Gjafir verða gefnar

Senn líður að kosningum og loforðalistar flokkanna birtast einn af öðrum. Einna mesta athygli vekur sá sem kemur frá Framsóknarflokknum. Flokkurinn er kominn með nýjan formann og varaformann og því mátti gera ráð fyrir að nýjar áherslur litu dagsins ljós.

Númer eitt á listanum er að nú á að bæta hag millistéttarinnar og það á að gera með því að hækka neðra skattþrepið og endurskoða vaxtastefnuna. 

Framsóknarmenn eru sem sé búnir að reka augun í að millistéttin hefur það frekar skítt og það á nú laga, en hvað gert verður fyrir fólkið sem hangir á sultarlaunum fyrir neðan millistéttina er ekki nefnt.

Flokkurinn hefur veitt því athygli að á Íslandi er okurvaxtakerfi. Það á að laga á næstu fjórum árum, væntanlega vegna þess að ekki vannst tími til að gera neitt í því máli á þeim þremur og hálfu ári sem flokkurinn er búinn að vera í ríkisstjórn.

Lágmarkslífeyri á nú að hækka í krónur 300000, sem teljast verður meiri háttar framför m.v. hvernig viðskilnaður flokksins er í þeim efnum. Vonandi verða efndirnar ekki eins og í ,,leiðréttingunni" margfrægu. Þ.e.a.s. leiktjöld til að fela innihald sem ekkert reynist vera þegar að er gáð.

Næsta atriði á loforðalistanum er einkar athyglisvert, þ.e. að hætt skal við byggingu Landspítalans þar til fundinn er nýr staður fyrir hann utan borgarmarkanna - enda fá framsóknaratkvæði innan þeirra ef að líkum lætur. Hanna á nýjan spítala á nýjum stað og byggja síðan einhvertíma í framtíðinni þegar menn eru í góðu stuði til þess. Þangað til skal notast við það sem fyrir er, þó allt of lítið og lélegt sé. 

Flugvöllurinn á hins vegar að vera áfram í Vatnsmýrinni! Sannast hér að NÁND spítala við flugvöll er að minnsta kosti ámóta teygjanlegt hugtak og STRAX, sem eins og kunnugt er, er svo sannarlega ekki sem það sýnist, heldur þvert á móti eitthvað sem gerist í óskilgreindri framtíð, þ.e. bara einhvertímann, ef þá bara nokkurntíma. Hætt er við að þessar hugmyndir getið farið talsvert þvert ofan í kok svokallaðra flugvallarvina sem byggt hafa sér hreiður í umræddum flokki.

Komugjald á ferðamenn er á óskalista framsóknar, en ekki á að hækka virðisaukaskatt á þeirri starfsemi. Hugsanlega vegna þess að þá gætu einhverjir misst spón úr aski sínum.

Næsti liður gengur út á að bæta skuli kjör barnafólks og er ástæða til að óska Framsóknarmönnum til hamingju með að þeir hafi áttað sig á því svona í tilefni að hundrað ára afmæli flokksins, að börn þurfi til að íslenskt samfélag geti haldist við og blómstrað.

Nefnt er að taka eigi upp byggðastyrki til einstaklinga og fyrirtækja og er hugmyndin nær örugglega sótt til Evrópusambandsins líkt og tollasamningarnir alræmdu sem flokkurinn stóð fyrir á haustdögum 2015, enda flokkurinn gamall Evrópusambandsflokkur inn við beinið, þó lítið sé kannast við það nú orðið.

Svo á náttúrulega að bæta andrúmsloftið af því að það er svo gasalega vinsælt og passar allsstaðar inn í svona loforðalista.

Klykkt er út með að lofa öllu fögru fyrir þau sem eru að koma sér upp ,,fyrstu fasteign", atriði sem gleymdist á núverandi kjörtímabili, en óneitanlega ánægjulegt að það skuli vera munað eftir því svona rétt fyrir kosningar.

Flokkurinn sem rústaði húsnæðiskerfinu og verkamannabústaðakerfinu, lofar öllu fögru núna rétt fyrir kosningar. Flokkurinn sem sálgaði Lánasjóði landbúnaðarins, sveik hugmyndir sínar um Ísland sem ,,fjármálamiðstöð norðursins" - sem betur fer myndi víst margur segja. Gerði hvað hann gat til að eyðileggja samningaviðræðurnar við Evrópusambandið, lokaði Rússlandsmarkaðnum, gaf veiðiheimildir í makríl til vildarvina eins og bankanna forðum:

Lofar öllu fögru.

Trúi þeir sem trúa vilja.

 

 


Bloggfærslur 22. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband