í stakk búinn til að breyta stefnu stríðsins. [...] Að segja um Trump að hann sé handbendi Pútíns sé að höfða til þessara viðbragða."
Eins og sjá má kemur ýmislegt áhugavert fram í greininni, sem er mun efnismeiri en þessar úrklippur sem hér eru birtar. Þær eru aðeins sýnishorn af því sem fram kemur í grein höfundar.
7.9.2025 | 08:11
Sveitarfélög að sameinast?
Í Morgunblaðinu sjáum við frétt sem ekki lætur mikið yfir sér en boðar tíðindi ef af yrði.
Flóahreppur varð til fyrir nokkrum árum með sameiningu þriggja hreppa þ.e. Villingaholtshrepps, Hraungerðishrepps og Gaulverjabæjarhrepps.
Það hefur áður verið rætt um hvort ekki gæti verið hagkvæmt að sameina Flóahrepp og Árborg og sannleikurinn er sá, að það gæti verið æskilegur kostur.
,,Sameinaðir stöndum vér en sundraðir föllum vér er sígilt orðtak og víst yrði sameiginlegt sveitarfélag öflugra og fjölbreyttara.
Þegar ritari hafði nýlokið við að þennan pistil, var honum bent á þessa aðsendu grein í Dagskránni sem gefin er út á Selfossi, sem er allrar athygli verð!
Nú þarf að fylgja umræðunni eftir, ræða málin, vega og meta og ganga síðan til kosninga ef niðurstaða viðræðna verður sameiningunni hagstæð.
Kostirnir gætu verið margir en ókostir gætu líka fylgt sameiningunni og er þá fyrst að geta, að ,,nándin gæti minnkað og lipurðin líka en hafa verður í huga að sameinað sveitarfélag yrði væntanlega öflugra í ýmsu tilliti.
Eitt af því sem mælir með sameiningu er að sveitarfélögin eru nú þegar að stórum hluta einn vinnumarkaður og íbúar Flóahrepps sækja mikla þjónustu til Árborgar en þaðan sækja menn líka verkefni o.fl. í Flóahrepp.
Eðlilegast er að vinna málið í viðræðum og að niðurstaða þeirra, verði síðan lögð í dóm íbúa í almennri kosningu.
4.9.2025 | 09:11
Ástandið á Gasa
Nokkrir miðlar segja frá ástandinu sem er á Gasa svo sem The Guardian og NRK og hið íslenska Rúv og á myndunum sem fylgja fréttunum, sést að ekki er orðum aukið að ástandið sé skelfilegt.
Forseti Bandaríkjanna hefur tjáð sig á þann veg að hreinsa þurfi svæðið af íbúunum sem þar eru svo hægt verði að gera það að sólarparadís fyrir þá sem þess óska.
Hvort hernaður Ísraels gegn almennum borgurum svæðisins stjórnast af þeim orðum, verður ekki fullyrt hér, en sé það markmiðið þá er hvorttveggja óhugnanlegt þ.e. að firring hins ríka geti verið slík að honum þyki sjálfsagt að fórna heilli þjóð fyrir lúxus og letilíf hinna ríku og eins að þjóðin sem til stóð að útrýma í vitfirringu seinni heimstyrjaldar skuli sjálf standa fyrir því sama.
Líka að viðkomandi finnist svo sjálfsagt að vanvirða lifandi manneskjur fyrir ríka fólkið, að nánast öllu sé fórnandi fyrir fyrir lúxusinn; mannslífum og hverju sem er til að ná því fram sem hinn ríki óskar sér!
Á þessum vettvangi verður ekki farið í að upphefja Hamas og framferði þeirra en óhætt er að segja að líkur sæki líkan heim og hinar fólskulegu árásir á ísraelska tónleikagesti, sem munu vera hið yfirlýsta upphaf helfarar Ísraels gegn Palestínumönnum, verða ekki upphafnar á þessum vettvangi.
Upphaf þessa máls má rekja til þess að Gyðingum var úthlutað landi af alþjóðasamfélaginu eftir seinni heimstyrjöldina, sem er gjörningur sem má hafa ýmsar skoðanir á en eins og við vitum gleymdist að taka tillit til þess að á svæðinu býr fólk.
Gyðingar fluttust til landsins og yfirtóku gjarnan lönd þeirra sem fyrir voru og hafa verið allt til þessa en nú er svo komið að flestum finnst sem meira en nóg sé og samúðin er ekki almennt með gyðingum svo fundið verði.
Með einni undantekningu sem nefnd ver hér í upphafi, því þar virðist samúðin vera óþrjótandi og stuðningurinn eftir því.
Nágrannalönd hafa reynt sum hver að blanda sér í átökin með frekar litlum árangri og hafi hann verið einhver, þá grípur stóra mamma inn í og lætur viðkomandi finna fyrir því.
Flutningaskip hafa þurft að forðast Suesskurðinn vegna ófriðarins og neyðst til að sigla suður fyrir Afríku með tilheyrandi kostnaði og olíubrennslu, sem umhverfisvæningar virðast hafa litlar áhyggjur af.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2025 | 10:38
Þrír á palli í Kína og pólitíkin á ísa köldu landi
Þegar vestrænn leiðtogi stórveldis rikkist og hristist í tilkskipanaflogum, eru þeir til sem sinna öðru.
Svo er t.d. um þá sem dreifa mynd af því sem á að vera handarbak Trumps og gera úr því mál, en við sem höfum talið að hugsunin fari fram í höfðinu, viljum frekar beina athyglinni þangað!
Myndin af handarbakinu verður ekki birt hér enda ritari enginn sérfræðingur í handarmeinum!
Það sem er til umræðu og sagt frá í fréttum miðla, er að þeir eru að hittast og funda þeir Xi, Putin og Modi til að ræða heimsmálin og samstarf þjóða sinna.
Engin tilskipana og flogaköst, tolladans og önnur slík usisk tilþrif, heldur viðræður að hætti siðaðra manna, gerum við ráð fyrir.
Það verður áhugavert að fylgjast með því sem kemur út úr fundi fulltrúa þessara stóru ríkja og fjölmennu.
Kína hefur sótt fram á fjölmörgum sviðum en við tökum einna mest eftir ótrúlegum framförum á sviði tækni og vísinda og því var það frekar pínlegt þegar fyrrverandi forseti Bandaríkjanna bauð Xi að setjast upp í bandarískan traktor, er sá fyrrnefndi var í heimsókn þar fyrir nokkrum árum og sá kínverski virtist hafa gaman af.
Í íslenska ríkisútvarpinu er nokkuð reglulega boðið upp á bunulæk utanríkisráðherrans okkar, sem telur sig vita helst allt um utanríkismál en að læðist grunur um, að skort geti bæði þekkingu og víðsýni.
Kristrún Frostadóttir er ekki öfundsverð af að fara fyrir ríkisstjórn sem samanstendur af þremur flokkum, þar sem flokkarnir tveir sem með Samfylkingunni starfa, eru frekar illa búnir til að axla þá ábyrgð að halda um stjórnartauma.
Þeir sem haldið hafa um beislistauma, vita að það er alls ekki sama hvernig tökum er beitt og fram til þessa hefur formaður Samfylkingarinnar haft tökin og vonandi er að svo verði áfram.
Hvers vegna óskum við þess?
Jú það er t.d. vegna þess, að Sjálfstæðisflokkurinn er í uppnámi enda óvanur því að vera ekki með taumana í sínum höndum, Framsóknarflokkurinn í andarslitrunum og Vinstri grænir rísa helst undir nafni sem pólitísk afturganga sem verið er að reyna að vekja upp að nýju.
Þegar staðan er svona er helst að treysta á að Samfylkingunni og flokkum sem með henni starfa, takist að skila verki sínu og standa í stykkinu, t.d. líkt og iðnaðarráðherrann o.fl. hafa reynt að gera og tekist nokkuð vel.
Við þurfum ekki út og suður stjórnmálamenn, heldur þá, sem hafa getu til að vega og meta hvað sé best fyrir íslenska þjóð og sagan hefur sýnt að þeir verða ekki sóttir til Vinstri grænna, né Framsóknarflokksins.
Það er hart að segja það um þann síðarnefnda en reynslan sannar að hann er fastur í fortíðinni og þó þangað megi sækja margt gott, þá má það ekki vera of mikið og þegar staðan hjá Sjálfstæðisflokknum er slík sem nú er, verða ráðin og viskan ekki sótt þangað.
Það breytir ekki því að þegar hríðin sem þar geisar núna er gengin yfir, má gera ráð fyrir að flokkurinn nái vopnum sínum, en að Framsókn og Vinstri grænum takist það er frekar ólíklegt.