13.8.2024 | 07:44
Skólamálin
Á mbl.is hefur verið umfjöllun um stöðu skólamála og þá einkum með tilliti til svokallaðra samræmdra prófa, sem full þörf virðist vera, að veita athygli.
Hér er lítið dæmi um það sem ritað hefur verið um skólamálin í Morgunblaðið að undanförnu (klippan er frá 12/8/2024).
Þar hefur verið drepið á ýmislegt hvað varðar stöðu skólakerfisins og satt að segja kemur þar þeim margt á óvart, sem ekki er innvígður og innmúraður í það sem er og hefur verið að gerast á þeim vettvangi.
Björn Bjarnason fyrrverandi menntamálaráðherra hefur skrifað greinar um skólamálin og það sem þar hefur verið til umræðu og verður að telja líklegt að hann hafi nokkuð góða þekkingu og yfirsýn yfir þennan málaflokk.
Skólamálin hafa verið á forsjá Vinstri grænna á tíma núverandi ríkisstjórnar og því ætti ekki að koma á óvart, að ekki sé allt eins og best getur orðið í þessum málaflokki.
Þó er rétt að taka fram, að þau sem sitja í ríkisstjórn og undir forystu stjórnmálaflokks af þessu tagi hljóta líka að verða að axla sína ábyrgð á því hvernig málum er komið.
Eitt dæmið er, að hringlað hefur verið með svokölluð ,,samræmd próf yfir í próf sem ekki eru samræmd.
Við sem erum ekki innmúruð inn í kerfið eigum e.t.v. erfitt með að skilja muninn og þó, því í orðunum liggur að ,,samræmd próf séu sambærileg á milli skóla.
Ritari er kominn á þann aldur að hann er ekki með börn í skóla en barnabörn eru vissulega stödd þar og því er það, að áhugi vaknar þegar umræða sem þessi fer af stað.
Málaflokkurinn hefur fallið undir Vinstri græn í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og þó það samstarf hafi verið brösugt á ýmsan hátt, hefur ritari ekki frétt fyrr, af vinstrigrænum skringilegheitum á vettvangi skólamála, þó en játa verð, að við því hefði mátti búast.
Björn sér ástæðu til að tjá sig um málið og því má gera ráð fyrir að eitthvað sé athugavert og vonandi verður hlustað á það sem hann leggur til málanna.
Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn geta ekki firrt sig ábyrgð á því sem hefur verið að gerast á þessu sviði, því þeir bera óbeina ábyrgð á því að vera með Vg í ríkisstjórn og lengst af undir forystu þeirra.
,,Vinstri græn eru græn", sagði maður einn um daginn við þann sem þetta ritar og lagði mikla áherslu á síðasta orðið.
Sá vildi meina að það væri náttúran sem lægi þar undir en við vitum flest að ekki stendur steinn yfir steini á því málasviði heldur.
Ekki í atvinnumálum né umhverfismálum og nú ekki í menntamálum eins og Björn Bjarnason og fleiri hafa bent á.
Þessari stöðu þarf að breyta og það sem fyrst.
Flokkurinn sem við er stuðst, er sem betur fer á á leið út af þingi í næstu kosningum ef fer sem horfir.
Sem vonlegt er, því það eru takmörk fyrir hvað ,,háttvirtir kjósendur láta bjóða sér.
Flokkarnir tveir, sem í ríkisstjórninni sitja með Vg-ingum geta samt ekki skorast undan ábyrgð, þó víst sé að þeir muni gera sem þeir geta til að hreinsa sig af málinu.
Þegar menntamáli komandi kynslóðar eru í ólestri fyrir tilstuðlan stjórnvalda, þá er illa komið og háttvirtum kjósendum, sem svo eru kallaðir á tyllidögum.
Þeim kemur málið við og munu væntanlega segja sína skoðun í næstu kosningum.
9.8.2024 | 08:17
Gefið og fengið í gogg
Fuglarnir gefa í gogg, hvort heldur sem þeir eru vængjaðir eður ei!
Við getum séð ýmislegt í náttúrunni sem sjá má líka í mannheimum, sem ekki er undarlegt, því hvað erum við annað en hluti af náttúrunni þegar að er gáð?
Síðan eru þeir líka sem betur fer til, sem vilja vera til fyrirmyndar og það svo, að af þeim geti stafað ljós sem lýst geti öðrum og ekki er það ónýtt og óskandi er að geislunum stafi sem víðast!
Aðrir líta út um gluggann og reyna að fylgjast með því sem um er að vera, því það getur verið vissara að fylgjast með þessum mannverum sem telja sig allt geta og vera öllum öðrum fremri!
En við snúum okkur að hefðbundnum leiðindum og finnum þessa frétt frá liðnum mánuði.
Það er von að það þurfi að fresta einhverju, þegar peningarnir streyma til allskyns gæluverkefna og þar á meðal erlendra!
,,Það kostar klof að ríða röftum", sagði karlinn og víst er það satt, að það tekur í blessaðan ríkiskassann þegar mokað er úr honum peningum í allt frá stríðsrekstri og til björgunar heimsbyggðarinnar ásamt ráðstefnuhöldum og herlegheitum.
Enginn veit hvernig ríkisstjórnin okkar verður á morgun og það reynir á minnið að rifja upp hvernig hún var í gær!
Við veiðum ekki hvali, því það fylgir því hvalræði að afla þjóðinni tekna!
Það er miklu einfaldara að eyða, spenna og sóa og við erum svo vel sett, að búa við ríkisstjórn sem kann þá meðferð verðmæta.
Ekki byggja upp, gera við og bæta, að minnsta kosti ekki það sem innlent er, það er markmiðið mikla og stefnan er sett á það að sjálfsögðu, því þangað stendur viljinn til að komast.
Hvernig ríkisstjórnin verður á morgun vitum við ekki með vissu, en kynlegri getur hún tæpast orðið.
Við okkur blasir fátt eitt, ef nokkuð og við vitum alls ekki hverju landsfeðurnir og mæðurnar taka upp á næst!
Og til þess að kóróna þetta allt saman, er sem veðurguðirnir séu komnir í fýlu, því það rignir og rignir og rignir, svo stuðst sé við gamalt grín þeirra Spaugstofumanna!
Eigið góðan dag og komið heil heim úr ferðum ykkar, hvort sem er innanlands eða utan.
Góðar stundir!
6.8.2024 | 14:03
Vinir og óvinir
Í Morgunblaðinu 6/8/2024 rekumst við á aðsenda grein eftir Ögmund Jónasson.
Í henni drepur Ögmundur á margt sem er til umræðu manna á meðal en sem fer ef til vill ekki eins hátt og það ætti að gera.
Ekki vitum við hvort Ögmundur er enn félagi í Vinstri grænum og í raun er ekki gott að átta sig á því hvert eyðimerkurgöngu þess stjórnmálaflokks er stefnt.
Flokkurinn hefur verið í ríkisstjórn um árabil og svo er komið að skoðanakannanir sýna mikið fylgistap og hverfandi traust til flokksins og það þótt að hann hafi farið með forsætisráðuneytið þar til nýlega.
Stundum er talað um að menn gangi í björg en að heilu stjórnmálaflokkarnir geri það hefur ekki spurst, síðan Alþýðuflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sátu saman í svokallaðri viðreisnarstjórn fyrir margt löngu síðan.
Á þeim árum snerist utanríkispólitíkin um takmarkalausa fylgisspekt við Bandaríkin og NATO félagsskapinn og svo er að sjá sem Vg hafi tekið við hlutverki Alþýðuflokksins sáluga.
Sjálfstæðisflokkurinn sér sólina rísa og setjast í vestri og ekki er vitað til að það hafi breyst og sumir sáu það sama gerast í austri á árum áður, eins og lesa má t.d. í bókinni Draumar og veruleiki eftir Kjartan Ólafsson.
Einn tekur við af öðrum og Vinstri græn eru tekin við af gamla flokknum sem horfinn er af sviðinu en líklega hafa hinir gömlu Alþýðuflokksmenn haft meira skynbragð á hvernig peningar verða til en háskólaelítan sem ræður ríkjum í Vg.
Ögmundur kemur víða við í grein sinni en hér verður stiklað á stóru, greinina má nálgast í blaðinu sem vísað var til hér í upphafi.
Tónninn er sleginn strax, þar sem segir: ,,Þegar Alþingi samþykkti fjárstuðning vegna stríðsreksturs í Úkraínu til næstu ára þótti ekki ástæða til að senda þingmálið til umsagnar út í þjóðfélagið. Sagt var að um þetta ríkti einhugur á þingi og með þjóðinni. Svo er þó ekki leyfi ég mér að fullyrða.[ ] [ ],,Í árslok munu Íslendingar hafa veitt 10 milljarða til aðstoðar Úkraínu, meðal annars til vopnakaupa, og gert er ráð fyrir að lágmarki 4 milljarða árlegu framlagi vegna stríðsins þar næstu ár.[ ]
Úkraína er sem sagt orðinn fastur liður á fjárlögum íslenska ríkisins!
Ögmundur bendir síðan á að einhugur muni ríkja meðal þjóðarinnar um að styðja Grindvíkinga og heilbrigðiskerfið og tekur fram að þjóðin myndi almennt vilja styðja stríðshrjáð fólk en svo sé ,,ekki við þá vígvæðingu sem verið sé að styðja.
Hann minnir á, að vígvæðing grafi undan friði og að nú sé ,,krafan um kjarnorkuvopn.
Rifjar síðan upp fundinn sem haldinn var í Höfða:
,,Friðarbaráttan á níunda áratug síðustu aldar snerist um að fjarlægja slík vopn og færa allan vopnabúnað fjær en ekki nær landamærum. Vitað var að skammdræg og meðaldræg kjarnorkuvopn nærri landamærum «óvinaríkja» væru enn hættulegri en langdrægar kjarnorkuflaugar sem skjóta mætti niður með gagnflaugakerfi. Beiting skammdrægra flauga gæfi ekkert slíkt ráðrúm og kallaði því á fyrirvaralaus viðbrögð. Því var fagnað mjög þegar Reagan og Gorbatsjov undirrituðu INF-samninginn árið 1987 í kjölfar hins sögulega fundar í Höfða árið áður. Hann bannaði þessar flaugar. Bandaríkjamenn sögðu sig hins vegar frá samningnum 2019 og nú tæpum fjörutíu árum frá undirritun hans eru nánast andstöðulaust samþykktar fyrirætlanir um slíkan vopnabúnað á svipuðum slóðum og friðarsinnum tókst á sínum tíma að afstýra."
Þannig fór sú saga og við erum að súpa seyðið af framgöngu Bandaríkjanna gagnvart því samkomulegi sem þau sögðu sig frá og reyndar er framganga þess ríkjasambands samfelldur vitnisburður um, að þeim sé ekki treystandi fyrir friðarkyndlinum og er það miður svo fagurlega sem hann birtist í höfninni í New York.
Við höfum bundið trúss okkar við þá ríkjasamsteypu með samstarfi í NATO og satt að segja er það ekki hafið yfir gagnrýni að hafa gert það.
Hafa verður samt í huga að kostirnir eru ekki margir fyrir litla þjóð og þeim sem báru þjóð sína upp í natófangið 1949 verður ekki ætlað annað en að þeir hafi viljað henni vel.
Tíminn hefur liðið og því miður hefur ýmislegt gerst sem bendir til, að það sé ekki lýðræðisástin ein sem knýr menn áfram, heldur að hagsmunagæsla af ýmsu tagi geti ráðið þar miklu.
Þannig er það og þannig hefur það verið, að menn eiga stundum erfitt með að halda aftur af sér þegar auður og völd eru annars vegar og þó Bandaríkin hefi ekki sýnt Íslandi yfirgang, þá verður því ekki neitað, að það hafa þau gert víða annarstaðar.
Rétt er að hvetja fólk til að lesa greinina sem hér er vitnað til.
Í henni koma fram margar góðar áminningar, sem vert er að hafa í huga í fallvöltum heimi nútímans.
Sá sem þetta ritar, telur að gott geti verið að styðjast við sögulegar staðreyndir þegar taka þarf afstöðu til þess sem er ofarlega á baugi í nútímanum.
5.8.2024 | 07:13
Hvar er ljósið?
Morgunblaðið sýnir okkur fuglamyndir, annarsvegar kríur að veiðum og hins vegar fíl sem liggur á hreiðri sínu.
Annars er það einna helst í fréttum þennan dag, að Rúv flytur frétt af því, að Harris nokkur, hafi lýst þungum áhyggjum af ástandinu á Gaza.
Engra heimilda er getið en við lauslega athugun virðist svo að sjá, sem um endursögn á frétt CNN geti verið að ræða.
Hvað sem því líður er ánægjulegt að sjá að kveðið geti við annan tón í Bandaríkjunum en þann, að þjarma þurfi sem mest að íbúunum á Gaza og þá væntanlega Vesturbakkanum líka.
Það var satt að segja frekar sláandi að sjá fögnuð og aðdáun bandarískra þingmanna þegar Netanyahu gekk í sal þeirra.
Hér verður ekki tekið undir fögnuð yfir framgöngu Hamaz, sem hefur mátt fylgjast með á undanförnum árum en ,,sárt bítur soltin eins og þar stendur og sá sem er kúgaður og afkróaður og sífellt verður að víkja fyrir ofbeldi, grípur gjarnan til örþrifaráða.
Sagan af stofnun ríkis Ísraels verður ekki endurtekin hér en hún var gerð í framhaldi af miklum hörmungum sem áttu sér stað í seinni heimsstyrjöldinni sem svo er kölluð.
Þá höfðu verið stundaðar hörmulegar og óhugnanlegar ofsóknir á hendur gyðingum.
Flestir þekkja þá sögu og óþarft er að rifja hana upp frekar að sinni en hún má samt aldrei gleymast.
Það sem gerðist í helförinni átti sinn þátt í að stofnað var ríkið Ísrael, án þess að tekið væri með í reikninginn að á landsvæðinu sem hinu nýja ríki var ætlað, væri fólk sem þar hafði verið um aldir og nú var því ætlað að víkja brott af landi sínu og fara bara ,,eitthvað annað.
Síðan þetta var hefur stöðugt sigið á ógæfuhliðina og ,,að víkja hefur orðið að viðvarandi lífsskilyrðum þjóðarinnar sem fyrir er.
Ísraelskir ,,landnemar taka sér sífellt meira land undir ríki sitt og þeir sem fyrir eru, verða að gefa eftir landið sem þeir og forfeður þeirra og formæður hafa setið um aldir.
Hvernig leysa á þessa deilu er ekki auðvelt að sjá en óskandi er, að fram komi einhverjir sem geta fundið varanlega og ásættanlega lausn á málinu.
Lausn sem stuðlað getur að friði milli þjóðanna sem landið byggja og sem innifelur í sér að ekki sé gengið á óásættanlegan hátt á rétt eins eða neins.
Það er reyndar þegar búið að gera, eins og fyrr sagði og því er ekki gott að sjá á þessari stundu hvernig sárin geta gróið, en við lifum í voninni um, að það sjáist fyrr en seinna ljósið fyrir enda ganganna.
3.8.2024 | 05:09
Minningar rifjast upp
Grein undir fyrirsögninni ,,Stórbrotin landsýn" birtist í Morgunblaðinu þann 11/7/2024.
Greininni fylgja sex fallegar myndir og þar með talin ein af manni sem ritari þessa pistils telur sig kannast við og það að góðu einu.
Í greininni er sagt frá strandflutningum sem fara fram af hálfu Eimskipafélagsins og það verður ekki hjá því komist að minningar frá fyrri tímum rifjast upp fyrir þeim sem hér bloggar.
Hafnir skipsins sem siglt er á, eru á Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri og Húsavík.
,,Með siglingum er álagi þungra flutningabíla að nokkru leyti létt af vegum, eins og ákall hefur verið um", segir þar.
Og á tímum þar sem sagt er frá því að vegakerfið sé að sligast undan þungaflutningum er vert á minna á, hve gott er, að geta flutt vörur sjóleiðina.
Sjórinn sligast ekki, eins og flestir vita og því er um að gera að nota sér þann eiginleika, í stað þess að ofbjóða vegakerfi sem ekki er byggt fyrir það álag sem gámaflutningum fylgir!
Þegar varan er komin til Reykjavíkur fer hún síðan með millilandaskipunum úr landi og þangað sem hún á að fara.
Þannig var, að skip frá Samskipum og Eimskip voru í flutningum sem þessum og gott er að sjá, að þeir séu enn í boði og ef til vill eru Samskip einnig með þessa þjónustu líkt og áður var.
Framkvæmdastjóri hjá Eimskip segir:
,,Strandsiglingarnar koma vel út og eftirspurn eftir þessari þjónustu er jafnvel meiri en við væntum í fyrstu, segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskip. Sjónarmið um minna álag á vegi og umhverfisvænni flutninga réðu því meðal annars að við byrjuðum að sigla aftur á ströndina. Öflug þjónusta og starfsemi úti á landi hefur alltaf skipt Eimskip miklu máli."
Yfirstýrimaðurinn á Selfossi, hefur þetta að segja um útsýnið sem við blasir á siglingunni:
,,Utan af sjó sér maður landið frá óvenjulegu sjónarhorni og oft fallegu. Að hafa slíkt eru forréttindi, segir Einar Guðmundsson yfirstýrimaður á Selfossi. Að horfa til hárra bjarga á Hornströndum er nánast upplifun og eins að sjá Siglufjarðarfjöllin, Hvanndalabjörg og Múlann þegar siglt er inn Eyjafjörð. Á þeim slóðum og eins á Skjálfanda er mikið af hval um þessar mundir. Ég hef raunar aldrei séð jafn mikið af slíkum skepnum og einmitt þar nú, sem aftur segir að tímabært sé að hefja hvalveiðar."
Hvalveiðar verða víst ekki hafnar á meðan núverandi ríkisstjórn situr við völd og satt að segja er líklegt, að ýmislegt annað verði ekki gert meðan setið er í skjóli Vinstri grænna í ríkisstjórn.
Það ættu ,,framsóknarflokkarnir" tveir sem sitja í skjóli þeirra, að vera farnir að skilja en eru það greinilega ekki.
(Myndirnar eru fengnar úr Morgunblaðinu)
2.8.2024 | 08:08
Fangaskipti
Þennan morguninn eru áberandi fréttir af móttöku fólks sem setið hefur í fangelsum, annarsvegar rússneskum og hins vegar í ýmsum vestrænum löndum.
Við vitum hvað hefur verið borið upp á suma en ekki alla og hópurinn er nokkuð stór á báða bóga.
Sjá má móttökur fólksins sem í hlut á t.d. hér og hér og við sjáum að þær eru hlýjar, hvort heldur sem er í vestri eða austri.
Öll erum við fólk, manneskjur, hvaðan sem við komum og bilið á milli er miklu minna en stundum er látið sem að það sé.
Og því er knúsað og faðmað, hvort heldur er í austri eða vestri.
Það er satt að segja hart, hve illa okkur gengur að koma okkur saman, stundum í einkalífinu og einnig í samskiptum milli þjóða.
Þannig er það og hefur trúlega alla tíð verið og nær engin von er til að það breytist!
En ef þetta gæti nú orðið til þess að opna á manneskjuleg samskipti milli landa, þar sem talað yrði saman í stað þess að stilla sér upp í trénaðar kaldastríðsstellingar, þegar ræða þarf um ágreiningsmál, þá er það gott.
En því miður höfum við séð bráðnun af þessu tagi gerast áður og er þá skemmst fyrir okkur Íslendinga, að minnast leiðtogafundra þeirra Gorbasjovs og Regans í Höfða.
Þar var samið um t.d. skammdrægar kjarnaflaugar og ,,stjörnustríðs" áætlun, ef rétt er munað og allt gekk það eftir í smátíma, eða þar til að Bandaríkin rufu samkomulagið.
Hvað sem því líður, þá eru fréttirnar af fangaskiptunum ánægjuleg tíðindi.
1.8.2024 | 08:34
Virkjanaframkvæmdir, eða ekki..,
Í Morgunblaðinu þann sjötta júlí var viðtal við forstjóra Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda.
Fyrirsögn greinarinnar er ,,Hærra álverð skilar meiri ábata" og mynd af viðtalinu fylgir hér með, trúlega illlæsileg en fréttina má finna í blaðinu (6.7.2024).
Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, vonast til þess að framkvæmdir geti hafist við frekari virkjanir í Þjórsá, reiknar með að Hvammsvirkjun verði fremst í röðinni og að framkvæmdir þar hefjist seinna í sumar.
Gera má ráð fyrir að vinstrigræningjar ýmiskonar muni ýfa kambinn við að sjá þetta, nema að svo sé komið, að þeim sé með öllu siginn larður enda fáir eftir í söfnuðinum.
Sagt er frá þróun álverðs en eins og kunnugt er, þá hefur það farið hækkandi og er covit19 nefnt sem ábyrgt í því efni en við teljum að ýmislegt fleira komi til, eins og t.d. stríðsrekstur vestrænna þjóða gagnvart Rússlandi vegna Úkraínu.
Hörður forstjóri Landsvirkjunar, bindur vonir við að Búrfellslundur og Hvammsvirkjun verði að veruleika, það fyrrnefnda er vindorkuver en það síðarnefnda virkjun í Þjórsá.
Skerðingar á raforku sem stafa af orkuskorti, hafa haft neikvæð áhrif á rekstur m.a. álveranna en eins og flestir munu vita, þá veldur orkuskortur minnkandi framleiðslugetu og þar með minnkandi tekjum fyrirtækjanna, þ.e. bæði Landsvirkjunar og viðskiptavina hennar.
Það eru fjögur verkefni í farvatninu þ.e. vindorkuverið í Búrfellslundi og Hvammsvirkjun, ásamt stækkun Sigölduvirkjunar og Þeistareykja.
Hvernig þetta gengur, fer væntanlega talsvert eftir því hvernig orkuandstæðingar standa sig í skemmdarstarfseminni.
Þeim virðist vera þorrinn máttur sem stendur og vert er að vona að svo verði áfram, því að vilja breyta um í orkumálunum á þann veg, að nær allt gangi fyrir raforku en berjast á sama tíma gegn því að hún sé framleidd á vistvænan hátt, gengur ekki upp.