Flugvallarmálið

Umræða sú er fram hefur farið að undanförnu um flugvöllinn í Vatnsmýrinni í Reykjavík hefur komið mér í skilning um eftirfarandi:

Vegna þess að ég kaus þann kost til búsetu að búa ,,úti á landi", utan höfuðborgarsvæðisins, þá á ég skýlausan rétt á því að í Reykjavík sé flugvöllur á bæjarhlaði stærsta spítala landsins, jafnframt skal honum svo fyrirkomið að hann kljúfi borgina sem mest í tvennt.

Best væri að flugbraut væri komið fyrir meðfram Tjörninni austanverðri frá núverandi velli og að braut sú endaði í flughlaði og rampi sem lægi inn í Hörpu, þá væru slegnar tvær flugur í einu höggi: Þau sem lasburða væru, færu úr vélinni á stoppistöð við spítalann, en hin sem hress væru héldu áfram og fengju sér andlega og líkamlega hressingu í tónlistarhúsinu víðfræga.

Ef ég fengi nú einhverja slæmsku sem ég reiknaði ekki með þegar ég ákvað að setjast að í dreifbýlinu þá verður skilyrðislaust að byggja upp fullgildan flugvöll sem næst mér, hvar sem ég yrði staddur, undir slíkum kringumstæðum.

Auk þess verður að vera í næsta nágrenni við mig, alltaf og örugglega, fullbúið hátæknisjúkrahús með skurðstofuvakt allan sólarhringinn ásamt fæðingardeild, ef svo illa tækist til að ég yrði ófrískur og næði því að ganga með allan meðgöngutímann. Lukkaðist mér það ekki þyrfti eigi að síður að vera í næsta nágrenni við mig slík deild til að taka á móti fyrirburði.

Vegna þessa skora ég á ríkisstjórn Íslands, forseta vorn, pottberjendur og allt annað gott fólk að safnast saman sem fyrst á Tjarnarbakkanum í Reykjavík til að koma málstað mínum sem mest og  best á framfæri og hætta hvergi fyrr en máefnið er komið farsællega í höfn og helst þannig að ,,dreifbýlið" allt verði orðið að höfuðborg og Reykjavík verði ,,úti á landi".


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband