Girðingaviðhald hins opinbera.

Á Facebook- síðunni ,,Áhugafólk um landgræðslu" veltir fólk því fyrir sér hvort það sé hlutverk hins opinbera að annast viðhald girðinga sem komið hefur verið upp vegna sauðfjárhalds, þ.e. girðingar vegna svokallaðra varnarhólfa.

Varnarhólfum þessum var komið upp vegna sauðfjársjúkdóma sem herjuðu á greinina aðallega (riðu og garnaveiki) og var komið upp til að tryggja svo sem unnt væri að ekki væri samgangur milli ,,sýktra" svæða og ,,hreinna".

Á þeim tímum þegar þessum varnarhólfum var komið upp, var litið svo á að kindakjöt væri ómissandi á matborðum landsmanna og flest munum við sem eldri erum eftir því að lambakjöt í ýmsum útfærslum var aðalkjötmetið á móti fiski, þar sem ýsa var algengust.

En nú er öldin önnur.  

2020-04-27 (9)Nú er staðan sú að almennir neytendur hafa aðgang að ýmsum öðrum búfjárafurðum líkt og gerist meðal annarra þjóða og þó mest sé framleitt af kindakjöti, þá hefur það ekkert með neysluna að gera. Framleiðslan er mest en salan ekki og afgangurinn er fluttur út með kostnaðarsömu brambolti af hálfu ríkisins í gegnum milliliði og kunnastur mun vera Icelandic Lamb sem lætur sig ekki muna um að selja afurðina undir kjörorðinu ,,Roaming free since 874", sem er vitanlega vafasamt að hæla sér af ef satt væri. Eitthvað hefur mönnum brugðist bogalistin í útreikningum, því ekki munu vera nema um tvær til þrjár aldir síðan slíkir búskaparhættir voru teknir upp.

Vegna þessa er skiljanlegt að fólk sem áhuga hefur á uppgræðslu lands, velti því fyrir sér, hvort eðlilegt sé að aflafé ríkissjóðs sé notað til þess að halda við varnarhólfum vegna framleiðslu matvara sem eru að einum þriðja eru flutt út á kjötmarkaði annarra landa með meðlagi frá  skattgreiðendum. En afgangurinn síðan seldur til innanlandsneyslu með meðgjöf frá ríkissjóði, eigi einnig að standa undir rekstri og viðhaldi varnarhólfa af því tagi sem fyrr voru nefnd.

Hafa má í huga að varnarhólf af þessu tagi væru með öllu óþörf ef búgreinin yrði færð inn í nútímann - eða fortíðina ef mönnum líkar betur að hugsa það þannig -, og sauðfjárbændum yrði gert skylt að gæta síns fjár og halda því innan girðinga, annað hvort í eigin heimalöndum, eða innan girðinga í þeim löndum sem þeir hefðu t.d. á leigu frá öðrum.

Sauðfjárbeit á örfoka hálendi er óþörf og ástæðulaus, skaðleg fyrir gróðurleifar landsins, en líka frekar hæpin meðferð á skepnum sem aldar eru til að skila afurðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband