Sagan endalausa - upprifjun á grein

Erna Bjarnadóttir hagfræðingur, var að rifja upp þessa ágætu grein sem hún skrifaði í Morgunblaðið 2014.

Rétt er að hafa í huga að það er ári áður en núverandi formaður Framsóknarflokksins samdi við Evrópusambandið um enn meiri og opnari innflutning á svína, nauta og alifuglakjöti.

Það gerði hann augljóslega í von um að markaður opnaðist fyrir kindakjöt til Evrópulandanna. Það reyndist vera alrangt mat, svo vægt sé tekið til orða.

Óhætt mun að álykta að Bændasamtökin hafi á þessum tíma áttað sig á því hve mat landbúnaðarráðherrans, sem var í samningabröltinu 2015 og ef til vill fyrr, var rangt.

Þáverandi stjórn Bændasamtakanna hefur trúlega séð það sem ráðherrann sá ekki, þ.e.a.s. það sem er búið að verða þjóðinni og landbúnaðinum dýrt, en kom ekki að fullu fram fyrr en ferðamannastraumurinn skrapp saman eftir COVIT-19.

Greininni lauk Erna, sem á þessum tíma var aðstoðarframkvæmdastjóri Bændasamtakanna, á eftirfarandi hátt og sem hér er fyrir neðan innan tilvitnunarmerkja.:

,,Fyrstu 9 mánuði ársins 2014 voru flutt inn 490 tonn af svínakjöti (áður en umreiknað er í heila skrokka). Í september einum, sem var síðasti mánuðurinn á tímabilinu þar sem veittir voru opnir tollkvótar fyrir svínasíður, voru flutt inn 148 tonn sem lét nærri að vera 57% af mánaðarsölu á innlendu kjöti umreiknað í heila skrokka. Engin búgrein hvorki svínakjötsframleiðsla né önnur kjöt- eða búvöruframleiðsla mun vaxa og dafna við slíkar aðstæður heldur mun smám saman grafa undan henni, framboð minnka og í kjölfarið verða opnað fyrir enn meiri opna tollkvóta. Hér þarf því að sporna við ef ekki á illa að fara. Það er verkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra að nýta þessa skýrslu til að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til að standa vörð um framtíð íslensks landbúnaðar þannig að þegar verði snúið frá hnignun til nýrrar sóknar."


Bloggfærslur 3. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband