Að byrgja brunninn.

Það eru líklega að verða 20 ár síðan Búnaðarsamband Suðurlands bauð út kaup á vararafstöðvum.

Það var áður en búið var að leggja þriggja fasa rafmagn þar sem undirritaður býr og hafði verið notast við einfasa rafmagn frá samveitunni og vararafstöð sem einnig var einfasa.

Upp kom sú staða að við þurftum að hafa aðgang að þriggja fasa rafmagni og niðurstaðan varð sú að keypt yrði rafstöð.

Við fréttum af því að Búnaðarsambandið hefði fengið hagstætt tilboð í slíkar stöðvar og að samstæðan væri Cummins dieselmótor og Siemens rafali, sem sett væri saman í Kína. Hvort tveggja viðurkennd og talin traust vörumerki.

Niðurstaðan varð að keypt var rafstöð af tilboðsgjafanum, en sá hafði flutt inn nokkurn fjölda af þessum stöðvum og af ýmsum stærðum. Hefur eflaust talið sig hafa komist í feitt, að hafa fengið þessi viðskipti og eitthvað var um að sunnlenskir bændur keyptu sér búnað af þessu tagi.

Eftir nokkrar gangsetningar og fast að því jafn margar bilanir, og eftir að hafa komist að því að dieselmótor af þeirri gerð sem knúði rafalann fannst ekki hjá Cummins og að rafallinn reyndist ekki vera Siemens og spennustýringin farin til feðra sinna, var búnaðinum skilað. 

Og það sem meira var, að það tókst að fá búnaðinn endurgreiddan, með tregðu.

Ég hafði samband við gamlan skólabróður minn úr Vélskóla Íslands sem á þessum árum var m.a. í innflutningi á rafstöðvum. Hann hafði haft hug á að bjóða vélar í útboðið og hafði haft samband við Búnaðarsambandið í þeim tilgangi að fá upplýsingar um hvers væri krafist af þeim rafstöðvum sem óskað var eftir.

Svörin voru að þær þyrftu að framleiða rafmagn og ganga fyrir dieselolíu. Ekkert annað var þar að hafa, enda munu menn þar á bæ hafa haft þekkingu á ýmsu öðru betur, en því sem þeir voru þarna að óska eftir fyrir umbjóðendur sína.

Vonandi hafa þær stöðvar sem sunnlenskir bændur keyptu, farið í gang og framleitt rafmagn, þ.e.a.s. ef einhverstíma hefur reynt á getu þeirra til þess.

Best væri samt að þeir sem þær eiga, könnuðu af og til hvort þær eru til einhvers gagns, því vont er að búa við falskt öryggi. 

Það er best að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann og betra að gera það með einhverju betra en fúasprekum sem vart standa undir sjálfum sér.


mbl.is Undirbúa kaup á fjölda vararafstöðva
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband