Lumar Framsókn á nýjum S-hóp?

Ritari gerir ráð fyrir að þeir sem þetta lesa og einnig hinir sem ekki lesa blogg (svo vitnað sé í yfirlýsingu Sighvats Björgvinssonar), muni eftir kosningaherferð sem Framsóknarflokkurinn stóð á sínum tíma fyrir.  Áróðurinn gekk út á að stilla ungmenninu á heimilinu upp sem einhverskonar óværu sem losna þyrfti við sem allra, allra fyrst.

Til að það gæti gengið fram, kunni Framsókn ráð. Nefnilega að láni unglingnum fyrir nýrri íbúð sem hann gæti sem snarast flutt inn í og þar með væri óæskileg nærvera hans ekki lengur til staðar á hinu fyrra heimili.

Vitanlega var það ekki svo að það væri Framsóknarflokkurinn sem slíkur, sem bjó yfir svo digrum sjóðum að hann gæti af eigin rammleik  fjármagnað ævintýrið. Til að svo gæti verið, hefði Samvinnuhreyfingin þurft að standa sig mun betur í framlögum til hins pólitíska útibús, enda gengu hugmyndir flokksins að sjálfsögðu út á það að fjármagn til þessa stórhuga verkefnis kæmu annars staðar frá, þ.e. af skattfé íslensku þjóðarinnar. Nú liggur ljóst fyrir hvað framsóknarhagfræðin hefur afrekað, a.m.k. hvað Íbúðalánasjóð varðar: Hann er gjaldþrota og er þá líkt á komið fyrir honum og íslensku þjóðinni sem framsóknar- sjálfstæðisstefnan leiddi í þrot.

Það hefur lengst af verið skoðun Framsóknarmanna að ríkissjóður væri einhverskonar peningauppspretta sem seint eða aldrei þryti og væri til þess eins ætluð, að ýmis gæluverkefni  sprottin úr ranni framsóknar mættu ná fram að ganga.

Margvíslegar framsóknarlegar hugrenningar og óskhyggjufantasíur mætti til taka, en til að ekki sé nú einungis bent á delluhugmyndir sem gengið hafa út á að ausa fjármunum úr galtómum ríkissjóði, þá skal hér til sögunnar tekin herferðin um vímuefnalaust Ísland árið 2000, ef rétt er munað. Landbúnaðarstefnuleysið er svo dæmi um hugmynd sem kostað hefur þjóðina ómælda fjármuni, svo ekki sé nú minnst á hve skaðleg hún hefur verið landinu með ofbeit og uppfoki.

Að stjórnmálaflokkur geti talið sér það til afreka  að hafa náð betri árangri með stefnu, eða stefnuleysi sínu, en öll eldfjöll og jökulhlaup sem yfir hafa gengið í aldanna rás, hlýtur að teljast til stórkostlegra afreka. Það er að segja, ef markmiðið var að valda sem mestu tjóni.

Þannig er það vitanlega ekki. Markmið Framsóknarflokksins var vitanlega ekki að valda sem mestu tjóni, heldur hið gagnstæða. Það er hin makalausa þversögn. Þeir trúðu alltaf og trúa eflaust enn, að  ,,stefnan“ sem þeir halda á lofti, sé vænleg til árangurs og eru allra manna síðastir til að viðurkenna að hugsanlega sé nú ef til vill eitthvað athugavert við fyrirbrigðið.

20% niðurfelling lána. Kannast einhver við það?  Framsóknarmenn eru enn að reyna að halda því fram að slæmt hafi nú verið að ekki hafi verið farin sú ,,leið“. Hvernig hana ætti að fara hefur hins vegar verið afar óljóst, svo ekki sé meira sagt og sem betur fer hefur engum ábyrgum stjórnmálamönnum dottið í hug að flana út á þá braut.

Núverandi formaður Framsóknarflokksins virðist eiga sér þá köllun helsta að troða sér í þingsæti á kostnað þingmanns flokksins í Norðaustur kjördæmi. Hann veit sem er, að afar ólíklegt er að framboð hans í Reykjavík yrði annað en pólitískt feigðarflan, sem yrði honum og flokknum til hneisu, en um leið þjóðinni til hagsbóta; fæli það í sér, að einum þeim þingmanni, sem ekkert hefur til málanna að leggja, yrði færra á Alþingi.    

Á sínum tíma þótti  Framsókn það mikið bjargræði að ,,selja“ Lánasjóð landbúnaðarins. Ætli ekki megi búast við því að fram komi tillaga frá þeim um að nú skuli Íbúðalánasjóður ,,seldur“. Hverjir líklegir kaupendur gætu verið er hins vegar algjörlega óljóst.

Ekki er líklegt að þeim takist að vekja upp nýjan ,,S-hóp“.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband