30.11.2024 | 05:16
Allir þurfa þak yfir höfuðið
Á Vísi er fari yfir umræðuþátt sem var á dagskrá Stöðvar 2 í gær (28/11/2024). Þátturinn var langur og þátttakendur í umræðunum komu víða við en einna mesta athygli vakti, hjá þeim sem þetta ritar, umræða um húsnæðismál.
Kristrún Frostadóttir vakti máls á húsnæðismálunum og svo var að heyra sem Bjarni væri ekki alveg með á nótunum en hann virtist hlusta.
Gera má ráð fyrir að einhverjir muni eftir kerfi sem kallað var ,,Verkamannabústaðakerfið.
Kerfi þessu var komið á legg til að efnaminna fólk hefði möguleika á að komast í öruggt skjól og ritari þessa pistils, man eftir ágætu húsnæði í Reykjavík og víðar, sem komið var upp í þessum tilgangi.
Fólk er allskonar og það á misjafna möguleika á að koma sér fyrir í lífinu og því var gripið til ýmissa ráða til að grípa þau sem stóðu höllum fæti hvað húsnæði varðaði.
Íslendingar fundu ekki upp kerfi af þessu tagi en þeir sóttu sér fyrirmyndir til annarra landa og þær gáfust að mörgu leiti vel.
Fólk er allskonar, við megum ekki gleyma því og það sem einn getur gert, getur annar verið í vandræðum með og svo má ekki gleyma því, að störf eru misjafnlega launuð og þeir sem eru t.d. að berjast áfram með sjálfstæðan rekstur, getur gengið það misjafnlega eins og flestir vita.
,,Gleymdu ekki þínum minnsta bróður stendur á góðum stað og við þurfum að muna eftir því.
Ekki gleyma, þó vel gangi og menn komist í vel launaðar stöður og verði svo dæmi sé tekið alþingismenn og/eða ráðherrar, að huga þarf að öllum í samfélaginu og þeim vitanlega mest sem verst standa.
Alþingismenn eiga að gæta hags lands og þjóðar og þjóðin erum við öll!
Það væri betur að haldið væri við þeim ,,kerfum sem gefist hafa vel í stað þess að láta þau grotna niður.
Eitt er það fyrirbæri sem braskarar hafa komið sér upp og það er leiga á húsnæði í skammtímaleigu, ,,Airbnb t.d. til erlendra ferðamanna og það var nefnt til sögunnar í þættinum.
Og það fyrirbæri hafa efnamenn notað til að komast yfir ,,heilu blokkirnar, ef rétt var tekið eftir, og leigja þær síðan út, sem gististaði m.a. fyrir ferðamenn.
Skammtímaleiga sem er ekki eins og það, svo dæmi sé tekið, þegar menn leigja herbergi í íbúð sinni t.d. kjallaraherbergið, sem fylgir gjarnan íbúðum í fjölbýlishúsum.
Í þrasi þáttarins var sem þetta vildi gleymast, eða var e.t.v. einhver önnur ástæða til, að áhuginn á að ræða málið takmarkaðist við málshefjandann?
Undirritaður tók eftir að Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar kom inn á þetta mál en það var sem fulltrúar núverandi stjórnarflokka hefðu lítinn áhuga á því.
Gamla verkamannabústaðakerfið þyrfti að skoða með það í huga að vekja það til lífsins að nýju og vitanlega þarf þá, að koma í veg fyrir að braskarar geti sölsað það undir sig með fyrrgreindum hætti.
Benda má á, að kerfi af þessu tagi eru t.d. á Norðurlöndunum a.m.k. sumum, ef ekki öllum og sjálfsagt eru þau víðar og hafa m.a. Íslendingar sem þar hafa verið búsettir getað nýtt sér þessa möguleika til húsnæðis.
27.11.2024 | 08:02
Kosningar að vetri
Maskína gerði könnun fyrir Heimildina á því hvaða flokka fólk vildi sjá saman í ríkisstjórn og yfir niðurstöðuna er farið í grein sem er undir yfirskriftinni ,,Flestir vilja Viðreisn og Samfylkingu í næstu ríkisstjórn.
Ríkisstjórnin sem ekki veit hvaða árstími er og líklega ekki heldur í hvaða landi hún starfaði, gafst upp á sam-,,starfinu" eins og kunnugt er og eftir sat minnihlutastjórn.
Svo virðist sem firringin hafi verið slík að gleymst hafi að líta á almanakið til að kanna hvaða árstími væri og því er það, að tvísýnt er hvernig ganga muni að framkvæma kosningarnar.
Það er í sjálfu sér viðurkenningarvert að menn átti sig á því hvenær þeirra tími sé kominn og að ekki verði gengið lengra; samstarfið sem ekkert samstarf hafði verið í raun náði ekki lengra.
Vinstri grænir fóru úr stjórninni en eftir sátu og sitja enn, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn og það á að halda kosningar.
Við vitum það flest að það er kominn vetur en ríkisstjórnin ráðlausa hafði ekki tekið eftir því.
Í könnun Heimildarinnar kemur fram að flestir kjósenda vilja sjá Samfylkinguna og Viðreisn saman í ríkisstjórn að kosningum loknum.
Hvort þeim verður að ósk sinni mun koma í ljós eftir kosningar, því enginn veit hvernig atkvæðin dreifast á flokkana fyrr en búið er að kjósa og telja, en þar getur hnífurinn staðið í vorri kú!
Takist fólki að komast á kjörstað og greiða atkvæði, er sagan ekki nema tæplega hálf, því eftir er að koma atkvæðunum dýrmætu, á talningarstað og eins og við vitum frá síðustu kosningum er ekki á vísan að róa, með hvernig tekst til með talninguna þó það takist að koma þeim þangað.
Þar getur allt mögulegt gerst sem ekki á að gerast og eins ekki gerst það sem á að gerast, því það veldur hver á heldur eins og þar stendur.
Ríkisstjórnin ráðlausa, er vonandi ekki á leið til endur- vakningar og því er það að þjóðin kemur saman á kjörstaði, komist hún það fyrir veðri og ef við verðum svo lánsöm að veðrið verði ekki til vandræða, tekst vonandi að koma atkvæðunum á talningarstaði, en verði veðrið eins og það getur verst verið að vetri, þá flækist málið.
Við sleppum því að telja vöffin í síðustu málsgreininni og vonum það besta úr því sem komið er, en ljóst má vera, að ríkisstjórnin ráðalausa verður að víkja!
25.11.2024 | 07:29
Um skoðanakannanir
Senn verður kosið til Alþingis og spennan eykst, en áður en við köfum dýpra, þá skulum við virða fyrir okkur þessa fallegu mynd sem birtist óvænt á skjánum hjá ritara og höfum í huga, að þessi fugl kafar aðeins til hálfs og það sama gildir um þann sem þetta ritar!
Skoðanakannanir berast og stundum fleiri en ein á sama degi og í einstaka tilfelli eru þær ekki traustar þ.e.a.s. að grunur liggur á, að um geti verið að ræða örlitla hagræðingu í túlkun niðurstaðna til að henti betur þeim sem birtir niðurstöðuna.
Það er dálítið erfitt að festa hönd á þessum grun og finna eitthvað honum til staðfestingar en þegar fyrir liggur að þeir, sem eru að túlka viðkomandi könnun og niðurstöður hennar, eru starfandi fyrir miðil, sem er tengdur stjórnmálaflokki, þá er dálítið erfitt að treysta því sem fram kemur.
En það eru líka til miðlar sem tengdir eru notendum sínum með öðrum hætti, eru t.d. reknir af hinu opinbera og eru undir stjórn manna sem eru vandir að virðingu sinni og er ekki þar með sagt að hinir séu það ekki en það fer ekki hjá því að maður leiði hugann að tengslunum og hugsi sem svo:
Er andað ofan í hálsmál beint eða óbeint og getur verið að menn séu að túlka miðurstöðurnar eftir því sem best getur fallið þeim í geð sem að baki þeirra stendur?
Það er óþægilegt þegar svona er og maður veit ekki fyrir hvað, nöfn fyrirtækjanna standa.
Eitt þeirra heitir Prósent, sem er ágætt nafn á slíku fyrirtæki en hvað er á bakvið nafnið og annað heitir Maskína og hvað er þar á bakvið?
Spyr sá sem ekki veit.
Hvað er orðið um gamla Gallup, er það starfandi eða er það ef til vill hætt, eða hefur það farið fram hjá ritara, að það sé starfandi?
Síðan má náttúrulega spyrja sig hvort það hafi verið áreiðanlegra en þau nýju sem sprottið hafa upp og hvað er það eiginlega sem hvetur menn til að vera með svona starfsemi?
Er það hugsjón og hver er þá hugsjónin?
Er hún sú að vilja vinna vandaða vinnu, eða er hún sú, að vilja vera fyrstur með fréttirnar og að vinna vel fyrir þá sem biðja um könnun á fylgi við stjórnmálaflokka, vöru eða hvaðeina, sem mönnum getur langað til að vita og koma því síðan á framfæri?
Spurningamerkin eru mörg en það er óneitanlega dálítið gaman að fylgjast með þessu og svo vitanlega niðurstöðum kosninganna.
Það á eftir að ganga til þeirra og telja og ekki má gleyma því, að kosningabaráttan er í fullum gangi og færist enn í aukana ef eitthvað er.
Þannig að enn getur margt gerst!
23.11.2024 | 09:11
Kosningaspenna
Heimildin fer yfir niðurstöður skoðanakannana, þegar stutt er orðið í kosningar og niðurstöðurnar eru ólíkar því sem við eigum að venjast.
Þar segir frá því meðal annars að:
,,Samfylkingu og Viðreisn vanti eitt þingsæti til viðbótar til að ná að mynda meirihluta í þinginu, miðað við nýja skoðanakönnun Maskínu.
Súluritið er fengið úr Heimildinni en ritari tók sér það bessaleyfi að snúa því um 90° Heimildin tekur fram að hún hafi sínar upplýsingar frá Vísi sem greint hafi frá þessum niðurstöðum og rétt er að taka fram að þar er farið ítarlegar í að rýna í þær.
Flokkarnir þ.e. Samfylking og Viðreisn sem rætt er aðallega um, bæta báðir við sig milli kannana og fram kemur, að ,,Sósíalistar mælast stærri en Sjálfstæðisflokkur í einu kjördæmi.
Það hljóta að teljast nokkur tíðindi, ef flokkur sem er að stíga sín fyrstu skref og á sér enga forsögu nema nafnið, nær að skáka hinum gamalkunna Sjálfstæðisflokki, þó ekki sé nema í einu kjördæmi.
Það er fleira sem við sjáum í þessari kosningabaráttu, því svo gæti farið að formaður Framsóknarflokksins ná ekki inn á þing og Samfylkingin og Viðreisn þurfa að taka með sér einhvern þriðja flokk eins og staðan er þessa stundina en nokkur hreyfing hefur verið á fylgi við flokkana að undanförnu.
Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Miðflokkurinn gætu myndað ríkisstjórn eins og staðan er núna en hve lengi sú stjórn myndi endast, er ekki gott að segja.
Fréttir hafa borist af undarlegri hegðun frambjóðenda Miðflokksins, m.a. í Verkmenntaskólanum á Akureyri, þar sem Miðflokksmenn voru í heimsókn og tókst að gera sig fræga að endemum.
Mynd af visir.is
Hvor slíkar uppákomur hagga fylgi við flokk af því tagi er hreint ekki víst, því a.m.k. formaður flokksins hefur tekið upp á ýmsu til að vekja athygli á sér, eins og t.d. því að fara út í náttúruna og slafra þar í sig hrátt nautakjöt.
Hvort það varð nautakjötsframleiðslunni til framdráttar eða hið gagnstæða, verður ekki dæmt um hér.
Það eina sem við vitum á þessari stundu um það hver niðurstaðan í kosningunum verður, er að við vitum ekkert með vissu en vitum þó, að við höfum vísbendingar um hvernig fara muni, eða farið geti.
Það verður spennandi að fylgjast með talningunni, sem vonandi gengur betur en síðast!
21.11.2024 | 14:57
Kosningagos
Nei, bara eldgos og þau eru sem fastir liðir eins og venjulega, á Reykjanesi.
Þetta var í Morgunblaðinu um daginn og nú er gripið til sparnaðaraðgerða, enda séð fram á krepputíma að kosningum loknum:
En þegar við vöknum þennan morguninn, er sagt frá því í fréttum, að eldgos sé hafið í enn eitt skiptið á Reykjanesi.
Lítið og nett sprungugos eins og þau hafa verið flest og ástandið er fyrir löngu farið að minna á ,,Kröflueldana, sem afgreiddir voru svo léttlega af Jóni Sólnes þegar hann sagði:
,,Við kröflum okkur út úr þessu.
Þeir Ragnar Arnalds og hann, lögðu til hliðar pólitískan fjandskap þegar þeir voru í forsvari fyrir framkvæmdunum við Kröfluvirkjun.
Eldgos í byggð, eða á framkvæmdasvæðum eru ekkert grín en Jóni var fyrirgefið þó hann slægi á létta strengi, því það þarf að hafa léttleikann með, svo alvaran fari ekki að verða of þungbær!
Það eru ekki framkvæmdir sem liggja á okkur þessa dagana, heldur kosningar til Alþingis og eins og tekið hefur verið eftir, liggja aurar á lausu til að gera eitt og annað, sem reyndar verður trúlega fæst síðan gert eftir kosningar.
Það er nefnilega oft þannig, að þegar búið er að kjósa, þá breytast viðhorfin og þá þarf að huga að einhverju öðru en því sem var til umræðu fyrir kosningarnar.
Atkvæðin eru komin í hús, eins og það er kallað og þá er farið að hugsa að eitthvað annað.
Sjálfstæðisflokkurinn segist ætla að fjölga lögreglumönnum um 200 eftir kosningar.
Framsóknarflokkurinn rýkur til og segist ætla að byggja brú sem búið er að japla um og jamla á í langan tíma, en eftir er að hanna.
Áður en flokkurinn batt ástfóstri við brúna, sem enn er óhönnuð hugmynd, dreymdi hann um að bræða göng undir Ölfusá og sleppa brúnni.
Nú er ,,bræðslutólið gleymt og grafið og það sama mun gilda um göngin miklu sem bræða átti til Eyja og töframaðurinn sem jarðbræðslunni átti að stjórna, hefur ekki verið nefndur í langan tíma.
Svo er samt ekki um rafknúnar farþegaþotur sem Framsóknarflokkinn dreymir um, því þær birtast í umræðunni við hin ýmsustu tækifæri.
Rafknúin tól af ýmsum gerðum þurfa raforku og því stærri sem tólin eru, því meiri raforku þarf til að knýja þau, en það er ekki í handbókum Framsóknar.
Þau kjósa sig svo sjálf en það er fullkomlega eðlilegt eins og flestir sjá, því ekki geta þau farið að kjósa einhverja aðra, sem eru þar að auki með alrangar hugmyndir!
Þannig er það að þeir sem þrá að halda völdum og þykir gaman að ,,ráða og ,,stjórna, að þeir þurfa sífellt að finna upp á einu og öðru til að heilla okkur kjósendur.
Til er andategund sem kölluð er stokkendur en hún kemur þessu ekkert við og stígur ekki einu sinni á stokk og hvað þá tvisvar!
Og fer aldrei í framboð!
Teiknarar draga upp myndir í fjölmiðla og hafa gaman að öllu tilstandinu og hér sjáum við nokkur dæmi um það, sem Ívari teiknara Morgunblaðsins, hefur dottið í hug. Almennir kjósendur vita hins vegar að flest verða kosningaloforðin gleymd að kosningunum loknum.
20.11.2024 | 06:47
Bændasamtökin í fortíð og nútíð
Í Heimildinni er farið yfir hallarbyltinguna sem gerð var hjá Bændasamtökunum, þegar kosinn var nýr formaður og framkvæmdastjóri, sem ný forysta rak síðan úr starfi án sýnilegrar ástæðu.
Við erum nokkur sem munum það sem var hjá Bændasamtökunum áður Stéttarsambandi bænda og síðan breytingarnar sem seinna urðu.
Bændasamtökin voru áður fyrr fyrst og fremst samtök sauðfjár- og kúabænda, enda þær búgreinar umsvifamestar á þeim tíma og þá einkum sauðfjárræktin, sem auk afurða af kindinni til sölu á innanlandsmarkaði, framleiddi svo mikið umfram þörf, að flytja þurfti afurðina út í skipsförmum.
Smávegis greiðslur fengust fyrir kjötið og Skipadeild Sambandsins, sem sá um flutninginn til annarra landa, fékk eðlilega greiðslur fyrir.
Þannig var þetta um langan tíma og þar kom, að stórir draumar vöknuðu hjá þeim sem gegndu trúnaðarstörfum fyrir bændur og niðurstaða þeirra varð, að ekkert minna dygði til en að byggt yrði glæsihótel til að hýsa starfsemina og framkvæmdin yrði fjármögnuð m.a. með því að leggja gjald á bændur landsins og þ.á.m. bændadætur og syni sem áttu oft eina eða fleiri kindur sem þau fengu að njóta innleggsins af að hausti.
Með árunum fjaraði smátt og smátt undan og æ minna var í kassanum til að borga reikningana og svo fór að blaðran sprakk og þau sem þá voru komin til starfa hjá samtökunum, urðu að bjarga því sem bjargað varð og máttu taka saman, flokka, hreinsa og henda og flytja að lokum starfsemina annað og nú er Hótel Saga ekki lengur til.
Eitt af síðustu verkum þeirra sem áður réðu húsum, var að fjárfesta í hótelhúsgögnum fyrir ómældar upphæðir og hafa þau eflaust verið borin út líka en ekki fer miklum sögum af, að mikið hafi fengist fyrir þau í endursölu þ.e.a.s. ef þær fóru þá ekki á haugana.
Það kom í hlut nýrra vanda að hreinsa út og sópa, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu og kosinn var vænn maður úr hópi garðyrkjubænda til að stýra samtökunum með nýrri stjórn og nýjum framkvæmdastjóra.
Það fólk gekk síðan í að í að gera það sem gera þurfti og var það ekki lítil vinna, að hreinsa út allskyns uppsafnað rusl sem orðið hafði til með tímanum.
Frá þessu er m.a. sagt í grein Heimildarinnar sem tengillinn er á í upphafi þessa pistils og verður það ekki rakið lengra, en þegar tiltektinni var lokið var gerð hallarbylting og kosinn sauðfjárbóndi sem formaður samtakanna og framkvæmdastjórinn rekinn og nýr ráðinn.
Þannig var þeim þakkað fyrir vel unnin störf, að þau voru látin víkja.
Það þykir gott að hafa grænmeti með kjötmáltíðunum og því var það, að mörgum í bændastétt, þótti það ekki verra að garðyrkjubóndi væri í forystu, þ.e. bóndi sem framleiðir það sem haft er með flestum kjötréttum.
Það er nefnilega fleira matur en feitt kjöt!
Hin nýja bylting varð til þess að horfið var aftur til fyrri tíðar að því leiti til, að hinn nýi formaður er sauðfjárbóndi.
Sumir segja að sagan gangi í hringi, breytist og endurtaki sig síðan og svo er að sjá sem það hafi sannast hjá samtökum bænda en hvort að eftir eins og hálfa öld verður kosinn til forystu samtakanna maður úr hópi þeirra sem sameina og horfa til framtíðar, mun tíminn einn leiða í ljós.
_ _ _
Það er framkvæmdastjórinn sem látinn var hætta, þegar nútíðin breyttist í fortíð, sem rætt er við í grein Helga Seljan og sem vitnað var til hér í upphafi.
Í grein Helga er m.a. eftirfarandi haft eftir Vigdísi Häsler fyrrverandi framkvæmdastjóra:
Framsóknarmenn voru aðallega pirraðir því Bændasamtökin voru þeirra vígi. Ég lagði mig hins vegar fram um að vera frekar í sambandi við og nálgast fólk í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Ég var að vinna fyrir atvinnugreinina en ekki einstaka stjórnmálaflokka. Ég held að það hafi gengið vel, segir Vigdís og bætir við að þó að hún hafi verið að vinna á Alþingi og hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga hafi hún aldrei verið í starfi þar sem pólitíkin var jafnmikil.
Það er alveg ofboðsleg pólitík í Bændasamtökunum. Menn verða að passa að þetta verði ekki eins og hér áður fyrr þegar Framsóknarflokkurinn ók um sveitir landsins ásamt forystu Bændasamtakanna. Við erum með alls konar landslag af bændum. Þeir eru Píratar, þeir eru Sjálfstæðismenn, Vinstri græn, á óháðum listum allt pólitíska litrófið. Ég hlustaði ekki á umfjöllun um landbúnað og keypti mér ekki kótilettur, segir Vigdís Häsler á einum stað í viðtalinu.
Myndin eru úr grein Heimildarinnar.
15.11.2024 | 06:31
Vindorka eða vatnsorka
Í grein undir yfirskriftinni ,,Vindurinn Ekki sjálfgefinn í Heimildinni eftir Ara Trausta Guðmundsson er fjallað um vindorkuver og vatnsaflsvirkjanir og hvernig þessi mismunandi orkuver vinni saman, eða réttara sagt vinni ekki saman.
Ef rétt er skilið, telur höfundur greinarinnar, að vindorkuverin þurfi vatnsorkuverin til að brúa bilið þegar vindinn skorti og því þurfi það sem hann kallar réttilega ,,jöfnunarafl og ef rétt er skilið, þá telur hann, að þar muni vatnsaflsorkuverin koma til með taka við orkuþörfinni.
Sá sem þetta ritar telur að snúa megi dæminu við og segja sem svo, að þegar vindorkuverin fái næga orku þá geti vatnsaflsorkuverin dregið úr sinni framleiðslu og safnað í lónin vatni til að nota síðan til að framleiða orku þegar vindinn skorti, þ.e.a.s. að þessar orkuöflunaraðferðir komi til með að styðja hver við aðra.
Vatnsaflið er ekki stöðug auðlind og það er vindurinn ekki heldur en þessar orkuöflunaraðferðir geta vel unnið saman og tryggt betur orkuöflun.
Við vitum að það koma mismunandi góð ,,vatnsár og við vitum jafnvel enn betur, að ekki er treystandi á að vindurinn sé alltaf til staðar og þó okkur þyki lognið gott, þá er það ekki gott fyrir vindmyllurnar því það dregur úr orkuöflun þeirra og sé lognið algjört, sem sjaldan gerist hjá okkur, þá stöðvast vindmyllurnar og þá reynir á aðra orkugjafa sem þurfa að koma í staðinn!
Hins vegar er það, að þegar vindmyllurnar skila miklu geta orkuver sem nýta sér fallvötnin dregið úr sinni framleiðslu og safnað vatni í uppistöðulónin.
Það er því ástæðulaust að stilla þessum orkuöflunaraðferðum upp sem andstæðum.
Bæði vindorka og vatnsorka eru ,,hreinir orkugjafar samkvæmt þessu og engin ástæða til að stilla þeim upp hvorum gegn öðrum.
Þegar farið er um heiminn má víða sjá vindmyllur sem reistar hafa verið til orkuöflunar og við getum treyst því að það er verið að gera það til að afla orku og að orka sem þannig fæst, minnkar álagið á önnur orkuver ef eitthvað er.
Við skulum því skoða þetta sem samstarf sem skilar góðu vegna þess að aðferðirnar styðja hver við aðra.
11.11.2024 | 21:07
Mun ófriður breytast í frið?
Það er barist í Evrópu og það er barist í Afríku og eflaust víðar, þó ekki sé eins mikið um það fjallað.
Við getum lesið þar um hvernig ófriðaröldurnar berja á í ýmsum löndum en gera má ráð fyrir að við séum mörg sem erum einna mest með átökin í A- Evrópu í huga.
Þó ótrúlegt sé, þá eru bundnar talsverðar vonir við, að kosningaloforð Trump um skjóta stöðvun stríðsins milli Úkraínu og Rússlands verði að veruleika og svo er að sjá sem karlinn hafi ekki látið sitja við orðin tóm, því sagt er frá því að hann hafi þegar sett sig í samband við bæði Putin og Zelensky.
Við fögnum því, vonum að það sé rétt og að jákvæð niðurstaða náist fram, sem geti orðið til að stöðva átökin og að þjóðirnar sem í hlut eiga, geti í framhaldinu snúið sér að því að byggja upp í stað þess að brjóta niður.
Sagt er frá því á RT.COM að Úkraína standi að þjálfun manna sem síðan nýti kunnáttu sína til ófriðar og skemmdarverka í Afríku.
Sé það rétt að þeir hafi orku til slíkra hluta þrátt fyrir það sem þeir standa í sjálfir, þá er staðan þar ekki eins slæm og látið er í veðri vaka.
Þeir sem berjast fyrir hönd þjóða sinna í Rússlandi og í Úkraínu er ekki öfundsverðir af verkefninu.
Víglínan er löng og landsvæðin sem tekist er á um eru víðáttumikil og samkvæmt því sem við getum lesið, þá er engan vegin einfalt að eiga við það allt.
Hvers er hvað og hvað er hvers, á þessu landsvæði, er síðan endalaust hægt að deila um og hefur verið gert um aldir.
Við sem minni spámenn erum vitum að eitt sinn var Úkraína partur af Sovétríkjunum og var þeim mikils virði, þó ,,stálmaðurinn” hafi ekki skilið að svo væri en fyrir það bætti annar sem var þaðan upprunninn og gaf Úkraínu skagann, bara sí svona og kannski mest vegna þess að honum rann blóðið til skyldunnar, þar sem hann var úkraínskur.
Þannig var það í þá daga, að menn af úkraínskum uppruna gátu komist til æðstu valda í Sovétríkjunum.
Við leysum málin ekki með bloggtuði en gott væri nú, að menn slíðruðu sverðin og færu að ræða saman og vinna að uppbyggingu í stað þess að brjóta niður það góða sem þeir eiga.
Þau sem líða fyrir hernaðinn eru eins og vanalega þau sem minnst mega sín og síðan auðvitað hermennirnir sem hvattir eru til illverka og til að eyðileggja svo mikið sem þeir geta.
Hætt er við að þeir sem komast heilir á líkama verði ekki eins heilir á sálinni eftir að hafa verið þátttakendur í stríðsverkunum og að það muni þurfa eina kynslóð eða tvær ef ekki fleiri til að græða sárin, sem í þeim, aðstandendum þeirra og síðan þjóðunum sjálfum munu sitja.
Vonumst því eftir friði og því að hann verði varanlegur og ef til vill stendur Trump við loforðið!
Tenglar inn á það sem hér var stuðst við auk þes sem er í texta, eru eftirfarandi:
https://www.cnn.com/2024/11/11/europe/russia-drone-strikes-ukraine-intl-latam; https://www.bbc.com/news/articles/cx28jd0114ro;
9.11.2024 | 07:00
Eytt sparað og barist
Stjórnendur Reykjavíkurborgar stefna á að tekjuafgangur á næsta ári verði 1,7 milljarður.
Það er nánast á pari við það sem ríkisstjórnin færði forseta Úkraínu að gjöf, eftir að hafa boðið honum á þing Norðurlandanna.
Og það vantar a.m.k. milljarð í rekstur Landhelgisgæslunnar, milljarð sem ekki liggur á lausu.
Ekki hefur ritari séð hve margir hundar og kettir hafa verið fluttir til landsins frá Úkraínu en fram hefur komið, að kostnaður við hvert gæludýr, sem fólkið sem flýr stríðið tekur með sér, kosti íslensku þjóðina 3 milljónir íslenskar auk þes sem það mun kosta um 7 milljónir að taka á móti hverjum flóttamanni.
Ríkissjóður Íslands er rekinn með halla sem meðal annars stafar af fjáraustri í stríðsrekstur, sem íslensku þjóðinni kemur ekki við, nema ef hún myndi manna sig upp í að reyna að stilla til friðar.
Ganga á milli og reyna að bera klæði á vopnin, hvort sem er á milli Ísraela og Palestínumanna, eða Úkraínu og Rússlands.
Þess í stað var farið í barnalega fýlu út í Rússland, sem líkist því þegar börn snúa sér undan og segja ,,ég vil ekki tala við þig"!
Væri dugur og mannsbragur á hópnum sem landinu stjórnar, hefðu menn kynnt sér málin, rekið utanrikisráðherrann, ráðið nýjan og farið í að reyna að miðla málum.
Það hefur verið tregða í ríkisstjórnarnefnunni, á að styðja við flóttafólk sem vill komast á brott frá helför Ísraela.
Helför af öðru tagi en því, sem við munum frá seinni heimstyrjöldinni og er, ef eitthvað er, sýnu verri og viðbjóðslegri en sú sem þá var.
Þá voru það gyðingar sem urðu fyrir ofsóknum sturlaðra manna sem vildu útrýma þeim.
Á endanum tókst að stöðva þann óhugnað, sigra nasista og stöðva helförina - þar áttu Rússar stóran hlut að máli - en nú eru það afkomendur þeirra sem ofsóttir voru þá, sem sprengja fólk í tætlur og drápin bitna jafnt á konum, börnum og körlum, svo samjöfnuðurinn er óhugnanlega sambærilegur.
Nema að það er ef til vill ,,hreinlegra" að drepa fólk með markvissum hætti í þar til gerðum aftökustöðvum en að kasta á það sprengjum, sem ýmist deyða eða limlesta.
Þau sem sleppa lifandi eru löskuð bæði á líkama og sál og oftast hvort tveggja.
Enginn sendiherra hefur verið sendur til síns heima vegna þessa af íslenskri ríkisstjórn og enginn á von á að það verði gert, því undirlægjuhátturinn gagnvart stórveldinu sem í raun rekur hernaðinn í Palestínu, er slíku að það kemur ekki til greina.
Skömmin er ómæld.
6.11.2024 | 09:23
Ríkið styrkir fjölmiðla
Við munum þá tíma þegar fjölmiðlar voru í fjárhagslegu basli og þurftu að hafa allar klær úti til að geta haldið sér á floti.
Nú er komin önnur tíð með blóm í haga og menn þurfa ekki að hafa eins mikið fyrir því að afla sér tekna til að geta t.d. borgað starfsfólki, þó ekki sé nema einhver laun.
Launin voru ekki alltaf greidd áður fyrr samkvæmt taxta og það gat orðið bið eftir greiðslum og því var lifað sparlega og reynt að fara vel með.
Oft var um að ræða hugsjónastarf, sem menn fórnuðu sér og sýnum fyrir og kröfurnar sem gerðar voru, fólust fyrst og fremst í því að koma t.d. ,,blaðinu út, fá sem flesta áskrifendur og helst eitthvað af auglýsingum og síðast en ekki síst styrki frá vildarvinum.
Allt þetta þurfti að rukka inn og það var barist í bökkum en fólk lagði mikið á sig til að geta komið t.d. málgagninu út.
Nú eru aðrir tímar með blóm í haga og í Viðskiptablaðinu er frétt sem vakið hefur athygli ritara.
Þar er þann 5. nóvember 2024 sagt frá því að úthlutað hafi verið styrkjum til fjölmiðla samtals að upphæð um 550 milljónum króna.
Sagt er frá því, að úthlutað hafi verið tæplega 551 milljón, eða eins og segir í inngangi fréttarinnar:
Til úthlutunar voru 557,2 milljónir kr. að frádregnum kostnaði vegna umsýslu, sérfræðiaðstoðar, auglýsinga, þóknunar fyrir störf úthlutunarnefndar o.fl. sem var um 1,1% af heildarfjárhæð eða 6.298.068 kr.
Til úthlutunar voru því 550.901.932 kr. Hér verður einungis getið þeirra sem fengu hæstu styrkina en í frétt miðilsins, sem hægt er að nálgast á tenglinum hér að ofan er taflan öll eins og hún birtist í blaðinu. Þeir sem hæstu styrkina fá samkvæmt fréttinni eru: Árvakur og Sýn með styrki á annað hundrað milljónir og síðan koma: Bændatorgið, Fjölmiðlatorgið, Fröken ehf., Myllusetur ehf., Sameinaða útgáfufélagið ehf., Skessuhorn, Sólartún og Víkurfréttir með á annan tug milljóna.
Aðrir fá minna samkvæmt fréttinni og ef rétt er talið bætast 17 aðilar við sem fá styrki sem eru innan við tug milljóna.
Samfélagið hefur sannarlega breyst frá því sem áður var og þetta er aðeins eitt dæmi um það en hvort rétt er gefið á þessa jötu, er ritari ekki fær um að dæma.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)