15.6.2024 | 07:57
Þingstörfin og regluverkið
Heimildin segir frá afgreiðslu frumvarps um útlendingamál og það gera fleiri miðlar s.s. Morgunblaðið og Vísir.
Í Heimildinni er sagt frá málinu á eftirfarandi hátt en að mestu er frásögnin byggð á skjáskotum af samskiptamiðlinum X, þar sem ýmsir láta ýmislegt fjúka svo ekki sé meira sagt.
Auk þess sem tjáningarforminu eru skorin þau takmörk, að vilji menn koma máli sínu skilmerkilega á framfæri verða þeir að gera það með ,,viðhengjum".
Heimildin:
,,Ný umdeild útlendingalög voru samþykkt með tæplega 70% meirihluta á Alþingi í dag. Einu þingmennirnir sem kusu gegn lögunum eru úr þingflokki Pírata. Þingflokkar Samfylkingarinnar og Viðreisnar sátu hjá í atkvæðagreiðslunni og tóku þannig ekki afstöðu til frumvarpsins. Almenningur, bæði á hægri og vinstri væng stjórnmálanna, hefur sérstaklega gagnrýnt Samfylkinguna fyrir afstöðuleysið."
Af þessu sjáum við að málið hefur ekki verið eins mikið umdeilt og ætla mætti af uppslætti sumra fjölmiðla, því það er ekki nema einn flokkur sem greiðir atkvæði gegn frumvarpinu og það er flokkur sem oftar en ekki er ,,á móti".
Ef menn sitja hjá við atkvæðagreiðslu mála á Alþingi má gera ráð fyrir að þeir telji sig hvorki geta verið með né móti; finnist málið vera til það mikilla bóta að ekki sé hægt að leggjast gegn því en líka, að það uppfylli ekki allt það sem viðkomandi hefðu kosið.
Velja því að að sitja hjá til að spilla ekki fyrir framgangi þess góða sem í frumvarpinu felst og eru vitandi um að málið nýtur stuðnings þess meirihluta sem til þess þarf að það nái í gegn.
Þetta þekkja allir sem vilja og langflestir hafa eflaust einhvern tíma lent í því að vera hvorki með né móti einhverju.
Píratar og X-istar kannast lítið við speki af þessu tagi en rétt er að benda þeim skoðanabræðrum á, að það þarf að vera stjórn á þessum málum hvort sem mönnum líkar betur eða ver.
Dómsmálaráðherrann er að reyna að koma skikki á þessi mál eftir margra ára óreiðu í regluverki og það eru ekki margar þjóðir sem vilja fá yfir sig ómældan straum fólks sem ekki virðir lög og reglur samfélagsins, sem mun vera ástæðan fyrir samþykkt laganna:
Að hluti þeirra sem sækja um vist virðir ekki lög og reglur, í fyrsta lagi þekkir þær ekki og á því erfitt með að skilja regluverkið og svo er það með flóttafólk líkt og aðra, að þeir eru líka til, sem ekki vilja virða lög og rétt.
Það er bæði gömul saga og ný og gott er að reynt sé að taka á málunum.
1.6.2024 | 06:10
Förum vel með atkvæði okkar!
Viljum við að Landsvirkjun verði í eigu þjóðarinnar, eða að hún verði ,,seld" einkaaðilum til að græða á?
Munum að Landsvirkjun hefur greitt arðgreiðslur í ríkissjóð, sem nemur tugum milljarða og það stundum árlega og munum líka, að það er ekki lítils virði að fyrirtæki af þessu tagi sé í þjóðareign.
Árni Árnason vélstjóri, skrifar hvatningu til þjóðarinnar og minnir á þá gæfu sem við búum við, að geta hitað upp hýbýli og framleitt rafmagn með auðlindum okkar sem lengst af hafa verið í eigu almennings.
Hann endar grein sína með eftirfarandi orðum: Nú gengur hver fram fyrir annan að afhenda erlendum sem innlendum peningaöflum hið torfengna sjálfstæði. Við þurfum forseta sem hefur kjark til að stöðva sjálfvirka stimpilvæðingu Alþingis og færir þjóðinni aftur þau völd sem lýðræðið á að gera.
Rétt er að taka undir þetta og vitum hvern hann vill að við kjósum til forseta og hér verður mælt með að farið sé að ráðum hans og bent á grein Ögmundar Jónassonar á visir.is um sama efni.
Í Heimildinni erum við upplýst um að framboð fyrrverandi forsætisráðherra til forseta sé tvöfalt dýrara en það sem næst því kemst.
Þegar svo er þá er gott að eiga ,,góða að, sem geta látið aura rakna án þess að á sjáist.
Hvaðan þeir koma vitum við ekki en líklega ekki frá Hvali hf.
Því þar eiga VG- ingar fáa vini ef nokkra, enda skemmdarvargar hinir mestu í augum þeirra sem vilja nýta auðlindir þjóðarinnar. Vg- ingar eru á móti hvalveiðum af tilfinningalegum ástæðum og líklega finnst þeim dýrin of falleg til að vera lógað og nýtt til manneldis.
Verði þær kenningar ofaná, má ætla að húsdýrahald til manneldis leggist með tímanum af og ekki er laust við að tilburðir séu þegar uppi í því efni.
Samt er það þannig, að hvert stangast á annars horn og hænsnfuglar mega ekki vera í búrum en það þykir hins vegar gott fyrir skrautfugla ýmiskonar s.s. páfagauka og finkur og af því sést að hér gildir sem svo oft, bara þegar það hentar mér!
Kristján Loftsson er ekki par hrifinn af vinstri- græningjunum sem vonlegt er, enda liðsmenn þeirrar hreyfingar búnir að valda Hval hf. umtalsverðu tjóni.
Á síðasta ári eyðilögðu þeir sumarvertíðina fyrir fyrirtækinu og svo er að sjá sem hugur þeirra standi til að endurtaka leikinn á þessu ári.
Daníel Sigurðsson, skrifar grein í Morgunblaðið, Kjósum Fjallkonuna og er með forsetakosningarnar í huga.
Hann segir m.a. frá því að hann hafi átt samtal við Höllu Hrund Logadóttur orumálastjóra og forsetaframbjóðanda um hennar sýn á nýtingu auðlinda þjóðarinnar til bættra lífskjara.
Niðurlag pistils Daníels er eftirfarandi:
,,Formaður stjórnmálaflokks sem pendlar í kringum lágmarksfylgi 5% í skoðanakönnunum getur varla verið trúverðugur fulltrúi heillar þjóðar eins og hennar nýjasta slagorð gengur þó út á.
Hún er ein af málpípum kreddunnar um kynlaust tungumál og [hefur] verið fullupptekin af transmálum að mínu mati. Eru kandídatar frá fyrri framboðum, sem hafnað var, vænlegri kostir nú en þá?
Nei, ég held ekki. Hleypum að nýrri rödd þar sem ferskir vindar blása.
Halla Hrund hefur mjög fágaða framkomu sem sæmir þjóðhöfðingja og ekki sakar að hún spilar ljúfa tóna á harmóniku.
Ég vil líkja Höllu Hrund til orðs og æðis við íslensku fjallkonuna fríðu, holdi klædda, sem mun vaka yfir þjóðinni veiti hún henni brautargengi að æðstu valdastofnun landsins, Bessastöðum."
Fram kom að hún væri hugfangin af reynslunni af að fara um landið og heyra frásagnir af framtakssemi fyrri tíðar fólks og frásögnum af því, þegar það hóf að beisla náttúruöflin sér í hag.
Þessu til viðbótar má benda á grein Ögmundar Jónassonar.
Greinin hans ber yfirskriftina Ef Landsvirkjun verður ekki seld vitum við hvers vegna.
Þar segir m.a.:
Staðreyndin er sú að markmið fjármálaaflanna eru alveg skýr og augljós, það er að koma öllu orkukerfinu í einkahendur. Allir sem trufla þetta ferli eins og orkumálsstjóri þótti gera með aðvörunarorðum sínum og tillögum eru látnir finna til tevatnsins. Höllu Hrund Logadóttur hef ég hvorki hitt né nokkru sinni rætt við og vel má vera að við séum ósammála um margt, veit það hreinlega ekki.
En um það grundvallarmál að orkuauðlindirnar og grunnþættir raforkukerfisins eigi að vera í eign og undir umsjá þjóðarinnar erum við hjartanlega sammála og blöskrar mér að veist skuli hafa verið að henni fyrir að halda þessum sjónarmiðum á lofti. Sú er ástæðan fyrir þessum skrifum mínum, að lýsa stuðningi við þau.