Ár hanans?

  Á Íslandi er ár hanans. Ár hins hrokafulla monthana, hanans sem hreykti sér efst á haugnum og lét mikið fyrir sér fara. Hanans sem galaði yfir hirð sinni og ætlaðist til að eftir sér væri tekið, að hópurinn líti upp til hans og lyti honum af lotningu.

  Hann stóð á haugnum, rótaði í honum og sletturnar gengu í allar áttir, jafnt á gamla fylgispaka og innvígða, sem hina sem hópnum þykir og hefur alltaf þótt sjálfsagt að ata auri. Það kom þeim því mjög á óvart þegar slettunum var beinlínis beint að þeim, því hinum hrokafulla monthana sást ekki yfir hið augljósa; að þau höfðu ekki gert neitt af viti. Líklega var ekkert gert af viti í því haughúsi sem þau voru stödd í og því var það að gamli yfirhaninn hafði rétt fyrir sér: að það sé með öllu ástæðulaust að höggva skóg í pappír til að skrifa hugrenningar þeirra á.

  Alveg jafnt og það sem gamli foringjahaninn hafði fram að færa, þá er það allt einskis virði, þau voru aðeins komin þarna saman til að gala, baða út vængjunum og róta þegar til var ætlast. Allt var þetta eitt sjónarspil, ekki var gert ráð fyrir að neitt kæmi út úr samkomunni annað en það sem áður hafði verið ákveðið við sömu kringumstæður. Allt skal vera óbreitt, það hefur gefist svo vel, þeirra heimur er besti heimur allra heima og því er alls ekki ástæða til að hrófla við neinu. Því að vera að því þegar allt er svona gott, eða hefur einhver yfir einhverju að kvarta?

  Nei, svo er ekki og þó, það var nefnilega ekki hlustað á hinn virðulega aurslettuhana, að hans áliti og því var hann óvenju fúll og sletturnar fóru vaxandi. Reyndar jukust þær svo mjög að það var farið að vera óþægilegt að vera of nálægt, hrokahaninn var úfinn og sletturnar bárust víða og margar fóru þær út úr haughúsinu og hittu fyrir þá sem síst skildi, því nú var hann allt í einu orðinn sá sem varaði við, sá sem enginn hafði hlustað á, haninn sem vildi þjóð sinni vel og át bara vínber, er önnur og ómerkari hænsn keyptu sér Audi.

  Já, hvað sagði hann ekki?

  Hm, það er nú málið: sagði hann eða sagði hann ekki, það er spurningin, en ekki sú sem svo mörg þeirra sem stödd voru í haughúsinu spyrja sig:

  Elskar hann mig eða elskar hann mig ekki?

  En aðalatriðið er samt það sama og alltaf hefur verið, að ata sem mestum auri, um það eru þau þó alveg viss um.

  Því, það sem hefur verið, verður áfram, ekki breyta, ekki breyta, ekki, ekki, ekki.......  


mbl.is „Hættið þessu helvítis væli"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband