Oft ratast...

Órólega deildin í Framsóknarflokknum klauf sig út úr flokknum eins og við munum, stikaði frá Háskólabíói yfir á Hótel Sögu, lagðist undir sæng og stofnaði í framhaldinu nýjan flokk sem fékk var nafnið Miðflokkur.

Miðflokkurinn er smáflokkur sem minnkaði enn, þegar í ljós kom eftir ,,Borgarneskosningarnar“ að einn þeirra sem boðið höfðu sig fram í nafni flokksins, hafði gert það undir fölsku flaggi, kastaði af sér miðflokkshempunni og gekk hið snarasta í Sjálfstæðisflokkinn.

Þar var honum vel tekið, því litlu verður vöggur feginn og allt er hey í harðindum, eins og þar stendur.

2023-12-07Því er það, að þegar þingmaður Miðflokksins segir eitthvað vera í hægagangi þá er rétt að leggja við hlustir og sperra eyrun, því eins og við vitum, þá er ekki farið með fleipur á þeim bæ!

Nú stígur fram einn þeirra sem eftir sitja í flokknum, ber sér á brjóst og lýsir alkunnum staðreyndum svo sem sjá má.

Tilefnið er orkuöflun fyrir sístækkandi þjóðfélag á landinu okkar bláa og það þarf svo sannarlega ekki mann frá miðju til að segja okkur frá því hvernig staðan er varðandi þau mál.

Við erum nokkur sem munum gerð virkjananna í Þjórsá, Blönduvirkjun og Kröflu sem byggð var á umbrotatíma í jarðsögulegu tilliti; tíma sem ekki var svo ólíkur því sem er núna á Reykjanesi.

Þá voru það tveir pólitískir andstæðingar, Jón Sólnes og Ragnar Arnalds, ef rétt er munað, sem tóku saman höndum og stóðu saman í því að reyna að koma virkjuninni áfram þannig að hún yrði að veruleika.

Fræg urðu og ógleymanleg svör Jóns, þegar hann var spurður þeirrar spurningar hvernig honum litist á stöðuna með gjósandi jarðsprungur í næsta nágrenni við virkjanasvæðið.

Svarið varð eitthvað á þessa leið: ,,Ætli við ,,kröflum” okkur ekki fram úr þessu?

Það gerðu þeir síðan félagarnir og aðrir sem að verkinu unnu og virkjunin varð að veruleika.

Menn áttuðu sig á því að þjóðin þurfti orku til að komast af og að það þurfti að gera fleira en að veiða fisk, rækta kindur, kýr og hesta og við vorum reyndar komin dálítið lengra en það.

Komið var álver í Straumsvík sem starfrækt hefur verið um áratugaskeið, sömuleiðis sementsverksmiðju o.s.frv. en það þurfti fleira til að styrkja og bæta íslenskt samfélag.

Þetta sáu menn þá, en sjá sumir ekki nú og því er þras og bras, að koma nýjum virkjunum frá því að vera hugmyndir og yfir til þess að verða að veruleika.

Þó búið sé að vinna alla undirbúningsvinnu, þá dugar það ekki til, því nóg er til af fólki sem telur að hægt sé að lifa í landinu okkar gjöfula og góða, án þess að lifa af því!

Vel getur svo sem verið að það sé hægt, en svo hefur ekki verið frá því að það byggðist og ef fundin er leið til að lifa í landinu án þess að ,,lifa af því” á nokkurn hátt þá þarf að útskýra það betur fyrir okkur hinum sem teljum að rétt sé að nýta auðlindir landsins, auðlindir sem annars ýmist rynnu ónýttar til sjávar, eða puðruðust upp í loftið engum til gagns og fáum til ánægju.

Vissulega eru til verðmæti sem við viljum ekki fórna fyrir nokkurn mun.

Engum dettur t.d. í hug að virkja hverasvæðið við Geysi sem vakið hefur hrifningu og aðdáun um aldir og mun vonandi gera það áfram. Við byggjum ekki heldur stóriðjuver á Þingvöllum!

Við gætum hins vegar virkjað neðri hluta Þjórsár og Héraðsvötn og fleira og fleira, því við búum í landi tækifæranna þegar glöggt er skoðað.

Hvort niðurstaðan verður sú að við sjáum það eitt framtíðarverkefni, að selja ferðamönnum aðgang að landinu okkar, kemur tíminn til með að leiða í ljós, en hætt er við að víða verði margt orðið niðurtroðið, útsparkað og breytt að lokum, verði farin sú leið og ekki síst ef haft er í huga, að ekki virðist mega bæta aðstöðu á ferðamannastöðum s.s. dæmi eru um t.d. við Landmannalaugar og víðar.

Það einkennilega er, að það hefur náðst fram að bæta aðstöðu á Þingvöllum og við Gullfoss og í Kerlingarfjöllum og ef til vill víðar án þess að einkavinir umhverfisins færu mikinn.

Einhvern veginn hefur þeim tekist að horfa fram hjá þeim lagfæringum, en hvað það var sem olli því að eftirtektin var bæði sljó og döpur gagnvart þeim athöfnum er óupplýst, en gefur okkur von um að hægt sé að lifa af og í landinu, án þess að allt fari í niðurníðslu.

Að stjórnmálaaflið sem nefnt í upphafi þessa pistils nái raunverulegum pólitískum áttum er hins vegar lítil von til, en um það gildir hið fornkveðna ,,að oft ratast... o.s.frv. og ætli við verðum ekki að sætta okkur við það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband