8.10.2025 | 08:40
Forseti í vanda
Macron forseti Frakklands á ekki sjö dagana sæla og eftir að hafa verið til umræðu vegna ýmissa mála, annarra en þeirra sem frönsk eru, er svo komið að að karlinn er kominn í vanda og frá því er sagt m.a. í The Guardian.
Hann var endurkjörinn í apríl 2022 til fimm ára, en frá skyndikosningum, sem haldnar voru árið 2024, hafa skipaðir forsætisráðherrar hans ekki getað kallað saman þingmeirihluta til að samþykkja fjárlög.
Það er von að karlinn sé dapur og hugsandi á myndinni sem fylgir grein The Guardian en hvort honum er vorkunn er hreint ekki víst.
Greinin sem vísað er til er vel þess virði að lesa hana en að sinni verður ekki kafað dýpra á þessum vettvangi í hana.
Í forystugrein Morgunblaðsins er fjallað um neyðina sem blasir við Frökkum og hún kölluð ,,Macron".
Í blaðinu er Ferdinand að venju og hann hefur hugsun á að setja á sig björgunarhring áður en hann leggur í vafasaman leiðangur.
Punkturinn yfir i- ið er svo mynd úr sama blaði sem fellur ágætlega inn í þessa umræðu:
Kostirnir eru tveir og hvorugur góður að mati Macrons, að því er gera má ráð fyrir en hans er valið!
1.10.2025 | 08:29
Kjarnorkuslys?
Það berast fréttir af því að það standi tæpt að kæla kjarnorkuverið í Zaproitsya og Grossy hefur áhyggjur sem vonlegt er. Frá þessu er sagt í The Guardian og upp rifjast slagurinn við kælingu versins áður fyrr, vegna árása sem ábyrgðarlausir aðilar á vegum Úkraínu- ,,stjórnar" stóðu að.
Frásögninni í The Guardian fylgir mynd af rússneskum hermanni sem stendur vörð við verið en ljóst má vera að ef kæling þess stöðvast, þá fer illa.
Við munum frá fyrri tíð, að eftirlitsaðilar frá Sameinuðu þjóðunum fóru á vettvang til að sjá með eigin augum hvað um væri að vera, en á þeim tíma stóð slagurinn um hvort hægt væri að halda verinu tengdu við raforkukerfið.
Það stóð glöggt og fulltrúarnir urðu vitni að því hve ábyrgðarlausir þeir voru sem gerðu sprengjuárásir á steinsteyptan skjöld versins.
Kjarnorkuver þurfa að losna við orkuna sem þau framleiða til að þau ofhitni ekki en það getur haft skelfilegar afleiðingar ef þau gera það.
Nú er sem sagt staðan sú, að Úkraínum hefur tekist að halda verinu frá raforkukerfinu og því er það, að treyst er á dísilrafstöðvar til að halda því í þeirri stöðu að það hitni ekki um of.
Við erum nokkur sem munum eftir því hve tæpt það stóð að ekki yrðu stórslys á Þriggja mílna eyju í Bandaríkjunum og í Fúkusima í Japan, að ógleymdu Chernobil, sem vel að merkja er í Úkraínu.
Í því síðastnefnda voru það mannleg mistök sem slysinu ollu en núna er það mannlegur ásetningur sem veldur.
Díselrafstöðvar þurfa viðhald og staðan sú að ein af tíu rafstöðvum er í viðhaldsferli og síðan kemur væntanlega að þeirri næstu og síðan koll af kolli.
Hvort úkraínsk yfirvöld koma til með að sjá til sólar áður en illa fer er alls ekki víst og satt að segja frekar ólíklegt.
Þeir sáu það eftirlitsmennirnir á sínum tíma og staðan hefur lítið breyst síðan þá.