10.7.2024 | 08:49
Hverju gleymdu þingmenn, spyr kindin
Í Heimildinni er viðtal við forstjóra Samkeppniseftirlitsins um samrunaferlið á Norðurlandi, sem fór af stað eftir lagasetningu á Alþingi og það er ekki ofsagt, að hann hefur ýmislegt við það að athuga.
Hagræðing af því tagi sem búið er að gera á Norðurlandi, hefur farið fram á Suðurlandi, án afskipta Alþingis og án vandræða eftir því sem best er vitað.
Eðlilegra hefði verið að farin hefði verið svipuð leið til hagræðingar á Norðurlandi og þá án afskipta Alþingis.
Þá hefði trúlega ekki hlotist af umræða af því tagi sem nú er uppi, því rekstrareiningar sem ekki eiga sér framtíð lognast á endanum út af og til að það gerist þarf ekki pólitísk afskipti.
Hvar ætlar Alþingi að setja mörkin?
Ætlar það að leggjast í lagasetningar um fyrirtæki landsins almennt, til að þau geti hagrætt, sameinast, eða einfaldlega hætt rekstri?
Góðar hugmyndir um fyrirkomulag í fyrirtækjarekstri verða seint sóttar til Alþingis og þaðan af síður til framsóknarflokka nútímans, hvort sem þeir kenna sig við framsókn, vinstri grænleika, eða sjálfstæði.
Alþingismenn sem hafa ekki annað erindi, en að ráðskast með rekstur einstakra fyrirtækja og það jafnvel sjálfum sér til hagsbóta, eiga ekkert erindi á Alþingi.
Hvað gleymdist spyr kindin kindarlega?
Það sem gleymdist var að þingmenn eru ekki kjörnir til að gæta hagsmuna einstakra fyrirtækja, heldur heildarinnar og það er ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem ,,gleymska" af þessu tagi ríður húsinu við Austurvöll.
Húsinu sem ætlað er til lagasetningar þjóðinni til hagsbóta.
Þjóðin er ekki fyrirtækin í landinu, en alþingismenn eiga samt að búa svo um að þau geti starfað, með eðlilegum hætti þjóðinni til hagsbóta.
Þingmenn stjórnarflokkanna ,,gleymdu" því og ákváðu að blanda sér í annað sem þeim kemur ekki við, nema náttúrulega ef þeir hafa hagsmuna að gæta eins og komið hefur fram.
Og þá hefði verið eðlilegt að sitja að minnsta kosti hjá við atkvæðagreiðsluna!
(Myndin eru fengin úr Heimildinni og teikningin úr Morgunblaðinu)
5.7.2024 | 06:03
Könnunin fylgið og raunsæið
Gerð var könnun á fylgi við stjórnmálaflokkana fyrir stuttu og niðurstaðan varð sú sem sjá má á myndinni sem fengin er úr umfjöllun Heimildarinnar.
Það sem við blasir er að ríkisstjórnin er sú óvinsælasta í langan tíma og það þrátt fyrir náttúruhamfarirnar sem við öll höfum fylgst með og sem ættu að að þjappa þjóðinni saman, frekar en hitt.
Það þarf að fara allt aftur til hrunáranna (2009) til að finna samjöfnuð en þau okkar sem muna þann tíma muna að það var sem fótunum væri kippt undan okkur.
Undirritaður var staddur í Delhi þegar það gerðist og gleymir seint, að það helsta sem sýnt var í sjónvarpi sem var í móttöku hótelsins, voru myndir af ráðherrum Íslands sem virtust vart vita sitt rjúkandi ráð.
Ívar teiknari Morgunblaðsins sér það, stjórnin Seðlabankans sér það, Vg-ingar sjá það ekki og ekki heldur Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn.
Þannig hefur það verið í ósamstöðu stjórninni sem nú situr en sá er þó munur á, að það eru ekki ævintýramenn utan úr bæ sem hafa verið að setja allt á hliðina, heldur stjórnin sjálf.
Ausið er peningum í allar áttir allt frá ,,kynlegu" 7500 milljóna skuldabréfaútboði og yfir í 30 hektara byggingaráform til að geta rýmt skólahúsnæði fyrir dómstóla svo aðeins tvö dæmi séu tekin af fjáraustri.
Ekkert virkar til að hífa upp fylgið og helsta hreyfingin á því er að það hnikast litið eitt til á milli stjórnarandstöðuflokkanna og örlítið milli stjórnarflokkanna.
Við blasir að þjóðin er búin að fá nóg af stjórnleysi á þeim sviðum sem helst snerta almenning og þó uppi séu Reykjaneseldar, þá hefur það engin áhrif til að þjappa henni saman, að minnsta kosti ekki til að þjappa henni saman um ríkisstjórnina.
Stjórnina sem fer í rútu til Þingvalla með bland og bús til að kynda eldinn í katlinum, lífga upp á tilveruna og stokka upp ráðherrakapalinn.
Það hafa verið kröftug mótmæli fyrir utan Alþingishúsið og það slík, að fara þarf aftur til þess tíma þegar mótmælt var inngöngu í NATO og náttúrulega hrunáranna til að finna samjöfnuð.
Hér verður því ekki haldið fram að ekkert hafi verið gert af viti og góðum hug en það er sem annað standi uppúr og vitanlega er ágætisfólk innan ríkisstjórnarinnar og eflaust vilja menn vel en þeim tekst það ekki, ráða ekki við verkefnið og því hrynur fylgið.
Þjóðin er búin að fá nóg og viðurkenna þarf, að getan er ekki til og hefur ef til vill aldrei verið til og þegar svo er komið, er réttast að hætta, boða til kosninga og viðurkenna vanmáttinn.
Vanmátt sem birst hefur á mörgum sviðum s.s. hvalveiðimáli, draumórarugli um töfrabor til að gera göng til Vestmannaeyja, gestaboð með milljarða kostnaði í Hörpu og fleira og fleira og fleira.
Þegar náttúruhamfarir af þeirri stærðargráðu sem nú geysa duga ekki til samstöðu um ríkisstjórnina sem situr, þá á hún að horfast í augu við raunveruleikann, hætta að hanga saman á líminu, sem heldur hvort eð er ekki, viðurkenna getuleysið og gefa þjóðinni kost á að velja sér nýja leiðsögn.
4.7.2024 | 08:53
Hvalveiðar og matur í Evrópu
Þeim tókst að koma málum svo fyrir að ekki verða stundaðar hvalveiðar þetta sumarið.
Í fyrra gáfu þau ekki út leyfi til veiða fyrr en komið var haust og Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn létu sér vel líka.
Þannig virkar ríkisstjórnarnefnan sem nú situr við völd og er samsett af þremur ólíkum flokkum.
Eitt eiga þeir þó sameiginlegt flokkarnir þrír sem ríkisstjórnina mynda og það er að vilja sitja að völdum svo lengi sem sætt er.
En að öðru, því nú er komin í ljós ,,hin hliðin á því að gaslagnirnar voru sprengdar og sem varð til þess, að ódýrt rússneskt gas barst ekki til Evrópu.
Í stað þess að lifa við yl og notalegheit lifir evrópskur almenningur við óvissu.
Óvissu um hvort það sem er í buddunni, dugi fyrir orkureikningnum og líka fyrir matnum og öllu hinu.
En þegar syrtir að, þá er sem mönnum leggist eitthvað til og nú berst áburður til evrópskra og hann kemur frá landinu sem verið er að stríða við!
Manni leggst alltaf eitthvað til, var sagt áður fyrr og nú sannast, að það gildir enn.
Rússar nota óselda gasið til framleiðslu á áburði sem notaður er til framleiðslu landbúnaðarvara og áburðinn má selja til landanna í Evrópu vestanverðri.
Það kom sem sagt ,,krókur á móti bragði: Gasið nýtist til framleiðslu áburðar sem selja má til landbúnaðarframleiðslu, því allir þurfa að borða og til verður matvara sem sér til þess að allir verða saddir, eða hvað?
Ekki er það nú alveg víst, því til eru þau, sem svo illa eru haldin af Rússahatri að þau vilja heldur svelta en borða mat, sem orðið hefur til með því að nota áburð frá Rússlandi.
En það verður ekki við öllu séð og því snúa menn sér á hina hliðina og reyna að láta sig dreyma um ,,eitthvað annað.
(Fyrri klippan er úr Heimildinni en sú seinni úr Morgunblaðinu)