Að breyta lit

Það sem helst ber til tíðinda þessa dagana er að innviðurinn í ríkisstjórninni skrifar undir eitt og annað, en hann er ekki einn svo við snúum okkur að öðru.

Það hefur verið í fréttum í gær og kannski lengur, að reynt var að skipta um lit á utanríkisráherranum – fyrrum fjármálaráðherra – og það merkilega er, að það tókst að nokkru a.m.k. að utan.

2023-12-10 (1)Ráðherrann bar sig vel eftir atlöguna, en ekki er víst að hann hafi vitað af breytingunni á jakkanum og því talið að allt væri nú þetta því í allra besta lagi.

Nái hið dularfulla efni sem dreift var yfir ráðherrann að lita sálu hans þá er bleik brugðið!

Hvers vegna þessi tilraun var gerð á ráðherranum er ekki alveg ljóst, þó látið hafi verið í veðri vaka að til hafi staðið að vekja hann til umhugsunar um stöðuna í Palestínu.

2023-12-10 (6)Í Palestínu er ástandið ekki gott eins og flestir vita og sé eitthvað að marka myndir sem þaðan hafa borist, þá er sem verið sé að flytja þá sem náðst hafa lifandi úr hildarleiknum á flutningabílum og væntanlega þá til aflífunar og síðan huslunar.

_ __

 

Atlaga að íslenska utanríkisráðherranum fór vitanlega út um þúfur og verður vonandi ekki reynd aftur í bráð, því það eru aðrar aðferðir sem við viljum nota til að koma skoðunum okkar á framfæri.

Það hefur mest tíðkast, að minnsta kosti í seinni tíð, að berjast með orðsins brandi, eins og við köllum það og vonandi verður það svo áfram.

Ráðherrann slapp óskaðaður frá atlögunni og við vonum, að hann hafi ekki orðið fyrir neinum skaða þó gusan hafi farið yfir hann.


Oft ratast...

Órólega deildin í Framsóknarflokknum klauf sig út úr flokknum eins og við munum, stikaði frá Háskólabíói yfir á Hótel Sögu, lagðist undir sæng og stofnaði í framhaldinu nýjan flokk sem fékk var nafnið Miðflokkur.

Miðflokkurinn er smáflokkur sem minnkaði enn, þegar í ljós kom eftir ,,Borgarneskosningarnar“ að einn þeirra sem boðið höfðu sig fram í nafni flokksins, hafði gert það undir fölsku flaggi, kastaði af sér miðflokkshempunni og gekk hið snarasta í Sjálfstæðisflokkinn.

Þar var honum vel tekið, því litlu verður vöggur feginn og allt er hey í harðindum, eins og þar stendur.

2023-12-07Því er það, að þegar þingmaður Miðflokksins segir eitthvað vera í hægagangi þá er rétt að leggja við hlustir og sperra eyrun, því eins og við vitum, þá er ekki farið með fleipur á þeim bæ!

Nú stígur fram einn þeirra sem eftir sitja í flokknum, ber sér á brjóst og lýsir alkunnum staðreyndum svo sem sjá má.

Tilefnið er orkuöflun fyrir sístækkandi þjóðfélag á landinu okkar bláa og það þarf svo sannarlega ekki mann frá miðju til að segja okkur frá því hvernig staðan er varðandi þau mál.

Við erum nokkur sem munum gerð virkjananna í Þjórsá, Blönduvirkjun og Kröflu sem byggð var á umbrotatíma í jarðsögulegu tilliti; tíma sem ekki var svo ólíkur því sem er núna á Reykjanesi.

Þá voru það tveir pólitískir andstæðingar, Jón Sólnes og Ragnar Arnalds, ef rétt er munað, sem tóku saman höndum og stóðu saman í því að reyna að koma virkjuninni áfram þannig að hún yrði að veruleika.

Fræg urðu og ógleymanleg svör Jóns, þegar hann var spurður þeirrar spurningar hvernig honum litist á stöðuna með gjósandi jarðsprungur í næsta nágrenni við virkjanasvæðið.

Svarið varð eitthvað á þessa leið: ,,Ætli við ,,kröflum” okkur ekki fram úr þessu?

Það gerðu þeir síðan félagarnir og aðrir sem að verkinu unnu og virkjunin varð að veruleika.

Menn áttuðu sig á því að þjóðin þurfti orku til að komast af og að það þurfti að gera fleira en að veiða fisk, rækta kindur, kýr og hesta og við vorum reyndar komin dálítið lengra en það.

Komið var álver í Straumsvík sem starfrækt hefur verið um áratugaskeið, sömuleiðis sementsverksmiðju o.s.frv. en það þurfti fleira til að styrkja og bæta íslenskt samfélag.

Þetta sáu menn þá, en sjá sumir ekki nú og því er þras og bras, að koma nýjum virkjunum frá því að vera hugmyndir og yfir til þess að verða að veruleika.

Þó búið sé að vinna alla undirbúningsvinnu, þá dugar það ekki til, því nóg er til af fólki sem telur að hægt sé að lifa í landinu okkar gjöfula og góða, án þess að lifa af því!

Vel getur svo sem verið að það sé hægt, en svo hefur ekki verið frá því að það byggðist og ef fundin er leið til að lifa í landinu án þess að ,,lifa af því” á nokkurn hátt þá þarf að útskýra það betur fyrir okkur hinum sem teljum að rétt sé að nýta auðlindir landsins, auðlindir sem annars ýmist rynnu ónýttar til sjávar, eða puðruðust upp í loftið engum til gagns og fáum til ánægju.

Vissulega eru til verðmæti sem við viljum ekki fórna fyrir nokkurn mun.

Engum dettur t.d. í hug að virkja hverasvæðið við Geysi sem vakið hefur hrifningu og aðdáun um aldir og mun vonandi gera það áfram. Við byggjum ekki heldur stóriðjuver á Þingvöllum!

Við gætum hins vegar virkjað neðri hluta Þjórsár og Héraðsvötn og fleira og fleira, því við búum í landi tækifæranna þegar glöggt er skoðað.

Hvort niðurstaðan verður sú að við sjáum það eitt framtíðarverkefni, að selja ferðamönnum aðgang að landinu okkar, kemur tíminn til með að leiða í ljós, en hætt er við að víða verði margt orðið niðurtroðið, útsparkað og breytt að lokum, verði farin sú leið og ekki síst ef haft er í huga, að ekki virðist mega bæta aðstöðu á ferðamannastöðum s.s. dæmi eru um t.d. við Landmannalaugar og víðar.

Það einkennilega er, að það hefur náðst fram að bæta aðstöðu á Þingvöllum og við Gullfoss og í Kerlingarfjöllum og ef til vill víðar án þess að einkavinir umhverfisins færu mikinn.

Einhvern veginn hefur þeim tekist að horfa fram hjá þeim lagfæringum, en hvað það var sem olli því að eftirtektin var bæði sljó og döpur gagnvart þeim athöfnum er óupplýst, en gefur okkur von um að hægt sé að lifa af og í landinu, án þess að allt fari í niðurníðslu.

Að stjórnmálaaflið sem nefnt í upphafi þessa pistils nái raunverulegum pólitískum áttum er hins vegar lítil von til, en um það gildir hið fornkveðna ,,að oft ratast... o.s.frv. og ætli við verðum ekki að sætta okkur við það!


Bitið í Biden?

Maðurinn sem gerði það svo ljómandi gott í Úkraínu er til umfjöllunar hjá Fréttastofu Ríkisútvarpsins, þar sem vitnað er til erlendra miðla, s.s. BBC, CNN og N.Y.T.

Þar kemur fram að hann hafur komið við víðar og við bætist Kína.

Við sem týnum einu og öðru og jafnvel stundum sjálfum okkur, finnum dálítið til með manninum sem virðist vera ósköp venjulegur að sjá sé tekið  mið af myndunum sem birtar eru með fréttinni.

Hunter þessi hefur viða komið við en einna mest hefur verið fjallað um bras hans í Úkraínu, þar sem hann er sagður hafa reynt fyrir sér í einhverskonar líftæknibrasi, sem venjulegur vélfræðingur og meðaljón kann ekkert að segja frá.

Hvort það var þar sem dularfull fartölva mannsins kom við sögu er ekki gott að segja, því lítið hefur verið sagt frá nær endalausum ,,rannsóknum" á því ágæta raftóli.

En eins og segir í tilvitnaðri frétt, þá er nú svo komið að til stendur að ákæra manninn fyrir skattalagabrot, þ.e.a.s. að hann hafi skotið einhverju undan skatti.

Að auki mun bíða hans ,,ákæra fyrir vopnalagabrot" eins og sjá má á myndskotinu sem tekið er af vef Rúvsins, svo sjá má að maðurinn kemur víða við.

Við Íslendingar látum okkur ekki bregða við tal um svoleiðis enda ókrýndir heimsmeistarar í greininni að eigin áliti.

2023-12-08Gera má ráð fyrir að þetta sé dregið fram vegna komandi forsetakosninga í heimsveldinu fyrir vestan og verður að segja, að það er frekar óheppilegt fyrir Biden gamla Jó sem þrátt fyrir háan aldur sækist eftir því að fá að vera forseti nokkur ár í viðbót.

Karlinn er orðinn töluvert við aldur, eins og áður sagði og þó einkanlega sé  tekið mið af keppinautnum Trump hinum trompaða - en ekki slompaða -, sem er nokkrum árum yngri og betur á sig kominn líkamlega að sjá.

Fátt er hægt að segja um andlegu hliðina á þessum gömlu baráttujöxlum, en Biden berst við að standa í fæturna, koma hundinum í öruggt athvarf, gæta stráksins strákslega, hafa uppá tölvunni og klappa Zelensky á kollinn og vangann. 

Þetta síðastnefnda þykir karli vera orðið frekar leiðigjarnt og tilbreytingarlítið í seinni tíð, því óskalistinn er alltaf sá sami: meira dót meiri peninga og bara meira af öllu!

Mikill vill meira, segir íslenskt orðtak og virðist það eiga nokkuð vel við hér, en Biden er líklega orðinn dálítið leiður á að vera sífellt minntur á það sama æ ofan í æ og síðan bætist þetta við með strákinn, sem reyndar er ekki strákur lengur, en hvað með það, sumir eru bara svo lengi að ná þroska.

Hvernig fer með komandi forsetakosningar er ekki gott að segja, en ekki er það vænlegt til ávinnings að vera kærður fyrir skattalagabrot í guðs eigin landi og ekki líklegt að meint brot stráksins, sem ekki er strákur lengur, verði föðurnum til framdráttar í framboðsbröltinu.

Og þar sem Trump hinn trompaði komst upp með ýmislegt, því þá ekki hinn glæsilegi og lífsreyndi vonarprins þjóðar sinnar, pabba síns og mömmu og hundsins hundslega sem fluttur var í útlegð?   


Heyflutningar, saga frá liðnum tíma

Á sjöunda áratug síðustu aldar, var staðan erfið hjá bændum á Austurlandi og víðar, en mun betri hjá sunnlenskum bændum.

2023-12-01 (5)Þá var gripið til þess ráðs að binda hey í bagga til að minnka rúmtak þess og flytja það þannig með skipum til þeirra sem á þurftu að halda.

Myndin sem hér fylgir með var í Morgunblaðinu, ef rétt er munað og sýnir hvernig staðið var að flutningunum til Reykjavíkur; bílarnir bíða losunar og bílstjórarnir hafa kíkt við á Hótel Sögu.

Nú er hótelið ekki lengur til sem slíkt, þó húsið standi enn og peningarnir sem kreistir voru undan nöglum fátæks bændafólks til byggingar þess, glataðir fyrir löngu.

Hvernig forustumönnum bændastéttarinnar gat dottið í hug að efna til byggingar montmusteris af þessu tagi í því peningaleysi sem var á þessum tíma, hefur aldrei verið skýrt og verður tæpast gert úr þessu.

Undirritaður kom dálítið að þessum heyflutningum, en þó ekki þannig að hann væri bílstjóri á flutningabílunum, enda tæpast með aldur til þess.

Þannig var að uppalendur mínir, móðurafi og amma, höfðu fest kaup á grasgefinni jörð austur í Flóa og þar voru hlöður fullar af heyi og nú voru góð ráð dýr.

Á þessum árum þótti sjálfsagt að fólk legði hönd á plóg til hjálpar þeim sem þurfandi voru og eins og áður sagði voru bændur á Austurlandi og Norðurlandi í vandræðum vegna uppskerubrests sem orðið hafði vegna kuldatíðar og kals í túnum.

Fram var komin tækni til að vélbinda hey í bagga með bindivélum sem knúnar voru af dráttarvélum og til að minnka umfang heysins var gripið til þess ráðs að binda það í bagga, en vélar til þess voru ekki á hverju strái.

Í Gunnarsholti var ein slík og um samdist að fá hana lánaða til verksins og var hún sótt á vörubíl þangað og losuð síðan af bílnum á hentugum stað, þar sem hægt var að bakka bílnum að sandbarði, tengja við dráttarvél og draga vélina síðan heim á bæ og nú var allt til reiðu til að hefja verkið!

Og þó ekki, því það vantaði mannskap til að moka heyinu úr hlöðunni og í bindavélina og ekki stóð á því og mannskapurinn var sóttur allt til Sandgerðis og víðar og allir vildu hjálpa til og ekki var spurt um laun, en góður matur og kaffi með meðlæti að sjálfsögðu í boði, sem var vel þegið.

Og svo var líka gott að fá tilefni til að hittast! 

Það þarf vart að lýsa því hve erfið vinna það er að handmoka heyi út úr hlöðu með þeim hætti sem þarna var gert og það launalaust.

Undirritaður, sem gerður var að traktors og bindivélarstjóra, var á kafi í vorprófum í gagnfræðaskóla þegar þetta var og svo sem geta má nærri, var lítill tími til upplestrar fyrir prófin, en þau voru tekin og náðust!

Til að gera langa sögu stutta, þá tókst að tæma hlöðuna og koma heyinu á vörubíla sem fóru síðan með það til Reykjavíkur, þar sem það var sett í skip og flutt til þeirra sem á þurftu að halda.

Í dag teldist þetta fullkomið óráð allt saman og trúlega færi heyið í plöstuðum rúllum í gámum á áfangastað ef til þess kæmi að flytja þyrfti það milli landshluta.

En á þessum tímum voru rúllur ekki til og ekki gámar heldur og fólk reyndi að bjargast með það sem til var.

Hver greiddi fyrir heyið og hvernig er mér ókunnugt um og man ekkert með vissu um hvernig því var háttað, enda er það ekki aðalatriði málsins.  


Traust

Það mun vera betra fyrir stjórnmálamenn að þeir njóti trausts.

Í umfjöllun Heimildarinnar er fjallað um traust fjármála- og utanríkisráðherra og síðan, utanríkis- og fjármálaráðherra og í ljós kemur ýmislegt sem áhugasamir geta kynnt sér, ef þeir nota sér tengilinn.

Skoðanakannanir af því tagi sem þar er vitnað er til, eru að mati ritara vísbendingar um viðhorf, en ekki naglfastar staðreyndir og því verður lítið lagt út af því sem þar kom í ljós en eins og fyrr sagði, er um að ræða vísbendingar.

Skjámynd 2023-10-15 085530Ríkisstjórnin sem við búum við núna er um margt sérstök og æði mörgum finnst sem engin leið sé að átta sig á því hvert hún er að fara eða koma.

Forsætisráðherrann kemur úr flokki draumóranna, væntinganna og trúboðsins. Þar er einnig stjórnmálaflokksfurða sem virðist ekkert vita um hvert hann stefnir, hvaðan hann kom, né hvar hann var; trúir jafnvel á ævintýri úr gömlum strákabókum ef ekki vill betur.

Það skal reyndar tekið fram að ævintýri af því tagi sem innviðurinn í ríkisstjórninni ætlar að bjóða Vestmanneyingum uppá og okkur hinum líka, hefur ekki verið í boði í slíkum bókum svo munað sé, ef frá er talin sagan um ferð að miðju Jarðar sem átti sér upphaf á Snæfellsjökli.

Það var ævintýri og ágætt sem slíkt, en Vestmannaeyingar vilja trúlega eitthvað naglfastara. Þeir búa núna við yfirvofandi vatnskort, rafmagnsskort og ljósleiðarasamband, einkum ef stjórnendur togara fara að gera það að venju, að reyna að fiska með akkerum skipanna!

Til upprifjunar skal sagt frá því, að innviðaráðherrann var að undirrita eitthvert plagg um samstarf við mann nokkurn í Ameríku, sem telur sig hafa fundið upp apparat sem getur étið sig í gegnum holt og hóla, fjöll og hafsbotna, bara ef hann fær rafmagn.

Maðurinn veðjaði að sjálfsögu á ,,bara" flokkinn, til að breyta draumnum í veruleika og við sjáum til hvað setur.

Ljónið í veginum er, að til að hrinda þessu í framkvæmd þarf rafmagn og það þarf að vera í boði og þar gæti staðið hnífurinn í þessari framsóknar- og draumakú. 

Ef Sjálfstæðisflokkurinn er ys- ið, framsóknarflokkurinn þysið, þá hlýtur svo að vera að Vinstri græn séu ekkert- ið (engu) í ríkisstjórninni. Ríkisstjórn sem snýst ekki um annað en að sitja og sem er sem betur fer hugmyndalítil að margra mati, þrátt fyrir það sem að framan sagði!

Undantekningin er þó sú að innviðaráðherrann er fullur af hugmyndum. 

Af þeim þurfa menn ekki að hafa áhyggjur því nær öruggt er að þær eru líklegastar til að vera bara hugmyndir áfram og þó svo sé, er þó kosturinn sá, að  þeir sem ekkert gera, gera ekkert illt af sér á meðan!

Sumir eru bestir þegar þeir láta lítið fara fyrir sér.


Tveir stríða, annar mætir, hinn ekki...

Ráðstefna er haldin og stofnunin sem hana heldur er kölluð ,,Öryggis og samvinnustofnun Evrópu".

Mæting á ráðstefnuna er valkvæð, en samkvæmt nafngiftinni, er á fundum stofnunarinnar, fjallað um öryggi og samvinnu ríkja í álfunni.

Það skal viðurkennt að ritara brestur minni, hvað varðar fyrri ráðstefnur af þessu tagi og lagðist hann ekki í heimildaleit til að afla sér upplýsinga þar um, en gengur út frá því, að stofnun sem ber svona virðulegan og ábyrgðarmikinn titil, rísi undir nafni og sinni því sem hún á að gera.

Í minni eru margvísleg tilefni til að huga að öryggi álfunnar, því eins og allir vita hefur ýmislegt gengið á í Evrópu síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk og væri hægt að tína til mörg dæmi þar um.

Allt frá upplausn Sovétríkjanna, til herforingjastjórnar í Grikklandi, styrjaldar sem leiddi til loftárása á Serbíu, sem seint munu gleymast og yfir í stríð um fiskveiðar milli Íslands og Bretlands, sem Ísland vann að sjálfsögðu, þrátt fyrir að vera miklu minna!

Ekki má heldur gleyma neistaflugi á Ermasundi sem varð vegna fiskveiða hins uppverslaða heimsveldis sem eitt sinn var og sem heldur að það sé enn.

2023-11-29 (2)Það er sem sé verið að halda ráðstefnu hjá fyrrnefndum samtökum um frið og öryggi og á fundinn er mættur Lavrov utanríkisráðherra Rússlands, en vegna fyrirhugaðrar komu hans á ráðstefnuna, fóru nokkur ríki í utanríska fýlu, sendu ekki fulltrúa og sitja heima.

Löndin sem heimasetuna kusu, eru: Eistland, Lettland, Litháen, Pólland og Úkraína.

Ekkert kemur hér á óvart, nema að fyrirmyndarríkið Úkraína skuli ekki vera með á ráðstefnunni, því eins og flestum mun kunnugt, þá er það ríkið sem staðið hefur í erjum við nágranna sinn í austri árum saman, en hefur að sjálfsögðu aldrei sjálft viljað kannast við að svo sé.

Þeir sem fylgst hafa með fréttum vita samt að svo hefur verið og að það er landsvæði sem kallað er Donbas sem einkum hefur verið þar undir og oftar en ekki hefur fólk verið drepið og jafnvel grafið í fjöldagröfum, þ.e.a.s. á árunum fyrir hina sérstöku hernaðaraðgerð.

Ísland átti þar til fyrir skömmu, utanríkisráðherra sem fljótur var að taka ákvarðanir og efaðist aldrei, svo vitað sé, neitt um að þær ákvarðanir væru réttar.

Vegna þessarar vissu, rak hún rússneska sendiherrann á Íslandi úr landi og kallaði þann íslenska heim frá Moskvu, var fljót að hugsa og viss um að hún gerði rétt, þá eins og alltaf, eða oftast að minnsta kosti.

Sumir vita, en aðrir þurfa að velta hlutunum fyrir sér, enda er það fyrrnefnda auðveldara og flýtir oft fyrir!

En aftur að ráðsstefnunni fyrrnefndu.

Lavrov er mættur og heldur ræðu á sinn yfirvegaða hátt og frekar ólíklegt er að hann snarist úr skó sínum til að leggja áherslu á mál sitt.

Þau sem heima sitja frétta síðan af því sem er að gerast á fundinum, af afspurn!

Rússland sigraði Þýskaland í heimstyrjöldinni síðari með samansópuðum her úr hinu víðáttumikla ríki; þurfti lengi að hörfa, standa síðan í stað, en að lokum var sótt fram af miklum þunga og sumir stukku á vagninn til hjálpar eins og segir t.d. frá í bókinni ,,Ég lifi", eftir  Martin Grey.

Lýsingarnar á Rauða hernum í þeirri bók eru fróðlegar en eins og við vitum, þá gekk Martin til liðs við þann her og fór síðan úr honum þegar hann vildi það sjálfur.

Endalok sögu þess ágæta manns voru sorgleg, en verður ekki lýst nánar á þessum vettvangi, þó hún megi sannarlega aldrei gleymast.

Enn er stríð og enn eru átök og nú á milli Úkraínu og Rússlands.

Úkraína er studd af NATO, ESB og þar með eða hvort sem er af Íslandi, enda er þar hugsað án þess að hugsa - hvernig sem það nú má vera - og ráðherrur hafa heimsótt glæsimennið Selenský, oftar en sumir hafa rænu á að heimsækja fólkið sitt á ,,ísa köldu landi". 

Það er haldin ráðstefna um frið í álfunni og annar þeirra aðila sem berjast sendir ekki fulltrúa á ráðstefnuna!

Af því verður dregin sú ályktun að sá vilji ekki frið, hafi jafnvel aldrei viljað og sé hugsanlega eitthvað að fela.

Sú ályktun verður dregin til baka þegar annað sannast!

Skróp eystrasaltsríkjanna er kapítuli út af fyrir sig, sem kannski verður fjallað um seinna.

   


Bormaður kemur og undir er skrifað

Fyrir skömmu brá sér til landsins maður sem bauðst til að leysa borvanda þjóðarinnar og niðurstaðan varð, að undir var skrifað og miklar væntingar urðu til.

2023-11-29Innviðaráðherra mundaði pennann og svo er að sjá sem framtíðin sé björt varðandi gangnagerð vítt um landið.

Hið frelsandi apparat sem nota á til verkanna gengur fyrir ,,hreinni" orku þ.e.a.s. rafmagni og eins og við vitum þá eigum við nóg af því, eða er það ekki?

Við vitum ekki hve mikla orku tólið tekur en einhver hlýtur hún að vera, en það er fleira sem ekki er alveg á hreinu fyrir okkur sem ekki vorum viðstödd kynninguna á búnaðinum, en vitum þó að Tom Swift hefði örugglega lyfst allur upp ef hann hefði frétt af þessu.

2023-11-27 (6)Kyndilborun mun það heita og við Íslendingar erum þau fyrstu sem fáum að njóta þess að nota tólið til þarfra hluta, því það vantar göng vítt um fjöllótt land, svo ekki sé nú talað um til Vestmannaeyja, sem eins og flestir vita eru dálítið afskeggt samgöngulega séð, ef svo má taka til orða.

Þar á líka að byrja borunina, sem ekki er borun, heldur einhverskonar bruni ef marka má myndina sem fréttinni fylgir, en hvað verður um bergið sem brennt er, fylgir ekki sögunni.

Við vonum að það hverfi eitthvað út í astralplanið, eða hvað sem það nú heitir, svo allt gangi þetta nú fljótt og vel og Vestmanneyingar fái göng fyrir rafkapla og vatnslögn, lagnir sem senn verða neðanjarðar og þar með óhultar fyrir skemmdum sem geta orðið vegna trassaskapar þeirra sem yfir þær sigla.

Það er reyndar eitt ljón í veginum, eða réttara sagt berginu, því okkur grunar að til að þetta takist vel muni þurfa rafmagn, en það er orðið af skornum skammti í landi orkulindanna.

Við höfum nefnilega verið svo gæfusöm að búið er að innræta vinstrigrænt smit inn í hina fjölbreyttu stjórnmálaflokkaflóru landsins og nú stefnir í vistvænan orkuskort af þeim sökum.

Hvað sem þessu líður, þá sjáum við dýralækni og lögfræðing, að við höldum, en báðir eru auk þess ráðherrar, skrifa undir plagg varðandi hina fyrirhuguðu ormagangagerð.

Hvort hús kólna, ljós dofna og rafbílar sofna, þegar græjunni verður stungið í samband, verður spennandi að fylgjast með, en við vonum hið besta og að senn verði hægt að aka óhindrað í gegnum hin fögru fjöll landsins.

Það mun stytta leiðir ef vel tekst til og hugsanlega getur þjóðin lagst í dvala á meðan framkvæmdirnar standa yfir og þannig lagt sitt að mörkum til orkuöflunar; vaknað svo upp og farið að njóta hinna nýju samgönguleiða.

Það verður víst eitthvað að gera, fyrst flugvélarnar fást ekki að ganga fyrir rafmagni svo vel sé. 

 


Þá koma tímar og þá koma ráð

Við sjáum í fréttum að innviðaráðherrann hyggst bora göng til Vestmannaeyja með nýrri tækni sem knúin er með rafmagni, en við sjáum jafnframt, að hann hefur fengið tilsögn í ,,hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður" varðandi meðferð fjármuna.

2023-11-27 (4)Á mynd sem fylgir fréttinni, mundar hann pennann, en eins og við vitum, er það upphaf alls í nútíma þjóðfélagi að kunna að að halda á penna.

Tólið sem bora mun göngin er tækniundur sem ganga mun fyrir rafmagni, þ.e.a.s. ef það verður þá til, en það gæti nefnilega staðið hnífur í þeirri tæknikú.

Því eins og við vitum, hefur verið tilkynnt að lítið sé orðið um rafmagn hjá Landsvirkjun.

Þar á bæ vita menn hvernig á rafmagnskortinum stendur og við það verður ekki ráðið meðan Vinstrigræningjar ráða í þjóðfélaginu og gleymum því ekki að hin vinstrigrænu fara með forystu í ríkisstjórninni!

2023-11-27 (1)Framsóknarforinginn hefur ákveðið að gleyma því hvernig ríkisstjórnin er skipuð og skrifar undir plögg sem enginn sé morgundagurinn.

Landsvirkjun hefur varað við því að lítið sé til af vatni í miðlunarlónum og því þurfi að skerða afhendingu orku til sumra viðskiptavina og á myndinni sjáum við hverjir það eru sem helst fyrir barðinu verða.

Það eru fiskvinnslan og (ó)gagnaverin sem fyrir fyrir skerðingunni verða, en ekki rafbílahleðslurnar, a.m.k. ekki enn sem komið er.

Fram kemur í tilkynningu Landsvirkjunar að skerða þurfi afhendingu til fiskvinnslu, fiskimjölsverksmiðja, fiskþurrkunar og gagnavera sem stunda rafmyntargröft.

Ástæðan er skortur á raforku sem stafar af vatnsskorti. Þjóðinni hefur fjölgað en einnig íbúðum og atvinnuhúsnæði og notkunin á raforku eykst.

Ekki má heldur gleyma því, að rafbílaflotinn tekur til sín sífellt meira og meira af rafmagni eftir því sem bílunum fjölgar, auk þess sem þeir spæna upp vegina af miklum móð.

Það gerir hinsvegar ekkert til, því allt er þetta svo hagkvæmt, a.m.k. þangað til að farga þarf rafhlöðunum.

En þá koma tímar og þá koma ráð og engin ástæða til að vera að hafa áhyggjur af hinu ókomna.

Því það kemur bara, eða eins og segir í máltækinu:

Þá koma tímar og þá koma ráð!


Það sem ekki má

Horður- kóreumenn skutu á loft gerfihnetti eftir því sem sagt er frá af Ríkisútvarpi allra landsmanna.

Suður- Kóreustjórn fór í fýlu, sem kemur engum á óvart og Japanir telja sig þurfa að skoða málið.

Skjámynd 2023-11-22 070311Myndin og textinn undir henni eru fengin af Rúv.

Ekki kemur fram hvort íslenska ríkisstjórnin sé orðin strekkt á taugum vegna skotsins, en gera má ráð fyrir að það fari dálítið eftir fyrirmælum og viðbrögðum bandarískra stjórnvalda og því hvað Zelenský segir um málið. Ekki má gleyma því!

Indverjar skutu flaug til Tunglsins fyrir nokkrum vikum, lentu farinu þar með glans og varð það fáum tilefni til taugatitrings svo vitað sé, nema að mögulegt er, að rússneskir geimvísindamenn hafi orðið aðeins svekktir vegna brotlendingar þeirra á sama stað stuttu áður.

Samkvæmt fréttinni er um að ræða njósnahnött og sé það rétt er eðlilegt að taugar teygist á þeim sem eitthvað hafa að fela.

Annars er það stórfurðulegt hvernig þetta litla ríki getur velgt mönnum undir uggum, því fáir vilja við Kim tala, nema Trump og Putin og kannski Xi.

Bandaríkjamenn eru uppteknir í að eltast við fljúgandi furðuhluti og gera það af svo miklum krafti, að ekki er vogandi að sleppa gasfylltum blöðrum í því ágæta landi, né nágrannalöndum og alls ekki í þeim löndum sem þeim er illa við.

Uppáhöldin okkar Mulder og Skully, blómstra sem aldrei fyrr og Biden er aldrei hressari en þegar honum er sagt frá svífandi blöðrum í grennd.

,,Grennd" er teygjanlegt hugtak eins og við vitum þegar pólitík er annars vegar og þar sem hún stingur sér víða niður og ekki síst í hugskot þeirra pólitíkusa sem hafa eitthvað að fela, þá er lengi von á einum, eins og þar stendur.

En alla vega hafa menn eitthvað um að hugsa, á meðan og ef, hnötturinn svífur um himingeiminn og kannski best að fara að taka til í kringum sig.

Undirritaður ætlar alla vega að kíkja út og athuga hvort þar sé eitthvað sem betra sé að fela!


Kominn tími til að hætta?

Á meðfylgjandi tengli inn á umfjöllun CNN um stöðuna í styrjöldinni milli Rússlands og Úkraínu, kemur ýmislegt fróðlegt fram.

Það vantar allt til alls ef svo má segja, því þegar ekki fæst lengur fólk og við ofurefli er að etja, þá er stríðið tapað.

Úkraína er sem verktaki í þessari styrjöld við Rússa og verktakarnir eru vesturlönd sem leggja til fé og herbúnað.

Og sjúkrahús á hjólum, ekki má gleyma því!

Þó Úkraínu berist allt þetta frá Bandaríkjunum og fylgiríkjum þeirra og þar með talið Íslandi, þá dugar það ekki til.

Úkraína er langtum minni en Rússland í öllu tilliti og gildir það jafnt um, hvort horft er til landstærðar, fólksfjölda, innviða, efnahags, svo ekki sé nú minnst á stjórnkerfið og margt fleira mætti til telja.

Skjámynd 2023-11-19 175009Zelensky sést hér á fundi með belgískum forsætisráðherra fyrir nokkrum dögum og við þurfum vart að giska á hvert erindið er.

Í grein CNN er fjallað um stöðuna á vígaslóðinni og dálítið um hvernig málin blasa við þeim sem enn eru í Úkraínu.

Eru þar enn, en margir eru farnir þó fleiri séu eru eftir.

Þegar svo er komið í styrjöld, að illa gengur að manna herinn og menn sjá sér vart tilgang í því að fórna lífi sínu og limum til lítils eða einskis og baráttuandinn er farinn að dvína, þá styttist í endalokin skyldi maður ætla.

Skjámynd 2023-11-19 175214Menn skilja ekki hvað við erum komnir út í segir hermaður og er dapur á svip ,,Ég fór í þjónustuna í upphafi innrásar Rússa 24. febrúar (2022). Á þeim tíma var engin boðun sem slík, mörg ungmenni hlupu til og gengu í herinn og ég gerði það sama.“

Í upphafi stríðsins var andinn annar og karlmenn buðu sig fram frekar en hitt og það gerðu konur líka.

,,Ég hef rætt við eiginmann minn um að ég skrái mig á skrifstofu hersins. Hann studdi mig.“ segir konan og er til í að Skjámynd 2023-11-19 175148leggja sitt að mörkum í baráttunni.

Hvort unga fólkið sem er tilbúið til að fórna lífinu fyrir þjóð sína, gerir sér grein fyrir stöðunni er hreint ekki víst.

Hitt er víst, að öll góð öfl ættu að gera sem þau geta til að stilla til friðar í stað þess að etja ungmennum út í blóðbað, sem ekki er annað að sjá en að ljúka muni með ósigri.

Það er að fjara undan Úkraínu í þessu stríði, fréttamenn sem kynna sér málið sjá það og skilja.

Það eru stjórnmálamennirnir, sem líkt og svo oft, skilja ekki sinn tíma og átta sig ekki á að anað hefur verið út í fen sem erfitt er að komast uppúr.

Kannski skilja þeir meira en við höldum, en eru króaðir af og finna ekki leiðina út.

Við höfum séð þetta áður og eigum eftir að sjá það aftur.

Þá má hugsa til þess, að ekki er gott að egna björninn þegar hann hvílist í hýði sínu, því þegar hann vaknar þá bregst hann illa við.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband