28.12.2024 | 10:35
Rusl til vandræða í geimnum
Á CNN.COM er sagt frá því sem er á sveimi umhverfis okkur og ruslinu sem hefur orðið til vegna athafna okkar.
Það verður samt að segja það eins og er, að geimurinn er ógnarstór og því sleppur þetta furðanlega enn, en í greininni er t.d. sagt frá því að eitt sinn hafi þurft að ræsa hreyfil rússneskrar geimflaugar sem tengd var stöðinni til að hnika henni til og forða henni frá árekstri.
Það er flestum kunnugt að umgengni okkar um Jörðina okkar er ekki til fyrirmyndar og má í því sambandi nefna sem dæmi fljótandi rusleyjar á úthöfunum, en að athafnasemi okkar utan Jarðarinnar sé slík að varasöm sé, er nýtt umhugsunarefni.
Tæknin með m.a. gervihnöttum hefur fært okkur margvísleg lífsgæði s.s. í fjarskiptum og til staðsetningar svo fátt eitt sé nefnt.
Allt getur þetta verið í uppnámi ef ekki er farið gætilega. ,,Lengi tekur sjórinn við, var eitt sinn viðkvæðið og þó hann sé stór og geti tekið við miklu af rusli, þá er geimurinn í segulsviði Jarðarinnar enn stærri og það er þar sem stefnir í vandræði.
Við höfum engin tæki né tól til að hreinsa geiminn en við getum vonað að með tíð og tíma fari eitthvað ef þessu rusli það nærri gufuhvolfinu að það brenni þar upp og ef það fer að gerast, má reikna með að hjartsláttur aukist meðal bandarískra áhrifamanna, sé tekið mið af því hve skelkaðir þeir eru þegar leikfangadrónar og loftbelgir bera þeim fyrir augu.
Við þurfum að gæta okkar og ganga sæmilega um, hvort heldur sem er á Jörðinni eða í nágrenni hennar.
Það er það sem við lærum af þessu og hefðum betur lært fyrr.
Ýmsar skemmtilegar og lifandi myndir fylgja greininni á CNN og þær má sjá með því að nýta sér tengilinn sem er í upphafi þessa pistils.
24.12.2024 | 09:07
Aðfangadagur og fréttir
Við lauslegt yfirlit á fréttum getum við lesið um ferðalög af mismunandi gerð.
Á CNN halda menn sig við Jörðina og farið er um ,,sundið" milli Suður Ameríku og Suðurskautslandsins, þar sem straumar mætast með tilheyrandi ólgu.
Þegar litið er aðeins til hægri á skjánum birtast kunnuglegar myndir þar sem verið er að auglýsa ferðalög til Íslands.
Á BBC er farið aðeins lengra, því þar er sagt frá geimfari sem er á leið til Sólarinnar.
Þegar við höfum lokið skoðun á þessum frásögnum, af ferðalögum af mismunandi tagi, getum við leitt hugann að því sem á gengur í samskiptum manna og þjóða, þar sem ekki hefur tekist að leysa ágreining með eðlilegum mannlegum samskiptum.
Það er barist um austurhéruð Úkraínu og það er barist í Ísrael og Palestínu og reyndar miklu víðar í heiminum.
Það er sem sagt ekki sérlega friðsamlegt í veröldinni, þó hátíð friðar sé að ganga í garð meðal kristinna þjóða og enn og aftur horfum við upp á það, að menn ná því ekki að greiða úr ágreiningi sínum með friðsamlegum hætti.
Maðurinn sem kosinn var til forseta í Bandaríkjunum sér þann kost vænstan að ,,kaupa" Grænland af Dönum og honum kemur það væntanlega ekkert við, að á Grænlandi býr þjóð og hefur búið um tíma sem mældur er í hundruðum og jafnvel þúsundum ára.
Hrokinn er ekki mældur í fingurbjörgum í ,,guðs eigin landi" og reyndar reiknum við með að guð hafi lítið komið nærri hugmyndasköpun af þessu tagi.
Það er nefnilega svo, að hrokinn verður ekki mældur í rúmmáli né með vigt, hvorki í því landi né öðrum.
Þá langar til að ,,kaupa" Grænland og þeir ætluðu að ráða því t.d. hvernig Vietnamar hegðuðu lífi sínu; fórnuðu þar sínum eigin mönnum og enn fleiri íbúum Vietnam, í tilraun til að komast yfir land sem þeim kom ekkert við.
Hunskuðust síðan burt við frekar lítinn orðstír, þreyttir og þjakaðir, auk þeirra sem komu heim og höfðu áður komið heim í pokum, þ.e.a.s. ef þeir þá fundust.
Og þeir eru ekki einir um hátterni af þessu tagi, því sagan greinir frá ámóta framferði svo langt aftur sem hægt er að kanna og þar koma margar þjóðir við sögu.
Við höldum samt í vonina um frið í heimi og reynum að láta þá von endast allt árið og árin en ekki aðeins yfir jólahátíðina.
Gleðilega hátíð!
19.12.2024 | 07:58
Flygildi, drónaflug og geimganga
Kínverjar skjótast frammúr Bandaríkjamönnum og Rússum í geimsprikli allskonar og eitt það nýjasta sem sagt er frá á CNN.COM, er að þeir hafi sent tvo geimfara í geimgöngu sem stóð yfir í níu klukkutíma.
Hvernig geimfararnir nærðust og sinntu öðrum líkamlegum þörfum sínum kemur ekki fram í umfjölluninni en við gerum ráð fyrir að þeir hafi tekið með sér nesti.
Það er líka rifjað upp í fréttinni að Kínverjar hafi skotið öðrum geimkönnuðum ref fyrir rass, þegar þeir sendu menn til bakhliðar Tunglsins og þaðan síðan heim aftur.
Á Íslandi var verið að ræða það í Ríkisútvarpinu að rannsóknarstöð Kínverja væri ef til vill og huganlega og kannski, ekki öll þar sem hún er séð og vitanlega voru það Bandaríkjamenn sem fyrir því voru bornir.
Við munum að fyrir einu ári eða svo, var ári gaman að fylgjast með fréttum frá Bandaríkjunum, þegar þeir voru að eltast við veðurloftbelgi sem borist höfðu yfir til þeirra.
Belgirnir voru náttúrulega kínverskir og þar sem svo var, tóku þeir bandarísku það til bragðs að skjóta einhverja þeirra niður.
Við gerum ráð fyrir að þeir séu enn að rannsaka hræin, ef þeir þora þá að koma nærri þeim!
Fleira er í þessari kú, því nú eru kanar vaknaðir til lífsins og búnir að búa sér til áhyggjuefni vegna kínverskrar rannsóknarstöðvar sem er hér á ísa köldu landi.
Stöðin mun vera til þess, að rannsaka norðurljósin og líklega óttast Bandaríkjamenn að ljósin slokkni eða breytist ef kínversk augu virði þau fyrir sér.
Annað mjög dularfullt mál er að plaga þá bandarísku þessa dagana og það er, að fljúgandi furðuhlutir sveima nú yfir landi þeirra og borgum þess meira en nokkru sinni fyrr, en eins og svo oft áður fundu menn það út eftir ítarlegt japl jaml og fuður, rannsóknir og tuður, að um væri að ræða flygildi sem fá má í nálægum leikfangaverslunum.
Málið verður sett í nefnd, gerum við ráð fyrir og þaðan yfir í yfirnefnd og að því loknu verður farið að skoða hvort norðurljósin logi, hafi breytt um lit eða stækkað eða minnkað.
Því eitthvað verða menn að hafa að iðja, í vestri sem og annarstaðar.
16.12.2024 | 06:34
Fljúgandi furðuhlutir og barnsrán...
Ríkisútvarpið segir frá því að sést hafi til fljúgandi furðuhluta enn einu sinni í Bandaríkjunum og hefur það trúlega eftir frétt sem var á AP fréttastofunni.
Við Íslendingar látum okkur nægja einn slíkan en hann er í formi ,,utanríkisráðherra, sem nú er að nýta sér möguleika til heimshornaflakks á kostnað þjóðar sinnar og fer sú til til Eistlands á einhverskonar ráðstefnu eða fund um eitthvað.
Í Danmörku er sá siður við hafður, að taka nýfædd börn með valdi frá mæðrum sínum séu þær grænlenskar.
Frá því er einnig sagt á Ríkisútvarpinu en þar má sjá þegar verið er að taka með valdi barn af móður sem er nýbúin að fæða það í heiminn.
Rúv hefur fréttina frá AP fréttastofunni, eftir því sem ritari kemst næst og það verður að segjast, að það er sárt að horfa upp á það, þegar verið er að fjarlæga barnið frá móður sinni.
Móður sem ekki er í neinni aðstöðu til að gera neitt til að koma í veg fyrir ránið.
Danir eru ekki með sem hreinastan skjöld hvað varðar framkomu við frumbyggja Grænlands og er lykkjumálið alræmda þekkt dæmi þar um.
En að öðru, því nú eru það enn eitt sinnið sem fljúgandi furðuhlutir eru að ergja Bandaríkjamenn.
Þeir sveima yfir og allt um kring, bandarískum til hrellingar og þó nú sé um að ræða dróna, eftir því sem sagt er og þá væntanlega dróna sem einhverjir eru að leika sér með í bandarísku andrúmslofti, þá er vissara að líta á flygildi af þessu tagi sem sendingu frá Kína, Rússlandi eða utan úr geimnum sé maður bandarískur.
Við munum eftir veður- njósna- loftbelgjunum sem svifu um í bandarískri lofthelgi fyrir skömmu, sem skotnir voru niður af bandarískum, kínverskum til skemmtunar.
Svona er það í mannheimum, að það gerist allt mögulegt og ómögulegt og sumt er af því tagi, að það læðist að grunur um að leikurinn sé gerður til að framkalla hlátur, eða a.m.k. glott eða bros.
Sumt er þess eðlis að maður vill helst ekki trúa því og dæmi þar um, er það sem fram fór á hinu danska sjúkrahúsi.
14.12.2024 | 06:35
Stjórnarmyndun og stjórnarómynd
Það er frekar þungt hljóð í töpurum vetrarkosninganna til alþingis, sem fram fóru fyrir fáum dögum.
Fjármálaráðherrann fráfarandi vill ekki kannast við að ríkissjóður sé illa staddur og telur að [ ]þetta fólk sé bara ekki læst á neinar tölur, því þetta lá fyrir við afgreiðslu fjárlaga,, eftir því sem haft er eftir honum í Vísi.
Hann bregst þar við orðum Kristrúnar Frostadóttur formanns Samfylkingarinnar, sem mun hafa sagt sem svo, að fráfarandi ríkisstjórn skilji eftir sig verra bú en haldið hafi verið fram.
Kristrún mun hafa sagt það, þegar hún útskýrði hvers vegna það tæki tíma að fara yfir málin og mynda nýja ríkisstjórn, að það sem m.a. tefði væri:
Fyrst og fremst er það vegna þess efnahagsstaðan er lakari, [ ]. Það eru hægari umsvif í hagkerfinu, meðal annars vegna þess að vextir hafa verið svo gríðarlega háir að þeir hafa haldið niðri fjárfestingu og umsvifum. Þetta þýðir að við þurfum að passa okkur betur hvernig við högum stöðu ríkisfjármála og vali aðgerða
Eins og við vitum, þá eru Framsóknarmenn öðrum betri í því að fara með almannafé og því er von að þeim sárni þegar þeim er bent á hvernig staðan í raunheimum er, efir að þeir hafa mótað og hnoðað ríkissjóð eftir sínu höfði um árabil.
Fráfarandi forsætisráðherra er jafnvel enn sárari, þar sem hann segir skv. fyrirsögn í mbl.is ,,að valkyrjustjórnin sé búin að pakka í vörn.
Það er álitamál hver pakkar hverju og fyrir hvern en ljóst er, að ríkissjóður stendur ekki eins vel og fráfarendur vilja vera láta.
Það þekkja það margir, að það getur verið erfitt að horfast í augu við að illa hafi til tekist, auk þess sem ,,höfnun er ekki sérstaklega örfandi, en að stjórnmálamenn vilji ekki viðurkenna óþægilegar staðreyndir, ætti engum að koma á óvart.
11.12.2024 | 08:30
Myndun ríkisstjórnar
Þær funda þétt konurnar þrjár sem eru að vinna í því að koma saman ríkisstjórn. Komið er í ljós að staða ríkissjóðs er ekki sérlega traust, svo ef til vill er kominn tími á, að hinar ,,hagsýnu húsmæður“ taki við taumunum.
Það er fjallað um stjórnarmyndunina á vef Ríkisútvarpsins og mbl.is þaðan höfum við þessar upplýsingar; þær hafa haldið þétt að sér spilunum og því vitum við ekki allt um það sem er að gerast.
Eftir Kristrúnu Frostadóttur er haft eftirfarandi á ruv.is:
„Ég held að það liggi í hlutarins eðli að við erum í þremur flokkum af ástæðu. En við erum allar mjög lausnamiðaðar og meðvitaðar um stóru myndina, að finna sameiginlega fleti og við erum að ná lendingu mjög víða og höfum getað talað okkur í gegnum allflest.“
Það hefur oft tekið talsverðan tíma að koma saman ríkisstjórnum og telja má að ekkert óeðlilegt sé að það taki nokkrar vikur.
Það má skynja það í þjóðfélaginu að vindurinn blæs með þessari tilraun til myndunar ríkisstjórnar og það eykur tiltrú að fólk skynji, að verið sé að vanda til verka.
Þau eru nógu mörg dæmin um að illa hafi verið staðið að ríkisstjórnarmyndunum og er sú sem nú er að fara frá gott dæmið um það.
Þar var soðin saman stjórn með einum flokki innanborðs sem ekki var stjórntækur og það má bæði virða það hinum flokkunum það til kosts og lasts að þeir skyldu hanga svo lengi saman í stjórnarsamstarfi með þeim flokki.
Sá fékk verðuga útreið í kosningunum og féll út af þingi og varð lítið um söknuð.
Við skulum vona að betur takist til núna og að stjórnin sem mynduð verður, verði betur samhangandi en fyrirbærið sem á undan var.
Á mbl.is er rætt við Kristrúnu og þar segir m.a. eftirfarandi:
,,„Ríkisstjórnin fyrrverandi er að skilja eftir sig verra bú, meðal annars vegna þess að efnahagsumsvif eru minni en áður var við búist. Tekjur til ríkisins eru minni og þetta er auðvitað mjög erfitt mál því þarna þarf að forgangsraða. Þarna þarf að ræða bæði tekjuhlið og útgjaldahlið,“ segir Kristrún.
Heildarafkoma A1-hluta ríkissjóðs árið 2025 er nú áætluð neikvæð um 1,2% af vergri landsframleiðslu. Er það lakari afkoma en áætlað var við framlagningu fjárlagafrumvarpsins í september og fjármálaáætlunar 2025-2029 í apríl.“
Kristrún segir að þetta séu afleiðingar af ákveðnu stjórnarfari og bætir eftirfarandi við í samtalinu við blaðamann:
,,„Þetta hefur auðvitað áhrif á það hvernig við hugsum ákveðnar aðgerðir en þetta er bara staðan eins og hún er og við þurfum bara að vinna með hana. Ég segi að það sé bara gott að það stefni mögulega í að nýtt fólk taki við vegna þess að þetta bú er afleiðing af ákveðnu stjórnarfari sem hér hefur verið til staðar,“
Viðtalinu lýkur með eftirfarandi tilvitnun í orð hennar:
,,„Við erum að minnsta kosti að skanna hagkerfið, ef svo má segja, varðandi þenslu og passa upp á það að við sjáum áframhaldandi lækkun vaxta og verðbólgu. Ef við förum af stað í útgjöld sem tefla því ferli í tvísýnu þá fáum við það aftur í fangið, við erum fullmeðvitaðar um það. Það eru hins vegar ákveðnar breytingar sem er hægt að gera strax. Sumar kosta ekki neitt, aðrar kosta minna. Sumar er hægt að sækja tekjur fyrir strax, eða hagræða fyrir strax,“ segir Kristrún.“
Viðskilnaðurinn er sem sagt ekki sérlega góður og kemur það ekki á óvart, þegar milljörðum hefur verið slett í ýmsar áttir án mikillar yfirvegunar um árbil og það án þess að byggt hafi verið undir og innviðir styrktir, s.s. sést á raforkukerfinu o.fl. og fl.
10.12.2024 | 05:51
Konur eða karlar
Það er þung alvara í grein sem lesa má í Heimildinni, þar sem segir frá því að vísa eigi ungri konu úr landi ekki til Sýrlands þaðan sem hún kom heldur til Venezúela, en þaðan mun hún hafa komið til Sýrlands.
Það stendur sem sé til að vísa henni til landsins sem hún flúði frá í uppphafi, væntanlega að brýnni þörf.
Það á ekki að vísa henni til landsins sem hún kom frá til Íslands, heldur til landsins sem hún flúði upphaflega þ.e.a.s. Venúsela.
Kona þessi mun hafa unnið sér það til vanhelgi að hafa verið tilnefnd til verðlaunanna ,,Framúrskarandi ungur Íslendingur vegna starfa sinna við að hjálpa til við ,,sjálfboðaliðastörf sem hún hefur unnið með börnum, skv. því sem segir í umfjöllun Heimildarinnar um málið.
Sagan er ótrúleg og við höfum veika von um að hún sé ósönn en vitum samt, að ekki verður logið upp á rökleysurnar í kerfinu okkar!
Það eru aðrar konur sem við fylgjumst mest með þessa dagana og það eru skytturnar þrjár, Valkyrjurnar, sem komu sáu og sigruðu í alþingiskosningunum, sem haldnar voru fyrir nokkrum dögum.
Hvort þeim tekst eða hvort þeim tekst ekki, að koma saman ríkisstjórn, á eftir að koma í ljós.
Það væri satt að segja dálítið skemmtilegt og nýstárlegt líka, ef það tækist að mynda ríkisstjórn sem leidd væri að þremur konum.
Fram til þessa hafa það verið karlar sem hlotið hafa það hlutverk að vera í forystu fyrir íslenskar ríkisstjórnir en þó með einni eða tveimur undantekningum.
Hvort ,,þeirra tími mun koma vitum við ekki en við getum vonað og svo vonum við líka að ef úr þessu verður, að þá lánist þeim vel, að gæta hagsmuna lands og þjóðar.
Vonum sem sagt hið besta en erum viðbúin hinu versta, eins og við höfum alltaf verið!
Hvers kyns forystumenn ríkisstjórnar eru ætti ekki að skipta máli, en kannski er það þó þannig þegar litið er ofan í sálartetur þeirra sem fastir eru í hefðinni!
Við höfum misjafna reynslu af ríkisstjórnum, sem ekki verður farið yfir í þessum pistli, en við munum að nær allar hafa þær verið leiddar af körlum eins og fyrr sagði.
Konur, valkyrjur sem aðrar, sitja jú heima og gæta bús og barna, er það ekki?
Tímarnir eru breyttir og því getum átt von á því að, þó lang- oftast séu konur best til þess fallnar að sjá um og gæta þess sem dýrmætast er að þá séu það oftast karlarnir sem stjórna heilu þjóðunum!
Hvers vegna er það? Er það vegna þess að þeir séu betur af guði gerðir til þess? Líklega ekki, en myndast hefur hefð, sem líklega er til orðin vegna þeirrar staðreyndar að það eru konurnar sem fengið hafa það hlutverk að gæta bús og barna; ganga með börnin, fæða þau í heiminn og annast þau síðan.
Er það ekki góð undirstaða til að byggja á, þegar gæta á hagsmuna þjóðar?
4.12.2024 | 09:52
Lofum mey að morgni og ríkisstjórn að kveldi, ef hún á það skiið
Gengið og ekið var til kosninga fyrir fáum dögum og sumir fengu það sem þeir vildu en aðrir ekki.
Ívar sem teiknar fyrir Morgunblaðið, sýnir okkur mann sem liggur á bekknum hjá sála sínum og er alveg hættur að botna í sjálfum sér, en á hinni myndinni er svo að sjá sem Bjarni sé búinn a tína einhverju!
Við búum við fjölflokkakerfi og óhætt er að segja að ekkert hafi skort upp á það í kosningunum sem fram fóru síðastliðna helgi.
Flokkarnir voru óvenju margir og kjörseðillinn langur eftir því og svo fór að ritari hugleiddi eina örskotsstund, hvort flokkurinn sem hann ætlaði að kjósa væri ekki á hinum snyrtilega samanbrotna renningi.
Eftir nokkra athugun fannst ,,listinn lystilegi og hið margrómaða X var sett á sinn stað.
Ýmislegt var sérstakt við kosningarnar og er þar fyrst að telja, að þær fóru fram þegar kominn var harða vetur og allra veðra von.
Sá sem kaus að sprengja stjórnarsamstarfið hefur trúlega ekki litið á dagatalið eða tekið feil á mánuðum og hugsanlega gleymt því í hvaða landi hann væri.
Ritari þekkir það af eigin reynslu að veðrið er oftast nær gott við sundin blá, þ.e.a.s. sundin sem nýfallinn forsætisráðherra býr í grennd við.
Hvað sem þessu leið, þá varð ekkert framboð á talningarvandræðum í ,,úti á landi landshlutum og almennt var ekkert slíkt framboð, nema á suðvestur horninu veðursæla.
Þar gekk óvenju illa að telja en allt hafðist það á endanum og ekkert spurðist til Borgarness í því sambandi!
Flokkafækkun varð veruleg og sá sem elstur var í hópi smáflokkanna og sá sem setið hafði í ríkisstjórn árum saman í innilegu samstarfi við ysta hægrið í íslenskri flokkaflóru, fékk svo lítið fylgi, að hann hreinlega gufaði upp og eftir situr lítil flokkssletta sem er þyngri en svo að hún geti horfið inn á astralplanið án eftirkasta.
Stjórnarviðræður eru hafnar milli þriggja kvenna sem eru í forystu fyrir þremur flokkum sem til stendur að bræða saman í ríkisstjórn.
Hvernig það gengur er ekki ljóst enn, en sú sem hefur stærstan munninn fyrir neðan nefið er þegar búin að gefa ríkisstjórninni nafn sem er: ,,Valkyrjustjórnin.
Nafnið mun vera dregið af því að hún telur þær vera miklar Valkyrjur og satt að segja hefur mörg íslensk ríkisstjórn gengið undir verra nafni.
Örlítil athugun leiðir í ljós að nafnið er dregið af föngulegum konum fortíðar sem kunnu ýmislegt fyrir sér, eða eins og segir á Wiki:
,,Valkyrja er kvenkyns persóna úr sem hafði það hlutverk að sækja fallna hermenn og koma þeim til Valhallar.
Sem betur fer er enginn ,,fallinn í þeim skilningi sem hér er til vitnað en flokkar eru fallnir út af þingi og ríkisstjórnin er fallin líka.
Hvort eftirsjá er í þeim sem ,,féllu út af þingi, fer eftir viðhorfi hvers og eins en vitað er að mörg voru þau okkar, sem voru búin að fá meira en nóg af ,,stjórn þeirri sem féll og er þá átt við báðar útgáfurnar sem hún bauð upp á, þ.e.a.s. bæði með og án Vg.
Niðurstaðan er sú, að það hafi verið til góðs að kjósa og taka til í flokkakraðakinu og reyna að mynda nýja ríkisstjórn, sem tíminn mun síðan leiða í ljós hvernig reynast muni.