Óskalistinn

Vinstri-græn eiga sér óskalista, óskalista sem tekur flestum slíkum listum fram, ekki að gæðum, ekki að raunsæi, ekki að þörf, nei, flestar óskir þeirra byggjast á óraunsæi og kreddum. Nú koma þau fram með óskina um að afnumin verði verðtrygging á lánum og hver vildi svo sem ekki vera laus við þann óskapnað, en stöldrum aðeins við.

Fyrir ekki svo margt löngu var ekki um slíka verðtryggingu á lánum að  ræða og þá voru gósentímar fyrir íslenska lántaka. Lánin nánast gufuðu upp, skuldirnar hurfu á undraverðan hátt og allir undu glaðir við sitt, eða hvað? Reyndar ekki, því ekki var nóg með að skuldir hyrfu, heldur gerði lánsféð það líka og svo fór að ekki var um það að ræða að fá lán í hinum gömlu ríkisreknu bönkum, nema:

Já, nema hvað? Það sem til þurfti númer eitt, var rétt sambönd af einhverju tagi; þekkja þennan og þekkja hinn og gleyma því aldrei að biðja um að minnsta kosti tvöfalt hærra lán en ætlunin var að taka og þörf var fyrir. Þetta er það ástand sem VG-ingar vilja fá aftur, því ekki vilja þau byggja upp þjóðfélag þar sem ríkir stöðugt verðlag, né hafa þau áhuga á að á milli almennings og stjórnvalda ríki traust af því tagi sem byggt getur upp hagkerfi sem gæti staðið undir afnámi verðtryggingar.

Að þau skuli vilja halda í íslenskt hagkerfi með sjálfstæðum gjaldmiðli sannar það, því löngu er fullreynt að það gengur ekki upp til annars en þess að eiga möguleikann á að ræna þjóðfélagshópa til og frá eftir þörfum. Hið rétta eðli VG- inga sést einkar vel t.d. af því hvernig Jón landbúnaðar vill koma því svo fyrir að bændur verði hnepptir í ánauð vistabandsins með því að hindra þá í að selja jarðir sínar. Flokkur með óraunsæispólitík að leiðarljósi er ekki það sem þjóðin þarf á að halda nú um stundir og landbúnaðarráðherra sem virðist hafa fæðst a.m.k. einni öld of seint er ekki það sem við bændur þurfum núna.


mbl.is Flokksráð VG vill afnám verðtryggingar sem fyrst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband