Traust

Það mun vera betra fyrir stjórnmálamenn að þeir njóti trausts.

Í umfjöllun Heimildarinnar er fjallað um traust fjármála- og utanríkisráðherra og síðan, utanríkis- og fjármálaráðherra og í ljós kemur ýmislegt sem áhugasamir geta kynnt sér, ef þeir nota sér tengilinn.

Skoðanakannanir af því tagi sem þar er vitnað er til, eru að mati ritara vísbendingar um viðhorf, en ekki naglfastar staðreyndir og því verður lítið lagt út af því sem þar kom í ljós en eins og fyrr sagði, er um að ræða vísbendingar.

Skjámynd 2023-10-15 085530Ríkisstjórnin sem við búum við núna er um margt sérstök og æði mörgum finnst sem engin leið sé að átta sig á því hvert hún er að fara eða koma.

Forsætisráðherrann kemur úr flokki draumóranna, væntinganna og trúboðsins. Þar er einnig stjórnmálaflokksfurða sem virðist ekkert vita um hvert hann stefnir, hvaðan hann kom, né hvar hann var; trúir jafnvel á ævintýri úr gömlum strákabókum ef ekki vill betur.

Það skal reyndar tekið fram að ævintýri af því tagi sem innviðurinn í ríkisstjórninni ætlar að bjóða Vestmanneyingum uppá og okkur hinum líka, hefur ekki verið í boði í slíkum bókum svo munað sé, ef frá er talin sagan um ferð að miðju Jarðar sem átti sér upphaf á Snæfellsjökli.

Það var ævintýri og ágætt sem slíkt, en Vestmannaeyingar vilja trúlega eitthvað naglfastara. Þeir búa núna við yfirvofandi vatnskort, rafmagnsskort og ljósleiðarasamband, einkum ef stjórnendur togara fara að gera það að venju, að reyna að fiska með akkerum skipanna!

Til upprifjunar skal sagt frá því, að innviðaráðherrann var að undirrita eitthvert plagg um samstarf við mann nokkurn í Ameríku, sem telur sig hafa fundið upp apparat sem getur étið sig í gegnum holt og hóla, fjöll og hafsbotna, bara ef hann fær rafmagn.

Maðurinn veðjaði að sjálfsögu á ,,bara" flokkinn, til að breyta draumnum í veruleika og við sjáum til hvað setur.

Ljónið í veginum er, að til að hrinda þessu í framkvæmd þarf rafmagn og það þarf að vera í boði og þar gæti staðið hnífurinn í þessari framsóknar- og draumakú. 

Ef Sjálfstæðisflokkurinn er ys- ið, framsóknarflokkurinn þysið, þá hlýtur svo að vera að Vinstri græn séu ekkert- ið (engu) í ríkisstjórninni. Ríkisstjórn sem snýst ekki um annað en að sitja og sem er sem betur fer hugmyndalítil að margra mati, þrátt fyrir það sem að framan sagði!

Undantekningin er þó sú að innviðaráðherrann er fullur af hugmyndum. 

Af þeim þurfa menn ekki að hafa áhyggjur því nær öruggt er að þær eru líklegastar til að vera bara hugmyndir áfram og þó svo sé, er þó kosturinn sá, að  þeir sem ekkert gera, gera ekkert illt af sér á meðan!

Sumir eru bestir þegar þeir láta lítið fara fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Fyrir nokkrum misserum var ákveðið að skipa starfshóp sem átti að leita leiða til að efla traust til stjórnmálafólks.

Að einhverjum skuli hafa fundist það vera góð hugmynd er kannski vísbending um hvers vegna traustið er svo lítið sem raun ber vitni.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.12.2023 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband