Velferð, tollamál og búvörusamningar

 Fyrir bráðum þremur árum var kosin til valda ný ríkisstjórn undir forystu Framsóknarflokksins. Er menn höfðu skipt með sér verkum, varð niðurstaðan sú, að til að fara með málefni landbúnaðarins var valinn mætur maður af Suðurlandi, Dýralæknir að mennt og bjuggust margir við að þar með væri vel fyrir þeim málum séð.

Við ráðherranum nýja blöstu og blasa enn við mörg verkefni sem hæfa vel hans sérsviði; ýmsar reglugerðir voru búnar að vera í vinnslu og þá var einnig komið að endurnýjun búvörusamninga milli Ríkisins og Bændasamtaka Íslands.

Þessi verk hafa þokast fram á veg eitt af öðru og til dæmis var gefin út reglugerð um velferð alifugla snemma árs 2015. Beðið hafði verið eftir þessari reglugerð um nokkurn tíma, ýmislegt orðið til að tefja útgáfu hennar en svo fór að hún sá á endanum dagsins ljós. Reglugerðin var kynnt bændum á vordögum og er þeir höfðu flett í gegnum hana kom í ljós að um verulega framleiðsluskerðingu yrði að ræða frá því sem verið hafði eða um u.þ.b. 10%. Svona líkt og kúabóndinn þyrfti að fella tíundu hverja kú í fjósi sínu. Enginn aðlögunartími var nefndur og engar bætur voru tilgreindar til þeirra sem höfðu byggt upp sinn búskap m.v. ákveðnar forsendur. Forsendurnar sem með einu pennastriki voru að engu gerðar.

Að gera því skóna að bændur séu svo spenntir fyrir Lögbirtingi, Stjórnartíðindum, eða hvað þeir nú heita blöðungarnir sem fram streyma með allskyns upplýsingum úr ranni stjórnarheimilisins, er ef til vill sjálfsagt í augum þeirra sem þar iðja. Það er hins vegar svo að bændur hefa yfirleitt nóg annað til að dunda sér við en að lesa æsispennandi blöðunga af því tagi. Reglugerðin virkaði sem sagt sem afturvirk fyrir hinn almenna bónda, en það sem verra er, að hún svipti hann afkomunni sem hann hafði reiknað með að hafa af búskap sínum. Hvort þetta telst góður bragur á stjórnsýslu verður lesendum látið eftir að dæma.

Leið nú sumarið að mestu án áfalla úr þessari áttinni, eða þar til í september að reiðarslagið skall yfir og nú voru það ekki bara alifuglabændur sem keyrinu var sveiflað yfir, heldur rann það upp fyrir mönnum að líklega væri nær allur landbúnaður í landinu undir. Gerður hafði verið tollasamningur við ESB sem, þegar menn fóru að rýna í hann, gengur lengra en ESB aðildarsinnum hefði getað dreymt um í sínum villtustu órum.

Samningurinn gengur í grófum dráttum út á, að felldir eru niður tollar á kindakjöti inn til Evrópulendanna, en í staðinn falla niður tollar fyrir nauta, alifugla og svínakjöt auk osta, til Íslands. Undir þessu skildi síðan gengið til samninga um búvörur, og svo vitnað sé í ninn glaðbeitta landbúnaðarráðherra er hann kynnti samningana í fréttatíma RÚV: nú ættu allir að vera kátir!

En kátir með hvað? Flóð af ódýru afgangskjöti inn til landsins frá ESB? Verðfall á kjöti framleiddu á Íslandi þar sem allt aðrar reglur gilda um framleiðsluhætti t.d. eins og fyrrnefnd reglugerð tilgreinir varðandi hreinleika, lyfjanotkun og fleira.

Eiga nautgripabændur að kætast yfir að þurfa ekki að framleiða nautakjöt, svínabændur að þurfa ekki lengur að framleiða svínakjöt, alifuglabændur að vera lausir undan sínu streði og jafnvel gerast innflytjendur á kjöti frekar en að vera að framleiða það innanlands? Og hvað með sauðfjárbændur? Hvernig yrði staða þeirra við að koma sinni vöru inn á neytendur, þegar við blasti að landið yrði fullt af ódýru kjöti, sem yrði ámóta auðvelt að selja inn á yfirfullan Evrópumarkað og ætíð áður. Hugsanlega yrði þeirra framleiðsla, líkt og svo oft áður, afgangsstærð á þeim markaði, vara sem selja yrði á verulega lækkuðu verði til að möguleikiyrði á að lokka neytendur til viðskipta. Það vita allir sem vilja vita, að ekki vantar lambakjöt í ESB- löndum, síður en svo.

Undir þessum kringumstæðum er verið að ganga til samninga um búvörur með nær allt undir og allt í upplausn. Hertar reglugerðir sem krefjast milljarða fjárfestinga (1,3 til 2 milljarðar í kjúklingaræktinni, þar sem sá starfar sem þetta ritar), hve mikið það er í nautgriparæktinni og svínaræktinni er ritara ekki kunnugt en eflaust er þar ekki um minni upphæðir að ræða, trúlega mun hærri.

Búvörusamninga skal sem sagt gera þegar fullkomin óvissa ríkir um hvort nokkur grundvöllur er fyrir landbúnaði á íslandi. Þegar líklegt er að þeir sem haldið hafa því fram að landbúnað ætti ekki að stunda þar séu búnir að ná sínu fram. Búvörusamninga skal gera milli B.Í. og Ríkisins, þó svo sé um hnútana búið að stærstu kjötgreinarnar í landinu, það er alifugla og svínarækt, eigi enga fulltrúa í þeim viðræðum, sjái hag sínum illa borgið og viti satt að segja lítið um það hvar þeir standa varðandi framtíð sinna greina.

Samskiptin við samninganefnd Ríkisins hafa reyndar verið eftir þessu. Fundir hafa verið boðaðir og þeim hefur verið frestað, og að lokum aflýst með skilaboðum um að viðkomandi, þ.e. kjúklingabændur, séu og komi til með að verða, svo vel varðir af tollmúrum (svo!) að þeir þurfi ekki að hafa áhyggjur af framtíðinni. Líkast til er það líka svo þegar betur er að gáð, að framleiðsluskerðingin og kostnaðurinn sem af henni hlýst, sé þeim bara til hagsbóta að öllu athuguðu. Ekki þurfi að bæta tjón sem þeir verði fyrir með hinni nýju reglugerð og að engu skipti þó aðrar þjóðir hafi komist að annarri niðurstöðu. Þar mun væntanlega vera um hugsanaskekkju að ræða.

Trúi þeir sem trúa vilja. Við hin sjáum til hvað setur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband